160822

Kvíðinn minn ii

Þegar frændi minn
sem hefur sjaldan samband
hringir í mig
seint á sunnudagskvöldi
verður mér hugsað til
svörtu jakkafatanna
inni í fataherbergi

ætli þau passi enn?

 

Morgunsár

Vakna við geltið frá hundi nágrannans
augun þurr
hlýt að hafa sofið með þau opin
legg hönd yfir andlitið

þetta er ég
það leynir sér ekki
ég hef ekki breyst í fisk
á meðan ég svaf

örlar á létti
eða ég held
að þetta sé léttir

þreifa á nefinu
og finn til
hlýtur að vera
inngróið nefhár
eða stíflaður fitukirtill

ég held
ég hljóti
að vera vaknaður

heyri geltið aftur
og núna hefur það færst nær

dreg frá svefnherbergisglugganum
en sé engan hund
bara nágrannann að reykja
í dyraskýlinu
finn ilminn af sígarettunni hans

en þegar ég heyri geltið
í þriðja sinn
kemur það innan úr svefnherberginu
og ég fer að velta fyrir mér
hvort nágranninn
eigi ekki örugglega hund

 

03082022

Sumarfríið
var sem myndskreytt
af Halldóri Péturssyni

þú veist
áhyggjufrítt
heilnæmt
og ilmaði af steiktum
hamborgurum

en svo bilaði þvottavélin

 

 

Andvaka

Steinhaldiði kjafti
sagði ég
í huganum
við þrastaparið
um klukkan hálf fjögur
í nótt

óafvitandi 
var það
að minna mig
ónytjunginn
á allt
það sem
ég ætlaði
að gera
í sumar

 

Á hinsta degi

Kjarnorkuvetur
hefur brostið á
og þrjátíu og fimm ára gömul
unglingamartröð
er orðin jafn raunveruleg
og frunsa
á óheppilegum stað

að morgni
okkar hinsta dags
austur á heimsenda
vaknaði ég
úfinn
staulaðist fram úr
svefndrukkinn
og passaði
að vekja ekki konuna mína
sem sefur lengur en ég
sökum aldursmunar

létti á mér
og strauk af mér
uppþornaðan sleftaum
við hægra munnvikið

var þvagið grunsamlegt á litinn?
var þetta nýr verkur
aftan við vinstra herðablaðið?

hellti upp á kaffi
og stakk upp í mig
döðlu
rétti úr mér
voðalega brakaði einkennilega
í hryggsúlunni
ætti ég kannski að fara til hnykkjara?

aldrei grunaði mig

á hinsta degi
með ískyggilega
ofbirtuna í augunum
yrðu áhyggjur mínar
svona ómerkilegar
lítilfjörlegar
en umfram allt

hversdagslegar

 

Reykjavík að morgni

Í Reykjavík get ég ornað mér við skjábirtuna tímum saman óáreittur og fylgst með öðru fólki.

Enginn fylgist með mér. Og svo virðist sem enginn fylgist með neinum í þessari borg enda fara skáldin út á land til að skrifa og blaðamenn fiska fréttirnar af Twitter.

Öll að flýta sér eitthvert. Öll nema við túristarnir sem gónum í kringum okkur á Laugarveginum. Allt vekur athygli. Á meðan horfa heimamennirnir einbeittir fram fyrir sig. Á leiðinni frá A til B. Engir útúrdúrar. Ekkert rugl.

Ég er líka á leiðinni frá A en villist svo í stafrófinu. Áður en ég enda inni í plötubúð í miðbænum, sem var svosem alltaf planið, fylgja augu mín þvældum kassa utan af Dominospítsu sem hrekst undan vindi í austurátt og hugrenningartengsl við einhvern vestra eru óumflýjanleg. Gegndrepa af poppmenningu síðustu áratuga. Get ekki að þessu gert.   

Ég sest inn á kaffihús og panta latte eins og vera ber. Þið vitið, when in Rome…

 

Sit og horfi útum gluggann. Þýsk hjón (gætu ekki verið neitt annað) á aldri við foreldra mína reyna að lesa á kort af miðbænum. Brátt heyrir þessi hegðun sögunni til. Verður bara til í sjónvarpsþáttum sem eiga að gerast í gamla daga. Opna dagbókina og les það sem ég skrifaði í gær. Þetta er kannski ljóð. Ég bara veit það ekki.  

 

Að hafa ekki snert vín

og að vera hættur á að drekka

á þessu tvennu

er reginmunur

 

sá sem aldrei hefur drukkið áfengi

hefur orðið af þeirri reynslu

(þeirri dýrmætu reynslu!)

að missa tökin

og hefur

þar af leiðandi

frá ýmsu að segja

í svona kaffihúsaspjalli

sem gæti átt sér stað

til dæmis hér

eða í Íslandi í dag

 

sá sem hættir

getur sagt frá því

hvernig edrúmennskan

hafi kennt honum

að meta lífið

börnin og makann

og hundinn

og svo framvegis og framvegis

 

sá sem aldrei hefur drukkið

er líka með sögu í farteskinu

en hún á hins vegar

mögulega betur heima

inni í

einhvers konar „viðtalsherbergi“

Hún er herðabreið og hávaxin konan sem stígur inn fyrir þröskuldinn. Hún er klædd samkvæmt tískunni. Einhverri tískunni. Gæti verið frá síðasta áratug. Ég ber ekki lengur skynbragð á þessa hluti. Hún lítur út fyrir að vera á aldri við mig en hún gæti sem best verið eldri og hún gæti verið yngri. Ég er hreint ekki viss. Hún biður um aðstoð sem er nokkuð sem menn eins og ég gerum aldrei. Hún segist vera í „nostalgíukasti“ og biður um „eitthvað gamalt og gott.“

„Á vínyl þá eða…?“ spyr afgreiðslumaðurinn, mjúkmáll, en átti greinilega ekki von á þessu. Klukkan ekki orðin hádegi og það er kona í búðinni. Hann þreifar á beltissylgjunni en mig grunar að hann sé að athuga hvort hann sé með opna buxnaklauf.

„Nei, á geisladiski.“

(nú veit ég að hún er á aldri við mig)

„Ókei,“ segir hann og klórar sér í kollinum. „Hvað kallarðu gamalt og gott?“

(var einmitt að hugsa það sama)

Hún hugsar sig um og afgreiðslumaðurinn reynir að hjálpa. „Kannski eitthvað með Ellý eða…?“

„Nei…“

„Frank Sinatra eða eitthvað svoleiðis?

„Njaaa…“

„ABBA?“

„Nei,“ svarar hún ákveðið. „Hérna, ekki áttu sándtrakkið úr Dracula?“

„Já, þú meinar…“ Hann nuddar hökuna í sífellu og teygir sig í kaffibolla. Þessu átti hann ekki von á (og ég ekki heldur). Hann sýpur og spyr allt að því feimnislega:

„Þú ert þá að meina Nosferatu er það ekki?“

„Nei…ég held alveg örugglega að hún hafi heitið Dracula.“

„Með Max Schreck eða…?“

„Nei, þessi var með Keanu Reeves og einhverjum sem ég man ekki hvað heitir. Barry eða kannski Gary…“

„Jánei, þetta eigum við ekki til,“ segir hann snögglega og varpar öndinni bersýnilega léttar. Bætir við, eins og af vana: „Því miður.“

 

Heilræði

Það getur verið svo
helvíti ópraktískt
fyrir heimilið
að vera of upptekinn

af sjálfum sér

sértu ekki með fullri
meðvitund
um þarfir hinna
getur eitthvað
í líkingu við þetta
gerst:

þú ferð út í búð
og það er þrennt á listanum:

nýmjólk
uppáhalds morgunkorn barnanna
og eyrnapinnar

en þú kemur heim
með maríneraðar ólívur
sem enginn borðar
og enginn elskar

nema náttúrulega þú

 

Gátur

Á ég að segja þér ráðgátu?

Sonur minn, fjögurra ára, spurði mig í gær. Endilega hreint, sagði ég. Segðu mér ráðgátu. Ég fékk tvær:

  • Af hverju gat maðurinn ekki kveikt á jólaseríunni þegar hún var ekki í sambandi? 
  • Af hverju gat maðurinn ekki opnað ólæstar dyrnar þegar einhver stóð fyrir?

Gátur af þessu tagi, sem innihalda bæði spurningu og svar, eru mitt uppáhald. Ég er nefnilega vonlaus í gátum og sjaldnast skil ég brandara. 

Meira af EO. 

“Hvar ertu að vinna?” spurði skólabróðir hans í leikskólanum fyrir stuttu. Snúin spurning því ég veit ekki alltaf sjálfur við hvað ég vinn. Dóttir mín hefur t.d. sagt vinum sínum að ég sé trommuleikari og ég geri engar athugasemdir við það.

En það kom sumsé á mig pínu fát og á endanum sagði ég honum að ég ynni “niðrí bæ.” Drap málinu á dreif eins og sannur upplýsingafulltrúi en þetta óljósa svar hafði engin áhrif á þennan skýrleikspilt sem dró rökrétta ályktun:

“Ertu í bæjarvinnunni?”

Næst segist ég vera skrifstofukall. Það ætti að kæla málið.

Fann þennan texta í gamalli minnisbók. Mögulega týnd málsgrein í skáldsögu sem ég skrifa einhvern tímann.

Yfirskriftin var Annars hugar.

Síminn skelfur. Þúsund notifications. Ég heyri börnin gráta en geri ekki neitt. Er með hugann við símann. Spyr mig í huganum: Hversu miklum skaða muntu valda?

Það dropar af grýlukertinu við austurgluggann. Klára úr bollanum og hjarnið bleika er óðum að mýkjast. Eftir smástund verð ég til í allt. Kannski ég geti fengið hugmynd. Kannski ég geti fengið hugmynd og hrint henni í framkvæmd? 

Elín segist vera svöng og biður mig um að skjótast í búð og kaupa vefju og sykurlaust appelsín. Helst með indverskri sósu. Ég fer í búðina og kaupi samloku með svona fínni spænskri skinku sem ég er viss um að hún fílar. Já, og sódavatn. Slóra á leiðinni til baka. Hlusta á nýtt lag með Big Thief. Veit ekki hvort mér finnst það gott og hætti að hlusta eftir fyrsta viðlag. Dríf mig heim og færi Elínu samlokuna með spænsku skinkunni. Sýnist vera pestó á henni líka. 

Hún tekur við henni, horfir á mig og stynur svo eins eins og langveikt gamalmenni. Ég horfi útum austurgluggann. Fyrir framan mig víðáttan. Píkubleik víðáttan. Og enn skelfur síminn.    

 

Grænmeti

Týpuálag íhaldsmanns
á besta aldri
utan af landi
gæti útlagst
einhvern veginn svona:

kæri sáli
þrátt fyrir
að rófur og kartöflur
séu hrjúfar
þjóðlegar
og á vissan hátt
karlmannlegar

fer ég með tilraunir mínar
til veganisma
eins og mannsmorð