Eftir tíma í kynfræðslu
sem bóndinn innti af hendi
eins og ekkert væri sjálfsagðara
og nýtti til kennslunnar
alls kyns dæmi úr sauðfjárbúskap
sem vörpuðu beinhvítu
ljósi
á samlíf kynjanna
stukkum við á hraðferð
út í skærgult vorið
skvettum rassi
mannýgar og fölar
norðfirskar
fimmur og sexur
úr 9-B
hægferð
fyrir ofan
og á hlið
skjöldóttur fjallahringur
og svo að segja
endalaus blámi himins
stálgrá og gluggalaus
saltfisksskemma
flatmagaði
í fjarðarbotni
Author: jonknutur
Árátta yfirlesarans
Renni yfir textann
þar sem þið færið rök
fyrir höfnun umsóknarinnar
píri augun
hreyfi varirnar
en það heyrist ekki bofs
í huganum geri ég tilboð
ég gæti læknað ykkur
af þágufallssýkinni
og bent á
að maður segir „grannskoða“
en ekki „grandskoða“
fyrir ellefu þúsund og tvö hundruð krónur
á tímann
Um sársauka Þorbjargar Kristrúnar Möller (eldri)
Hamingjusöm fjölskylda
er eins og vel rekið fyrirtæki
og jólakveðjan er ársrit
hún handskrifaði hvert einasta kort
vel á fjórða hundrað þegar mest lét
og sinaskeiðabólgan var
að drepa hana
er hún hrærði í sveppasósunni
síðdegis á aðfangadegi
hún hafði kryddað hana
saltað og piprað
eftir kúnstarinnar reglum
en smakkaði aldrei til
sleikti svo mörg frímerki
að allur matur
bragðaðist hvorteðer
eins og sundlaugarvatn
já og svo ekki sé minnst á kvalirnar
sem pappírsskurðirnir á tungunni
ollu henni
þeir greru ekki almennilega fyrr en
í upphafi góu
kvíðinn fyrir jólunum
gerði vart við sig
fljótlega eftir verslunarmannahelgi
skiljanlega hefði einhver sagt
og óx svo að segja stjórnlaust eftir það
í kringum fyrsta vetrardag
leysti hún út litla pakkningu af Zoloft
enda svefninn kominn í algjört rugl
þú getur rétt ímyndað þér
að hún var ein af þeim
sem fagnaði stafrænum lausnum
og í dag lætur hún Google
klippa saman nokkrar vel valdar myndir
úr ferðalögum ársins
í messunni á jóladag
verður henni stundum hugsað til
aðstæðna framlínustarfsfólks hjá Pósti og síma
hér á árum áður
og hefur þér að segja
hneigst nokkuð til vinstri í stjórnmálaskoðunum
þótt hún fari ekki hátt með það
Furður á horni Mánagötu og Heiðarvegs
Ég var svo undrandi þennan morgun
þennan silungsbleika febrúarmorgun
þegar barn bauð mér góðan dag og úr munni þess
kom hás rödd nærri fimmtugrar kennslukonu
að mig langaði næstum því
að ræða við það um
lánakjörin hjá lífeyrissjóðnum
afleiðingar kvótakerfisins fyrir byggðir landsins
yfirvofandi stríð á landamærum Rússlands og Úkraníu
stöðu blaðamennskunnar á Íslandi
og hvort sé skárra fyrir þarmaflóruna
Coke Zero eða kaldbruggað kaffi
en ekki endilega í þessari röð
Sunnudagsmorgunn
Börnin vilja ekki vakna
og ég vil ekki vekja þau
hinn fullkomni díll
Yfir moldinni
Þetta er löngu liðin tíð
en öll leikkerfin
sem þú samdir
með vísifingri í mölina
á hrufluðum hnjám
umkringdur vinum og yngri frændum
enduðu með marki
sem þú skoraðir
og þetta er minningin mín
um þig
gamall vinur þinn
sagði frænku sem sagði gömlum frænda
sem sagði svo mér
eitt og annað
um skilnað
og önnur vandamál fullorðinna
sem enda sjaldnast með marki
en það breytir engu
þetta er minningin mín
um þig
Ljósmynd í snjáðu albúmi
I
Hvít skyrta
og brilljantín
ég þekki föður minn
þar sem hann
hallar sér fram á borð
með glundur í glasi
töffaralegur
ólofaður
og ölvaður
ég kannast við augnaráðið
minnir á mitt eigið
í þessu ástandi
aftan á myndinni
með tengiskriftinni hans
„Á Þórscafé“
II
Tveggja ára sonur minn
leikur sér með vörubíl á eldhúsgólfinu
haglél
eins og gróft salt
skoppar af glugganum
III
Þeir höfðu fundið borð
og hófust handa
eins og ungum sjómönnum
í Reykjavík
langt
langt
að heiman
var tamt
(get ég ímyndað mér)
og seinna um kvöldið
eftir snúning á dansgólfinu
með reykvískri dömu
hrópaði einn þeirra:
„hún veit ekki einu sinni hvað Scania Vabis er!“
og uppskar svo mikinn hlátur
að hann bergmálar enn
eins og þú getur
ímyndað þér
varð hann vörubílstjóri
eignaðist konu
og hún hann
og þau eiga hvort annað
enn í dag
IV
Sé þau stundum í búðinni
haldast í hendur
sem er ekki sjálfsagt
á þessum aldri
og ég hef oft hugsað
að hún hljóti að vita sínu viti
um sænska bílaframleiðslu
upp úr miðbiki síðustu aldar
Tíminn
Þú hlærð ekki lengur
þegar ég brýt saman
súrmjólkurfernuna
og læt hana reka við
á þann hátt
sem pabbi þinn einn kann
en svo hrynja himnar
þegar bekkjarbróðir þinn
kremur býflugu!
þannig er nú það
tíminn
segja þeir
er ólseigur
og líður áfram
eins og stórfljót
ég veit það ekki
varla
ég held nefnilega
svona okkar á milli
að þannig tali bara menn
sem hafa of lítið fyrir stafni
því tíminn
segi ég
er heimsþekkt dansspor
sem geysist áfram
aftur á bak
Sektarkennd
Hvað fyllir þig sektarkennd?
Spyr hann mig, stokkurinn.
Ætli hann sé að vonast eftir heiðarlegu svari? Veit hann ekki að þá þarf ég tólf metra, jafnvel þótt ég noti einfalt línubil og níu punkta letur?
*
Þegar ég borða átján konfektmola en ekki bara einn í fjölskylduboði á Fáskrúðsfirði, þegar ég fýlustjórna börnunum mínum til þess eins að þau klæði sig í vettlinga en það eina sem þau þurftu var knús og þá hefði málið leyst sig sjálft, húfa, vettlingar, trefill og allt; þegar egóið lætur á sér kræla og ég hringsnýst um sjálfan mig í þeirri vissu að allir séu að bíða eftir mínum næsta leik eða já, bara, þegar ég er með hausinn upp í rassgatinu á sjálfum mér, gónandi á mig í speglinum á morgnana, hugsandi: úúú, helvíti líturðu vel út! Þú veist, miðað við aldur!
Þetta er dæmi um einfalt svar við spurningunni.
*
Við lifum á tímum siðaskipta, eins og mæt kona benti á um daginn, og enginn er undanskilinn. Ekki einu sinni Daði og Gagnamagnið, uppáhalds hljómsveit barnanna minna, og ekkert skrýtið að konur velti því fyrir sér hvort allir karlmenn séu annað hvort pervertar eða ofbeldismenn.
Stundum er mitt sjálfvirka viðbragð að hlaupa í vörn fyrir kynbræður mína en svo hugsa ég málið. Velti því fyrir mér í svona þrjár til fimm sekúndur og auðvitað veit ég að þarna talar sektarkenndin því ég get ekki einu sinni undanskilið sjálfan mig. Ég get ekki bara sagt:
„Þetta er ekki mér að kenna!“
Því hverjum er þetta þá að kenna? Tommy Lee?
Akkúrat. Einmitt.
Nei, það verður enginn undanskilinn. Ekki ef við viljum að barnabörnin okkar eignist ærlega feður.
Þetta var flókið svar. Þau eru fleiri.
Á þriðjudegi kl. 14:36
Á stofuborðinu gerviblóm
í vatni
við hlið þess
ljósmynd af bæjarfjallinu
í gylltum ramma
baðað tunglsljósi
og filterum
sem barnabarnið kenndi honum að nota
Alfreð Henry
fyrrum aflaskipstjóri
og formaður golfklúbbsins
reynir að festa hugann
við handboltaleikinn
án árangurs
því að sko
hann er enginn útlendingahatari
bara hreint ekki
pólska stelpan sem þrífur sameignina
sem heitir annað hvort Olivia eða Zofia
er t.d. frábær
og Tito
þessi sem keyrir bílinn
er ekkert nema kurteisin
en hvers vegna
í almáttugs bænum!
þurfa gínurnar
í fatadeild kaupfélagsins
að vera svartar?