Svefn

Mér er sagt að stuttur svefn muni á endanum drepa mig. Það eru einmitt svona fullyrðingar sem halda fyrir mér vöku og þess vegna er ég er kominn á fætur fyrir allar aldir. Einum og hálfum tíma síðar vek ég börnin og lífið hefst fyrir alvöru.

Þegar maður stofnar fjölskyldu er þetta eilíf togstreita fyrstu árin, hvað má maður nota mikinn tíma í sjálfan sig eða þetta sem ég geri einn í stofunni á morgnana. Hvar eru landamærin á milli sjálfselsku og sjálfsræktunar?

Það tók sinn tíma að finna jafnvægið og hægt og rólega sér maður að einvera er skemmtilegust ef hún er tilbreyting frá félagsskap við fjölskyldu, vini og ættingja. Og þessu er á hinn veginn farið líka. 

… 

Nú. Ég gæti notað þennan tíma til að setja í vél, athuga með bankið í ofnunum, undirbúa skattaskýrsluna og svo framvegis út í hið óendanlega en ég geri það ekki. Það veldur auðvitað kvíða og stundum sjálfshatri enda er maður afsprengi samfélags þar sem maður á ætíð að vera gera eitthvað og segja eitthvað. Sitji maður hljóður, með hendur tómar, er maður von bráðar spurður: Er ekki allt í lagi hjá þér? 

Maður á ætíð að vera koma að gagni. 

Og hvað geri ég eldsnemma á morgnana? Ég hugleiði, les bækur og hlusta á tónlist. Skrifa ef ég er í stuði. Stundum stunda ég líkamsrækt og stundum sest ég við trommusettið en það gerist æ sjaldnar. Maður á að þjálfa hugann á morgnana. Hitt getur beðið. 

 

 

 

Hjartað

Við getum verið sæt eða ljót, rík eða fátæk en samt er ég nú bara hér á hjartadeildinni í félagsskap eldri manna.

Er yngstur sem er ekki endilega gott í þessu samhengi.

Hjúkrunarkona tekur lífsmörkin og ég hugsa um veturinn sem vann á geðdeild. Hugsa um Suður-Ameríkanann sem vann á vaktinni með mér á nýársnótt. Hræðileg nótt sem mig langar ekki til að segja frá. Ekki núna. Nema frá þessu fallega augnabliki þegar hann kveikti á sígarettu rétt eftir miðnætti útá svölum deildarinnar. Stranglega bannað náttúrulega en þessir Chilebúar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur borgaralegri óhlýðni.

“Vertu ekki svona hræddur,” segir hann við mig og býður mér. Ég kem sjálfum mér á óvart og þygg. Við reykjum saman og hann segir einhverjar sögur af sjálfum sér sem ég man ekki.

Mér leið vel. Held svei mér þá að ég hafi verið í hátíðarskapi.

 

Foulcault, sá franski, skrifaði um fyrirbærið panoptikom og notaði það sem metafóru fyrir hvernig félagslegu taumhaldið yrði háttað í framtíðinni sem var næstum því ókominn

 

Ég gekk til rjúpna með góðum vini um síðustu helgi. Fékk ekki neitt svo það komi strax fram. Og mér er eiginlega sama. Eða svona næstum því…

Ég tók meðvitaða ákvörðun síðasta vetur að verða mér úti um veiðikort og skotvopnaleyfi. Ég hef aldrei haft neina byssudellu ef frá er talin leikfangabyssudella þegar ég var tíu ára en ólíkt mörgum sveitungum og jafnöldrum var þetta ekki eitthvað sem ég sóttist í. Ég fór í mússíkina og einhverra hluta vegna var lítil skörun á milli þeirra vinahópa sem grúbbuðu sig saman á hljómsveitaræfingum í Tónabæ og Steininum og þeirra sem fóru til fjalla og heiða á haustin á gæsaveiði eða hreindýraveiði nú eða rjúpnaveiði.

Í hljómsveitarliðinu voru soddan pasifistar að bara hugmyndin um að skjóta úr byssu var hreint og beint fjarstæðukennd. Til hvers að skjóta gæs þegar maður getur keypt aligæs í kaupfélaginu? Fyrir utan þorsk, ýsu og einstaka svartfugl var aldrei borðuð villibráð heima hjá mér. Mér hefur verið sagt að pabbi hafi nokkrum sinnum farið á gæs en hætt því eftir nokkur skipti. Honum fannst hún svo falleg til augnanna og gat ekki drepið hana. Mamma hafði þetta einhvern tímann eftir honum og ég hef enga trú á öðru en að þetta sé satt.

Pabbi, eins og mörg önnur börn sjávarþorpanna, gat drepið fisk án teljandi áhrifa á hjartsláttinn en að drepa skepnur sem draga andann ofansjávar reyndist honum miklu erfiðara.

Og auðvitað sjá allir að þetta er hræsni. Auðvitað er hræsni að finnast það hallærislegt þegar menn stilla sér upp við hliðina á skotnum tarfi eða fyrir aftan hrúgu af dauðum fugli en finnast það svo aftur á móti fullkomlega eðlilegt að láta taka mynd af sér með spriklandi þorsk á færinu.

Nú er er örugglega rétti tíminn til að flippa út og hjóla í sjómanninn pabba og ásak

 

Jamm. Vaknaður klukkan 4:30. Iðunn hin hressasta. Spilar á einhvers konar tambórínu sjálfri sér en auðvitað aðallega mér til skemmtunar. Fórum í sund í gær í fyrsta skipti. Fröken IE snappaði old skúl stæl. Það var hressandi.

Hlusta á nýju plötuna með U2. Það er orðin lenska hjá þeim sem skrifa um tónlist að tala illa um nýjustu U2 plötuna. Þetta byrjaði einhvern tímann uppúr 2000 og svekkelsið virðist bara færast í aukana. Þeir fara bara óstjórnlega í taugarnar á ðe hipsteratí og þetta er löngu hætt að snúast um tónlist. Þetta snýst um sólgleraugun hans Bónó.

Enívei. Mér er sússum slétt sama. Ég hef verið aðdáandi í tuttugu og fimm ár og fylgist alltaf með þeim. Hér eru mín tvö sent um þessa plötu:

Hún er talsvert skárri en síðasta plata en það þurfti reyndar ekki mikið til. Hún er sennilega andlega skyldust All That You Can’t Leave Behind frá 2000. Svona “back to basics” nema hvað skilningur U2 á þessu concepti er margfalt dýrari og raffíneraðri en skilningur t.a.m. AC/DC. “Back to basics” hjá U2 þýðir að þeir ráða alla trendí pródúsera bransans og gera hi-fi plötu dauðans sem líkist October og/eða War akkúrat ekki neitt.

Ég er orðinn soldið mikið leiður á öllu þessu “nanana” og “jejeje” og “hóhó” sem einkenna