Mér er sagt að stuttur svefn muni á endanum drepa mig. Það eru einmitt svona fullyrðingar sem halda fyrir mér vöku og þess vegna er ég er kominn á fætur fyrir allar aldir. Einum og hálfum tíma síðar vek ég börnin og lífið hefst fyrir alvöru.
Þegar maður stofnar fjölskyldu er þetta eilíf togstreita fyrstu árin, hvað má maður nota mikinn tíma í sjálfan sig eða þetta sem ég geri einn í stofunni á morgnana. Hvar eru landamærin á milli sjálfselsku og sjálfsræktunar?
Það tók sinn tíma að finna jafnvægið og hægt og rólega sér maður að einvera er skemmtilegust ef hún er tilbreyting frá félagsskap við fjölskyldu, vini og ættingja. Og þessu er á hinn veginn farið líka.
…
Nú. Ég gæti notað þennan tíma til að setja í vél, athuga með bankið í ofnunum, undirbúa skattaskýrsluna og svo framvegis út í hið óendanlega en ég geri það ekki. Það veldur auðvitað kvíða og stundum sjálfshatri enda er maður afsprengi samfélags þar sem maður á ætíð að vera gera eitthvað og segja eitthvað. Sitji maður hljóður, með hendur tómar, er maður von bráðar spurður: Er ekki allt í lagi hjá þér?
Maður á ætíð að vera koma að gagni.
…
Og hvað geri ég eldsnemma á morgnana? Ég hugleiði, les bækur og hlusta á tónlist. Skrifa ef ég er í stuði. Stundum stunda ég líkamsrækt og stundum sest ég við trommusettið en það gerist æ sjaldnar. Maður á að þjálfa hugann á morgnana. Hitt getur beðið.