Uncategorized
ATP
Mono Town Íslenskt band sem ég hef einhvern tímann lesið um. Duttum (fór með Geira og dóttur hans Rannveigu) inní mitt prógramm hjá þeim og ég get ekki sagt að þetta hafi verið mjög eftirminnilegt. Trommarinn var reyndar frábær en ég sá hann líka sl. fimmtudagskvöld á Jasshátíð Egilsstaða. Hrein unun að fylgjast með honum. Senuþjófur af dýrari gerðinni.
Squrl Band sem inniheldur leikstjórann Jim Jarmusch. Úberhipsteralegt prógramm
Sem og ég gerði ekki. En ég keypti mér líka græjur: Plötuspilara og geislaspilara frá Sony, magnara frá Nad og hátalara frá Dahli. Allt megastöff og sé vel með það farið þarf ég ekki að kaupa græjur framar.
Mér fannst important að kaupa mér plötuspilara. Ólíkt mörgum jafnöldrum mínum sem byrjuðu á að kaupa sér kassettur keypti ég alltaf plötur. Fyrst í Nesbæ (fyrsta platan mín var annað hvort Come Out and Play með Twisted Sister eða Fly on the Wall með AC/DC) og síðan í Tónspil til svona 1988-89 þegar geisladiskurinn kom.
Í nokkra daga hef ég verið að hlusta á vínyl og í gærkvöldi hlustuðum við bræður á nokkrar plötur m.a. á Another Side of Bob Dylan. Gömul og góð vínylplata sem ég eignaðist úr gömlum lager (sem geymdur er í bílskúr útí bæ!) fyrir stuttu. Er ekki frá því að ég hafi séð tár á hvarmi bróður míns þegar nálin hoppaði endurtekið á rispu í lok It ain’t me babe, síðasta lags A-hliðar. It ain’t me – kligg – It ain’t me – kligg – It ain’t me -kligg – O.s.frv. Við hlustuðum á þetta í tíu mínútur og ræddum gamlar minningar tengdar vínylplötum. Og það er nóg til af þeim. Þær myndu fylla heila bók.
Vínyllinn er á margan hátt fremri geislaplötunni. Ég á ekki við sánd því sama hvað ég hef reynt undanfarna daga heyri ég engan mun. Helst þá að diskurinn sé betri ef eitthvað er. Meira um það síðar.
Það er af annarri ástæðu sem vínyllinn rúlar. Þegar maður hlustar á vínyl hlustar maður á að minnsta kosti fimm lög í röð. Þetta gerist aldrei þegar maður hlustar á geilsadisk. Ástæðan er fjarstýringin. Það er rétt að koma dásamlegt gítarsóló þegar einhver grípur fjarstýringuna og skiptir um lag. Þetta er ekki hægt með vínyl. Það verður einhver að standa upp og actually gera eitthvað! Og því nennir enginn. Fólk situr og hlustar. Kynnist plötum frá byrjun til enda. Kynnist göllum þeirra og kostum. Þær eru eins og vinir manns í smábæ. Maður getur ekki látið þá róa.
LP – platan er ákveðið listform sem varð til um miðjan sjöunda áratuginn þegar menn eins og Brian Wilson og Bítlar gáfu út plötur eins og Pet Sounds og Rubber Soul. Þetta er almenn viska í poppfræðum. Hugsunin var sú að gera tíu til tólf laga plötu sem virkaði eins og heild. Áður fyrr gáfu menn út tíu laga plötu með tveimur góðum lögum og önnur átta voru bara til uppfyllingar. Nú átti hvert einasta lag að hafa tilgang og röð laga skipti öllu máli. Þannig skipti máli hvernig síðasta lag A-hliðar átti að vera enda var það síðasta lag fyrir hlé. Á geisladiski verða gamlar vínylplötur alltaf soldið undarlegar. Tökum sem dæmi fyrstu plötuna með Led Zep. A-hlið endar á Dazed and Confused. Lagið er svo rosalegt að það verður að fá að ljúka einhverju svo áhrif þess séu hámörkuð. Þegar laginu lauk horfði maður á vini sína og sagði “Vá” og “Djísús Kræst” og svo var opnaður annar bjór plötunni snúið við.
Á geisladiski er Dazed and Conufused bara lag númer fjögur (með tilkomu geislaplötunnar nennti maður ekki lengur að leggja nöfn laga á minnið) og lag númer fimm var hippalagið Your Time is Gonna Come en með fullri virðingu fyrir laginu dregur það máttinn tilfinnanlega úr D og C nema maður geri eins og sumir og prógrammeri geilsaspilarann þannig að hann hætti eftir lag fjögur. En. Hljóðið sem kemur þegar nálin fer að endimörkum, lyftist, fer til baka og leggst á sinn stað skiptir líka máli. Partur af vínylreynslunni. Maður náði oftast nær ekki andanum fyrr en þessu var lokið. Þetta var lognið á undan storminum þ.e. væri platan góð.
…
Samt er ég nú barn geilsaplötunnar. Þessi vínylminning er að hluta til sönn og að hlusta til fabríkeruð því vissulega hefur maður orðið fyrir áhrifum kvikmynda eins og High Fidelity þar sem snobbað er fyrir vínylnum.
XYZ
Fyrir vin minn Jack (Daniels)
Það er ekki gott að segja hvenær ég kynntist þungarokki fyrst. Ég á margar sögur af mínum fyrstu kynnum en þær breytast því oftar sem ég segi þær. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég komist að einhverri niðurstöðu og hef stundum haldið að eftir því sem ég eltist og þroskaðist að myndi ég smám saman detta niður á einhverja eina sögu sem yrði svona offisjal útgáfa af kynnum Jóns Knúts Ásmundssonar af þungarokki, sérstaklega amerísku þungarokki frá svona 1983 til 1990. En þetta hefur ekki gerst. Sagan verður bara flóknari og óskýrari eftir því sem ég eldist.
Ég ræði þessa hluti stundum við útgefanda minn og byrja þá yfirleitt einhvern veginn svona: “Ég man þetta eins og þetta hefði gerst í gær…” og svo koma ýmist sögur af opnunardegi Tónspil eða þegar ég sá Dadda vin minn fyrst eða þegar ég og Keli sátum fyrir framan útvarpið í herbergi Halldórs bróður og hlustuðum á Bárujárn í umsjón Sigurðar Sverrissonar klukkan tíu á fimmtudagskvöldum. Eða þegar ég stal fimm hundruð krónum úr veskinu hennar mömmu til að kaupa Come out and play með Twisted Sister. Allar þessar sögur eru sannar en engin þeirra hefur nein yfirráð yfir hinum. Þær eru allar jafnsannar. En án þess að þær séu sagðar mun enginn nokkurn tímann skilja hvers vegna hljómsveitin Langi Keli og Stubbarnir var stofnuð sumarið 1989. Af hverju ákváðu fjórtán ára strákar frá krummaskuði á austurströnd Íslands, synir trillukarla, að stofna glamrokkhljómsveit?
En það er ekki nóg að segja þessar sögur. Þetta eru svo margar sögur að mig verkjar í höfuðið og ég fæ niðurgang í hvert sinn sem ég hugsa um að skrifa þær niður.
Og þetta eru svo margar sögur að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
…
Um daginn fór ég til Norðfjarðar. Aðallega fór ég af því að foreldrar mínir vildu hitta kærustuna mína en ég vildi líka sýna henni Norðfjörð. Því jafnvel þó ég sé fluttur frá Norðfirði og hafi ekki hugsað mér að flytja þá aftur (nema þá til að deyja) þá finnst mér alltaf jafn gaman að ganga um þorpið því ég á ekkert nema góðar minningar þaðan. Fyrir þá sem halda að þetta verði harmræn frásögn af því hvernig ég kvaldist í þorparaþorpinu og náði ekki að blómstra fyrr en ég fór til Reykjavíkur þá verð ég tilkynna nú strax í byrjun, svo þessi lesandi geti hætt að lesa, að svo er ekki. Þetta
Draumalandið
Lét loksins verða af því að kaupa Draumalandið hans Andra. “Þetta er merkileg bók,” sagði konan í Office 1 þegar ég lagði bókina á afgreiðsluborðið. “Ertu búin að lesa hana?” spurði ég. “Ójá,” sagði hún og horfði á mig hálf undrandi. “Hei fífl, auðvitað er ég búin að lesa hana,” var hún sennilega að hugsa.
Ég las fyrstu hundrað og fimmtíu blaðsíðurnar á tveimur klukkutímum. Ég hef ekki rifið bók í mig af jafn mikilli áfergju í mörg ár. Ég veit ekkert hvort þetta er meistaraverk en mikið djöfulli er hún vel skrifuð og mikið djöfulli er þetta klár rithöfundur. Hann jaðrar við að vera of snjall og vittí og maður má passa sig á að nota það ekki gegn honum. Þetta er skyldulesning fyrir alla Íslendinga eins og Vigga Pres segir á forsíðukvótinu.
Þegar ég var í Leicester tók ég hlutverk Íslendingsins mjög alvarlega. Ef það þurfti einhver í partíinu að gera sig að fífli tók ég það að mér umhugsunarlaust. Þetta gerði ég á úthugsaðan hátt. Ég vissi að mér myndi ganga vel í náminu (ég var í stuði til að læra í Englandi) en sigurinn yrði enn sætari ef meðnemendur mínir héldu að ég hefði nákvæmlega ekkert fyrir þessu. Ég vann því hörðum höndum að því að byggja upp ímynd hins akademíska villimanns.
Antonis
Ég fékk tölvupóst frá gömlum vini í gær. Hann heitir Antonis Foukarakis og ég kynntist honum úti í Leicester snemma árs 2001. Ég hafði ekki heyrt í honum í rúm þrjú ár, eða frá því að ég hitti hann í Aþenu í maí 2003. Þetta var svosem ekkert merkilegt bréf í þeim skilningi að það var ekkert mikið, ef nokkuð, að frétta af honum. Hann var enn að vinna í doktorsritgerðinni sem hann hafði verið að vinna í í þrjú ár þegar við kynntumst. “Its make it or break it,” skrifaði hann og ég hugsa að síðari kosturinn verði fyrir valinu ef ég þekki þennan gamla vin minn rétt. Ég er ekkert að slengja þessu fram í einhverju kæruleysi. Það eru ástæður fyrir þessari skoðun:
Í fyrsta lagi var hann nefnilega eins og landi sinn, hann Sókrates, bestur í samræðum, hann var bestur á kaffihúsi. Hann var í essinu sínu þegar hann vafði sígarettur og drakk rótsterkt grískt kaffi. Ég man að hann var lengi að vefja sér sígarettur, stundum allt uppí fimm mínútur, en þær voru svo vel vafðar að enginn maskína hefði nokkurn tímann geta gert betur. “Geturðu vafið eina handa mér,” bað maður þegar hann var búinn að vefja handa sjálfum sér, svona í og með að grínast, en Antonis skildi ekki svona nastí og tilgangslaust grín og vafði síðan handa manni eina sígarettu á meðan hann útlistaði í smáatriðum hvenær og hvers vegna Woody Allen missti mojoið.
Hann tók sem sagt allt alvarlega. Alltof alvarlega.
Í öðru lagi: Ef Antonis gat valið á milli þess að gefa manni löngu eða stuttu útgáfuna á einhverju álitamáli sem hann hafði skoðun á valdi hann alltaf löngu og flóknu útgáfuna, sem var full af meðvituðum mótsögnum og sub-álitamálum.
Doktorsritgerð gæti hann því aldrei skrifað því slíkt form væri of knappt fyrir hann.
…
Hefði ég ekki byrjað með meðleigjanda Antonisar hefði aldrei kynnst honum utan kennslustofunnar. Í kennslustofunni var Antonis yfirvegaður akademíkus og einn af þeim fáu sem kom með athugasemdir eða spurningar sem skiptu einhverju máli. Og það sem meira var: Hann vissi ekki svörin fyrirfram. Hann spurði af því að hann var raunverulega forvitinn sem er einkenni á greindu fólki. Þegar Antonis talaði, talaði hann hægt og bar fram hvert einasta orð þannig að það átti ekki að vera hægt að misskilja hann. Hann var maður rökræðunnar og fílaði Habermas í botn.
Hann vaknaði yfirleitt aldrei fyrr en um hádegi. Ég heyrði þegar hann vaknaði, ég heyrði þegar hann dró lappirnar eftir teppinu inn á klósett. Þar sat hann oft í dágóða stund. Ég spurði hann auðvitað aldrei að því en mér finnst líklegt að hann hafi lesið dagblöðin (var áskrifandi af The Guardian). Þegar hann kom niður í stofu kastaði hann kveðju til manns – ekki glaður, ekki morgunfúll, bara í einhverju minnibilsástandi sem varði þangað til hann skrapp út um tvöleytið í körfubolta – þjóðaríþrótt Grikkja. Hann spilaði einn enda þoldi hann ekki Grikki. “Þetta eru bara ónytjungar og letingjar,” sagði hann. Einu sinni fór hann að lyfta með mér en fannst það undarleg reynsla: “Skrýtið hvernig Norður-Evrópubúar stunda líkamsrækt. Það er eins og þið séuð að refsa ykkur? Er þetta siðfræði mótmælendatrúarinnar?”
Antonis var kannski ekki þunglyndur en hann var þjakaður af einsemd – hann var einmana. Kærastan hans til margra ára varð eftir í Aþenu þegar hann yfirgaf Grikkland og ári áður en ég kynntist Antonis hafði hún slitið sambandinu. Antonis var ekki enn búinn að jafna sig enda hafði hann ekki um neitt annað að hugsa. Ekki hugsaði hann um doktorsnámið. Það var víst.
Einmanaleikinn sem hrjáði Antonis kom fram í gengdarlausri söfnunaráráttu. Hann safnaði allskyns hlutum, ljósmyndum úr dagblöðum, geisladiskum, tölvuleikjum en safnið sem hann var stoltastur af var VHS-safnið sem þakti alla veggi stofunnar og fyllti svefnherbergið hans. Hann var áskrifandi af einhverri kvikmyndastöð og á hverjum degi tók hann upp að minnsta kosti eina mynd. Þetta voru flest allt myndir eftir leikstjóra sem ég kannaðist ekki við en ég man að Woody Allen og Jim Jarmusch voru í sérstöku uppáhaldi. Þið hefðuð allavega ekki fundið neinar myndir eftir George Lucas í safninu.
En ég sá hann hins vegar mjög sjaldan horfa á þessari myndir. Hann horfði bara á spólurnar sjálfar og horfði á safnið stækka. Þetta var býsna dapurlegt svona eftir á að hyggja.
…
Nú. Svo að þið fáið réttari mynd af vini mínir verður eiginlega að koma fram hér að einsemd og vanlíðan vinar míns stafaði ekki einungis af ástarsorg. Vandamál vinar míns voru af öðru tagi líka.
Ástæðan fyrir því að Antonis ákvað að yfirgefa kærustu sína í Aþenu var opinberlega sú að hann ætlaði að sækja sér menntun. En undir niðri var önnur ástæða. Hann var að flýja herskyldu. Námið hafði veitt honum undanþágu í nokkur ár en skrifstofa hersins var þegar byrjuð að plaga hann og spyrja hvenær hann kæmi heim og hvort hann gæti byrjað þá um sumarið.
Antonis sá fyrir sér að hann yrði lagður í einelti í hernum. “Ég veit alveg hvernig týpur þetta eru sem eru í þessu,” sagði hann einu sinni við mig. “Þetta eru strákar eins og eru með okkur í bekk, rugludallar sem hafa gaman af að skjóta úr byssu. Þessi vist verður algert helvíti fyrir náunga eins og mig.”
Ótti Antonisar við herinn átti eftir að draga hann út í miklu meiri vandræði síðar. Þegar ég hitti hann í Aþenu í maí 2003 var hann nýbúinn að gefast upp og hafði gefið sig fram við heryfirvöld nokkrum dögum fyrr: “Herinn var byrjaður að leita að mér og ég hefði ég ekki gefið mig fram núna hefði ég getað átt fangelsisvist yfir höfði mér,” sagði vinur minn þar sem við sátum á rándýru kaffihúsi neðan við Akrópólíshæð (“Dæmigert fyrir túrista að velja svona stað,” sagði hann hálf svekktur útí mig þó við værum að hittast í fyrsta sinn í tvö ár). “Pabbi laumaði mér inn á krappameinsdeildina sem hann vinnur á og með þetta lið í kringum mig emjandi af sársauka sá ég að ég yrði taka á þessu. Annað hvort færi ég í herinn eða gerði mér upp samkynhneigð. Seinni kosturinn kom ekki til greina. Ég geri foreldrum mínum það ekki.”
Seinna frétti ég frá vinkonu hans að á þessum tveimur árum í hernum hefði Antonis haft umsjón með litlu bókasafni í lítilli herstöð á Krít. Honum leið vel í fyrsta sinn í mörg ár.
…
En þó ég segi sjálfur frá reyndist ég vera betri en enginn fyrir Antonis. Ég varð einhvers konar útgönguleið fyrir hann því í gegnum mig kynntist hann fólkinu sem ég leigði með og ótrúlegt en satt voru ekki allir Grikkir hálfvitar. Þarna kynntist hann meðal annars Evu Fotiadi, stelpu frá Aþenu, sem bjó í sama stigagangi og ég. Eva varð fljótlega nýtt áhyggjuefni fyrir vin minn. Eiginlega varð hún þráhyggja og dró fram breyskleika vinar míns í sinni ýktustu mynd.
En fyrst nokkur orð um Evu. Antonis valdi hana ekki af neinu handahófi.
…
Þegar ég hitti
En Antonis var raunverulega ánægður að kynnast mér held ég. Ekki endilega af því að ég væri svona gefandi og skemmtilegur félagsskapur heldur sá hann í mér útgönguleið. Hann sá fyrir sér að í gegnum mig gæti hann kynnst fólkinu, ekki síst stelpunum, sem ég bjó með.
Gunnar ritstjóri sat þögull á skrifstofu sinni. Klukkan var orðinn fjögur og það var föstudagur. Undir öllum venjulegum kringumstæðum átti hann að vera farinn heim til konu sinnar sem var vön að elda uppáhaldsréttin hans á föstudögum, svikin héra með kartöflusalati og sérlega sætri kartöflumús. Gerður kona hans var að mörgu leyti hin fullkomna húsmóðir og var Gunnari alltaf til handar hvernig sem á stóð. Þegar honum hefði gengið illa að skrifa kom hún honum alltaf til hjálpar og rifjaði upp möndruna um að flestir rithöfundar skrifuðu sín bestu verk eftir fertugt og tók síðan nafna hans Gunnarsson sem dæmi. Hann hafði sjálfur notað þessa möndru í nítján ár eða allt frá því að hann ákvað að gerast rithöfundur.
Hann var einn á skrifstofunni en Erna framkvæmdastjóri hafði farið um tvöleytið af því að henni var “illt í maganum”. Erna var margt en fyrst og fremst var hún sjúklingur og hafði á þeim fimmtán árum sem þau höfðu unnið saman fengið flesta sjúkdóma sem heimilislæknirinn kunni að greina. Fyrstu árin hafði Gunnar látið þetta fara í taugarnar á sér, honum fannst þetta vera hegðun sem sæmdi ekki landsbyggðarkonu, en svo smám saman hætti hann að pæla í þessu því þetta truflaði einbeitinguna hans.
Hann stóð upp og fór fram í eldhús og lagaði rótsterkt kaffi og settist svo aftur við tölvuna sína og fór á netið. Hann kíkti inn á Rithringinn til að sjá hvort einhvern hefði kommentað á nýjustu smásöguna sína sem hét Vindurinn og var í raun nokkurs konar vinjetta, óður til lífsins úti á landi eins og reyndar flestar sögurnar hans.
Enginn hafði gert athugasemd við söguna þó hún hefði verið þar fimm vikur fyrir utan einhvern Viktor sem hrósaði honum fyrir góða stafsetningu. Það lifnaði aðeins yfir honum en þetta var sossum ekki í fyrsta skipti sem honum var hrósað fyrir góða stafsetningu. Í grunnskóla hafði hann aldrei fengið minna en níu í íslensku og fékk við útskrift í menntaskóla sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku, gott ef það var ekki orðað svo að hann væri “einstaklega næmur á hrynjanda og vald hinnar íslensku tungu” og kennarinn hans hafði sagt við hann í lokahófinu að hann væri “meiriháttar stílisti”. Viðurkenningin hékk á veggnum fyrir framan hann ásamt öðru sem honum þ´tto meira að segja enn vænna um en það var viðurkenningarskjal frá sveitarfélaginu. Hann, sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Lundans, héraðsfréttablaðs Lundavíkur, hafði í sumar, nánar tiltekið á sjómannadaginn, fengið samfélagsverðlaun frá sveitarfélaginu fyrir “jákvæðan fréttaflutning af landsbyggðinni á erfiðum tímum” eins og stóð á plöggunum.
Í ræðunni sem bæjarstjórinn hélt sagði hann um Gunnar að hvert sveitarfélag hefði þörf fyrir menn eins og hann sem bentu á hið fallega í umhverfinu þegar æsifréttablöðin fyrir sunnan veltu sér upp fólksfækkun og uppsögunum í frystihúsum. Gunnar hefði verið óþreytandi með jákvæðum og uppbyggilegum fréttaflutningi í þau fimmtán ár sem hann hefði gegnnt starfi ritstjórans. Gunnar tók auðvitað íslensk mál háalvarlega og í eina skiptið sem hann tók sér veikindafrí hjá Lundanum í eina viku var þegar hann skrifaði sögnina að tína, s.b. að tína ber, með ufsiloni þ.e. að týna. Blaðið kom út vikulega á hverjum fimmtudagsmorgni og um hádegið þegar Gunnar var að fara í mat hringdi kona úr frystihúsinu og benti honum á þetta. Gunnar mótmælti þessu vitanlega og benti konunni vinsamlegast á að hann hefði nú fengið viðurkenningu í menntaskóla fyrir íslensku þannig að hann vissi nú líklega betur um þessi mál. Konan baðst afsökunar en um leið og Gunnar hafði lagt á fletti hann upp í orðabók menningarsjóðs og sá að hún hefði haft rétt fyrir sér. Sem fyrr segir var Gunnar frá í viku en þegar hann kom aftur tókst honum að sannfæra framkvæmdastjórann um að ráða prófarkalesara, ekki einn heldur tvo.
“Ég treysti mér auðvitað fullkomlega til að gera þetta sjálfur en stundum getur stressið ruglað mann í ríminu,” sagði hann við Ernu á sínum tíma sem samþykkti allt. Og síðan hafði ekki sést ein villa í blaðinu, hvorki málfars né stafsetningar.
En víman yfir hrósinu á Rithringnum var fljót að renna af honum og hann slökkti á tölvunni. Hann setti lappir upp á borð og drakk kaffið í rólegheitunum. Hann vissi auðvitað hvað var að trufla hann. Það lá alveg ljóst fyrir.
Alveg frá því að hann frétti að Jóhann Helgason væri kominn með konu, og það meira segja af erlendu bergi brotnu, hafði skáldsagan hans smám saman að koðnað niður. Hann hafði ekki skrifað neitt í sex mánuði. Hann þoldi ekki tilhugsunina um að Jóhann, fyrirmynd aðalsöguhetjunnar, var ekki lengur sá sem hann var. Jóhann var ekki lengur Herbert, einbúi og trillukarl austur á fjörðum sem barðist við höfuðskepnurnar upp á líf og dauða á hverjum degi. Hann var eitthvað annað. Eitthvað sem Herbert átti ekki að vera. Herbert át soðningu á hverjum degi með hamsatólgi og lýsi en ekki einhverja suðurevrópska “rétti”. Þó Gunnar æti suðurevrópska rétti á hverjum fimmtudegi (Gerða hafði sérstaka dagskrá yfir máltíðir vikunnar t.d. svikin héra á föstudögum og grískt salat á fimmtudögum) þá var það allt annað. Hann mátti borða suðurevrópska rétti enda varheimsborgari þó hann hefði reyndar ekki farið til útlanda síðan hann fór í kórferðina til Skotlands fyrir þremur árum síðan. En Gunnar áleit heimsborgarann vera hugarástand sem hefði ekkert með það að gera hversu oft og lengi menn hefðu verið í útlöndum.
Og Jóhann var enginn andskotans heimsborgari þó hann héldi það sjálfur núna. Jóhann var í eðli sínu Herbert. Maður náttúrunnar. Maður sem myndi frekar borða afbeitu en ólívu. Jóhann var maður sem þrátt fyrir að róa í hvaða veðri sem er, og sýna þar með aðdáunarvert hugrekki, myndi aldrei láta sjá sig með konu. Allra síst fallegri, dökkhærðri og brúneygðri konu sem hét útlensku nafni! Jóhann var sönn austfirsk hetja og umfram allt söguhetjan Herbert í stórbrotnum epískum þríleik sem Gunnar var hálfnaður með og meira segja komin með nafn á!
Gunnar vissi vel að áhyggjur hans stöfuðu ekki einungis af því að líf Jóhanns hefði tekið nýja stefnu. Hann hafði líka áhyggjur af þeim hugmyndum sem höfðu verið að gerjast í kollinum á honum og miðuðu að því að koma Jóhanni aftur á “beinu brautina”. Í aðra röndina fannst honum viðurstyggilegt að hann, Gunnar Jónsson, væri að velta því fyrir sér að eyðileggja hjónaband manns sem vafalítið hafði látið sig dreyma um konu og fjölskyldulíf í mörg ár – eins og söguhetjan Herbert.
Hann fór í svarta frakkann sinn og yfirgaf skrifstofuna. Efinn var að gera hann að kvíðasjúklingi.