Antonis

Ég fékk tölvupóst frá gömlum vini í gær. Hann heitir Antonis Foukarakis og ég kynntist honum úti í Leicester snemma árs 2001. Ég hafði ekki heyrt í honum í rúm þrjú ár, eða frá því að ég hitti hann í Aþenu í maí 2003. Þetta var svosem ekkert merkilegt bréf í þeim skilningi að það var ekkert mikið, ef nokkuð, að frétta af honum. Hann var enn að vinna í doktorsritgerðinni sem hann hafði verið að vinna í í þrjú ár þegar við kynntumst. “Its make it or break it,” skrifaði hann og ég hugsa að síðari kosturinn verði fyrir valinu ef ég þekki þennan gamla vin minn rétt. Ég er ekkert að slengja þessu fram í einhverju kæruleysi. Það eru ástæður fyrir þessari skoðun:

Í fyrsta lagi var hann nefnilega eins og landi sinn, hann Sókrates, bestur í samræðum, hann var bestur á kaffihúsi. Hann var í essinu sínu þegar hann vafði sígarettur og drakk rótsterkt grískt kaffi. Ég man að hann var lengi að vefja sér sígarettur, stundum allt uppí fimm mínútur, en þær voru svo vel vafðar að enginn maskína hefði nokkurn tímann geta gert betur. “Geturðu vafið eina handa mér,” bað maður þegar hann var búinn að vefja handa sjálfum sér, svona í og með að grínast, en Antonis skildi ekki svona nastí og tilgangslaust grín og vafði síðan handa manni eina sígarettu á meðan hann útlistaði í smáatriðum hvenær og hvers vegna Woody Allen missti mojoið.

Hann tók sem sagt allt alvarlega. Alltof alvarlega.

Í öðru lagi: Ef Antonis gat valið á milli þess að gefa manni löngu eða stuttu útgáfuna á einhverju álitamáli sem hann hafði skoðun á valdi hann alltaf löngu og flóknu útgáfuna, sem var full af meðvituðum mótsögnum og sub-álitamálum.

Doktorsritgerð gæti hann því aldrei skrifað því slíkt form væri of knappt fyrir hann.

Hefði ég ekki byrjað með meðleigjanda Antonisar hefði aldrei kynnst honum utan kennslustofunnar. Í kennslustofunni var Antonis yfirvegaður akademíkus og einn af þeim fáu sem kom með athugasemdir eða spurningar sem skiptu einhverju máli. Og það sem meira var: Hann vissi ekki svörin fyrirfram. Hann spurði af því að hann var raunverulega forvitinn sem er einkenni á greindu fólki. Þegar Antonis talaði, talaði hann hægt og bar fram hvert einasta orð þannig að það átti ekki að vera hægt að misskilja hann. Hann var maður rökræðunnar og fílaði Habermas í botn.

Hann vaknaði yfirleitt aldrei fyrr en um hádegi. Ég heyrði þegar hann vaknaði, ég heyrði þegar hann dró lappirnar eftir teppinu inn á klósett. Þar sat hann oft í dágóða stund. Ég spurði hann auðvitað aldrei að því en mér finnst líklegt að hann hafi lesið dagblöðin (var áskrifandi af The Guardian). Þegar hann kom niður í stofu kastaði hann kveðju til manns – ekki glaður, ekki morgunfúll, bara í einhverju minnibilsástandi sem varði þangað til hann skrapp út um tvöleytið í körfubolta – þjóðaríþrótt Grikkja. Hann spilaði einn enda þoldi hann ekki Grikki. “Þetta eru bara ónytjungar og letingjar,” sagði hann. Einu sinni fór hann að lyfta með mér en fannst það undarleg reynsla: “Skrýtið hvernig Norður-Evrópubúar stunda líkamsrækt. Það er eins og þið séuð að refsa ykkur? Er þetta siðfræði mótmælendatrúarinnar?”

Antonis var kannski ekki þunglyndur en hann var þjakaður af einsemd – hann var einmana. Kærastan hans til margra ára varð eftir í Aþenu þegar hann yfirgaf Grikkland og ári áður en ég kynntist Antonis hafði hún slitið sambandinu. Antonis var ekki enn búinn að jafna sig enda hafði hann ekki um neitt annað að hugsa. Ekki hugsaði hann um doktorsnámið. Það var víst.

Einmanaleikinn sem hrjáði Antonis kom fram í gengdarlausri söfnunaráráttu. Hann safnaði allskyns hlutum, ljósmyndum úr dagblöðum, geisladiskum, tölvuleikjum en safnið sem hann var stoltastur af var VHS-safnið sem þakti alla veggi stofunnar og fyllti svefnherbergið hans. Hann var áskrifandi af einhverri kvikmyndastöð og á hverjum degi tók hann upp að minnsta kosti eina mynd. Þetta voru flest allt myndir eftir leikstjóra sem ég kannaðist ekki við en ég man að Woody Allen og Jim Jarmusch voru í sérstöku uppáhaldi. Þið hefðuð allavega ekki fundið neinar myndir eftir George Lucas í safninu.

En ég sá hann hins vegar mjög sjaldan horfa á þessari myndir. Hann horfði bara á spólurnar sjálfar og horfði á safnið stækka. Þetta var býsna dapurlegt svona eftir á að hyggja.

Nú. Svo að þið fáið réttari mynd af vini mínir verður eiginlega að koma fram hér að einsemd og vanlíðan vinar míns stafaði ekki einungis af ástarsorg. Vandamál vinar míns voru af öðru tagi líka.

Ástæðan fyrir því að Antonis ákvað að yfirgefa kærustu sína í Aþenu var opinberlega sú að hann ætlaði að sækja sér menntun. En undir niðri var önnur ástæða. Hann var að flýja herskyldu. Námið hafði veitt honum undanþágu í nokkur ár en skrifstofa hersins var þegar byrjuð að plaga hann og spyrja hvenær hann kæmi heim og hvort hann gæti byrjað þá um sumarið.

Antonis sá fyrir sér að hann yrði lagður í einelti í hernum. “Ég veit alveg hvernig týpur þetta eru sem eru í þessu,” sagði hann einu sinni við mig. “Þetta eru strákar eins og eru með okkur í bekk, rugludallar sem hafa gaman af að skjóta úr byssu. Þessi vist verður algert helvíti fyrir náunga eins og mig.”

Ótti Antonisar við herinn átti eftir að draga hann út í miklu meiri vandræði síðar. Þegar ég hitti hann í Aþenu í maí 2003 var hann nýbúinn að gefast upp og hafði gefið sig fram við heryfirvöld nokkrum dögum fyrr: “Herinn var byrjaður að leita að mér og ég hefði ég ekki gefið mig fram núna hefði ég getað átt fangelsisvist yfir höfði mér,” sagði vinur minn þar sem við sátum á rándýru kaffihúsi neðan við Akrópólíshæð (“Dæmigert fyrir túrista að velja svona stað,” sagði hann hálf svekktur útí mig þó við værum að hittast í fyrsta sinn í tvö ár). “Pabbi laumaði mér inn á krappameinsdeildina sem hann vinnur á og með þetta lið í kringum mig emjandi af sársauka sá ég að ég yrði taka á þessu. Annað hvort færi ég í herinn eða gerði mér upp samkynhneigð. Seinni kosturinn kom ekki til greina. Ég geri foreldrum mínum það ekki.”

Seinna frétti ég frá vinkonu hans að á þessum tveimur árum í hernum hefði Antonis haft umsjón með litlu bókasafni í lítilli herstöð á Krít. Honum leið vel í fyrsta sinn í mörg ár.

En þó ég segi sjálfur frá reyndist ég vera betri en enginn fyrir Antonis. Ég varð einhvers konar útgönguleið fyrir hann því í gegnum mig kynntist hann fólkinu sem ég leigði með og ótrúlegt en satt voru ekki allir Grikkir hálfvitar. Þarna kynntist hann meðal annars Evu Fotiadi, stelpu frá Aþenu, sem bjó í sama stigagangi og ég. Eva varð fljótlega nýtt áhyggjuefni fyrir vin minn. Eiginlega varð hún þráhyggja og dró fram breyskleika vinar míns í sinni ýktustu mynd.

En fyrst nokkur orð um Evu. Antonis valdi hana ekki af neinu handahófi.

Þegar ég hitti

En Antonis var raunverulega ánægður að kynnast mér held ég. Ekki endilega af því að ég væri svona gefandi og skemmtilegur félagsskapur heldur sá hann í mér útgönguleið. Hann sá fyrir sér að í gegnum mig gæti hann kynnst fólkinu, ekki síst stelpunum, sem ég bjó með.

 

jonknutur