Svolítið þungur í morgunsárið

það er lægð yfir landinu
og í hvert sinn
sem ég opna bók
eftir gyrði
sigurð páls
nú eða ingunni snædal
blasir það við mér
mitt hrópandi hæfileikaleysi

miðvikudagskvöldið
var svo
sérstaklega erfitt
því allir voru að meika það
í kiljunni

hvernig ég drattaðist á fætur í morgun
var ekkert minna en kraftaverk!
eins og þú getur
rétt ímyndað þér

en ég beiti mig hörku
endurtek í hljóði
líkt og möntru
mér til sáluhjálpar
að jafnvel gyrðir
leysir vind í laumi
og roðnar

að viðbættu
er ég nokkuð viss um
að ingunn snædal hefur
orðið sér
og öðrum
til skammar
á mannamótum

 

jonknutur