Böbblí, þögla kynslóðin og feiti Elvis

Því verður bara ekki neitað, eiginlega ekki hægt, afneitun að halda öðru fram, að það getur verið erfitt að halda úti bloggi þegar maður er fjörutíu og sex ára, tveggja barna faðir, eiginmaður og skrifstofukall. Já, og maður er hamingjusamur og bara nokkuð sáttur við lífið og tilveruna. Fátt sem raskar þessu. Allra síst Covid sem breytti engu fyrir barnafólk eins og okkur. Fastar skorður urðu bara aðeins fastari, hið daglega líf varð pínu hversdagslegra, vanagangurinn ívið venjulegri.

Við drekkum böbblí í búbblunni nær alla daga og það er einfaldlega ekki, bara hreint ekki, í frásögur færandi. 

Foreldrahlutverkið þroskar mann um leið og það yngir mann. Eða svo var mér sagt. Stundum finnst mér miklu augljósara hvernig þetta hlutverk hraðar miðöldrun minni. Einhverjir svona pabbabrandarar vella uppúr mér og ég er ekki einu sinni lengur að reyna. Ég myndi deila þeim með þér ef ég myndi þá en ég læt þá flakka á jafn vélrænan hátt og ég dreg andann, eins og einhver instant reflex þegar dóttir mín spyr mig að einhverju, gerir athugasemd við eitthvað eða bara segir eitthvað sniðugt. Svo sofna ég fljótlega eftir fréttir, kann ekki lengur almennilega á Instagram og mér finnst bara fáránlega næs að hlusta Noruh Jones og lesa góða bók.

Þannig að já. Ég verð leiðinlegri með degi hverjum.

… 

En ég ólst upp hjá fulltrúum „þöglu“ kynslóðarinnar, fólki sem fæddist í miðju seinna stríði og þetta skiptir máli. Það er mikill munur á því og fólki sem tilheyrir ´68 kynslóðinni. Þetta er ekki fólkið sem kippir með sér nýju ABBA á CD í Costco. Mamma er t.d. nýbúin að „erfa“ mig, eins og hún segir, að þreföldu eða fjórföldu albúmi með lestri á Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson. Ég fæ safnið eftir hennar dag og það kom mér svo á óvart hvað ég varð spenntur. Ég bara get ekki beðið!!!

Ég held að þetta tengist þ.e. þetta með miðöldrun mína og uppeldið. Sem gamall maður verð ég líkari foreldrum mínum en fólki sem er nær mér í aldri t.d. fyrrnefnd ’68 kynslóð.

Svo að:

Ég verð gamall maður eins og Jón Gnarr ímyndar sér gamalt fólk.  

Þetta er eitthvað til að hugsa um og hlakka til. 

Ég er búinn að léttast í Covid. Einn fárra. Held matardagbók, tel hita-einingar, tel oní mig hvern einasta helvítis munnbita og hef skroppið saman um fjórðung á sirka tíu mánuðum. No joke. Fat Elvis-tímabilinu er formlega lokið.

Furðulegasta fólk finnur sig knúið til að ræða þetta við mig, gera athugasemdir, hrósa mér og stundum finnst mér eins fólk sé að skamma mig, eins og ég hafi svikið lit, fat shaming með öfugum formerkjum: „Hva, þú ert ekki að verða að neinu?!“, „hva, færðu ekkert að borða heima hjá þér?!“ „hva, voðalega ertu orðinn horaður!“, „hva, þú ert ekkert nema pungurinn og eyrun!“

„Já,“ svara ég áhyggjufullur. „Ég á von á niðurstöðu í fyrramálið.“

 

jonknutur