Eins og allir hinir horfði ég á Verbúðina en ég get ekki tekið þátt í umræðum um hvort þetta hafi verið trúverðug mynd af þorpi útá landi árið 1983. Ég var átta ára og lék mér enn með tindáta. Þekkingaleysi mitt á verbúðarlífi er algjört. Þekki það af afspurn, í gegnum kvikmyndina Nýtt líf og lögin hans Bubba.
*
Nema hvað að auðvitað á ég eitt minnisbrot um verbúðina heima á Norðfirði sem kölluð var Stjarnan og stóð á eyrinni þar sem núna er leikskóli norðfirskra barna. Ég man ekki hvað ég var gamall. Reyndi að fletta þessu upp á netinu en gafst upp. Hafði ekki tíma eða nennti ekki að finna útúr þessu. Annað hvort eða bæði. En ég var ekki orðinn unglingur, held ég, og ekki var ég barn. Ég var einhvers staðar þarna á milli. Of ungur til að vita nokkuð um verbúðina og verbúðarfólkið en nógu gamall til að vera úti að kvöldi til án þess að nokkur ræki mig heim.
Og mér finnst líklegt að ég hafi ekki verið einn. Mér finnst líklegt að ég hafi staðið þarna með Kela bróður mínum og fylgst með og já, svo ég komi því að, þá var sumsé kviknað í Stjörnunni. Reykur barst út um risgluggann og það var erill fyrir utan hið brennandi hús þar sem slökkviliðsmenn voru að athafna sig. Íbúar þess búnir að safnast saman í einum hnapp steinsnar frá, fylgdust með björgunarstörfum, bæjarbúar á stangli hér og hvar, loksins eitthvað að gerast.
Það sem ég vissi var þetta: Þarna búa útlendingar en í minningunni þekki ég einn í hópnum. Ég þykist muna eftir Andra náfrænda mínum og í þessu minningarleiftri heldur hann á tertusneið. Kannski var þetta afmælispartí sem fór aðeins úr böndunum?
Það gæti verið. En það gæti líka vel verið að þetta hafi ekki gerst, að þetta minnisbrot af Andra og tertusneiðinni sé tilbúningur. Hann var bara þessi týpa sem hékk með verbúðarliði og hefði getað staðið fyrir utan brennandi hús og spilað á fiðlu. Frásagnargleði bæjarbúa svo séð um rest.
Annað eins hefur gerst.
*
En ég hef stundum hugsað um það hverju ég myndi bjarga ef það væri kviknað í heima hjá mér, svona ef undanskilin eru börn, eiginkona og gæludýr. Gefum okkur að búið sé að bjarga öllu kviku og ég fengi einn séns til að fara inn í brennandi húsið og bjarga einum hlut. Væri þá í alvörunni nokkuð svo galið að bjarga tertunni?