Ég hleyp tólf kílómetra á dag til að stemma stigu við gengdarlausu ofáti hátíðarinnar. Ég hef borðað meira sælgæti á einni viku en ég hef gert í hálft ár (ég hef lést muniði). Finn til í hnjám og ökklum en tengi öll óþægindi í líkamanum við yfirvofandi hjartaáfall. Er of latur og værukær til að verða hræddur.
Þetta er ekki sjálfbært. Ég get ekki hlaupið frá þessu. Og ég veit að brátt verð ég að kveðja líf óhófs og græðgi.
Það er ekki að ástæðulausu sem fólk strengir áramótaheit eftir jól.
*
Óhófið kemur líka fram í tónlistinni sem ég hlusta á þessa dagana. Hún er jafn þrútin og andlit mitt þessa dagana. Í gær, þegar ég mokaði bílastæðið og hengdi úr þvottavélinni í óvæntum og skyndilegum myndugleika, hlustaði ég á Tales from Topographic Oceans, hinu brátt fimmtuga tvöfalda albúmi, sem hljómsveitin Yes gaf út á hátindi framsækninnar um miðbik áttunda áratugarins. Böðuð í mellotróni, pólýriðmum og dulmögnuðum textum.
Fjögur lög, tuttugu mínútur hvert. Lengi má manninn reyna.
Þetta er hitaeiningarík rokktónlist en hún skilur lítið eftir og þykir í raun með því versta sem stefnan gat af sér. Ég veit þetta allt saman. Þetta er pasta. Þetta er lakkrístoppur. En í augnablikinu er mér sama. Ég mun taka upp betri hlustunarsiði þegar ég skipti konfektinu út fyrir salatið.