Kinnhesturinn

Ég hef aldrei lent í slagsmálum. Verið hótað eins og gengur og gerist af fullu fólki fyrir utan skemmtistaði en aldrei lamið neinn eða verið laminn af neinu viti. Ég er ekki bara heppinn því ég hef vísvitandi forðast slagsmál. Mér er illa við þau og í raun bara dauðhræddur.  

*

Ég heyrði sögur af pabba og bróður hans í áflogum upp í Atlavík og hér og þar og alls staðar. Sagan af því þegar föður mínum var hent í grjótið eftir stimpingar á bar í Grimsby var t.d. stundum rifjuð upp í beituskúrnum, einkum af Dóra frænda mínum, en sögurnar heyrði ég miklu frekar frá fólki út í bæ. Í hugum sumra var þeirra greinilega minnst sem slagsmálahunda og það var ekki bara talað um þá af lotningu heldur var eins og þeir væru dánir.

En ég var alger eftirbátur þeirra og ég skammaðist mín fyrir það. Ungur karl í sjávarplássi á ekki að vera hræddur við að gefa á kjaftinn. Eða fá á kjaftinn ef því er að skipta. Að lenda í ryskingum eða slagsmálum var vígsluathöfn, ekki ósvipað því að missa sveindóminn eða drekka sig fullan í fyrsta skipti. Með því að lemja eða verða laminn yrði maður loksins karl í krapinu. Og þá kannski kæmist maður loksins í sleik.  

 *

Ég gat ekki hafið mig upp yfir þennan kúltúr, vantaði enn nokkur ár af þroska, og einhvern tímann á stéttinni fyrir neðan Egilsbúð, eftir dansleik með Geirmundi eða einhverjum, sá ég mér leik á borði. Það opnaðist glufa fyrir þátttöku í, að því er virtist, fremur öruggum bardaga. Hið verðandi fórnarlamb, danskur maður sem stóð út á miðri götu og reifst við einhverja heimamenn, virtist auðveld bráð.

Þetta var hægðarleikur. Sigurinn vís.   

Ég gekk því að hópnum, fullur sjálfstrausts, og hófst handa við að gera mig digran en var varla búinn að opna munninn þegar Daninn sneri sér að mér og í stað þess að gefa mér á kjaftinn, sem ég var ómeðvitað að vona, þá löðrungaði hann mig. Svona eins og hann tímdi ekki almennilega að gefa mér á hann.

Ég var að sjálfsögðu ekki meiddur en mig sveið undan þessu.

Einkum á sálinni.

 

jonknutur