Hvað fyllir þig sektarkennd?
Spyr hann mig, stokkurinn.
Ætli hann sé að vonast eftir heiðarlegu svari? Veit hann ekki að þá þarf ég tólf metra, jafnvel þótt ég noti einfalt línubil og níu punkta letur?
*
Þegar ég borða átján konfektmola en ekki bara einn í fjölskylduboði á Fáskrúðsfirði, þegar ég fýlustjórna börnunum mínum til þess eins að þau klæði sig í vettlinga en það eina sem þau þurftu var knús og þá hefði málið leyst sig sjálft, húfa, vettlingar, trefill og allt; þegar egóið lætur á sér kræla og ég hringsnýst um sjálfan mig í þeirri vissu að allir séu að bíða eftir mínum næsta leik eða já, bara, þegar ég er með hausinn upp í rassgatinu á sjálfum mér, gónandi á mig í speglinum á morgnana, hugsandi: úúú, helvíti líturðu vel út! Þú veist, miðað við aldur!
Þetta er dæmi um einfalt svar við spurningunni.
*
Við lifum á tímum siðaskipta, eins og mæt kona benti á um daginn, og enginn er undanskilinn. Ekki einu sinni Daði og Gagnamagnið, uppáhalds hljómsveit barnanna minna, og ekkert skrýtið að konur velti því fyrir sér hvort allir karlmenn séu annað hvort pervertar eða ofbeldismenn.
Stundum er mitt sjálfvirka viðbragð að hlaupa í vörn fyrir kynbræður mína en svo hugsa ég málið. Velti því fyrir mér í svona þrjár til fimm sekúndur og auðvitað veit ég að þarna talar sektarkenndin því ég get ekki einu sinni undanskilið sjálfan mig. Ég get ekki bara sagt:
„Þetta er ekki mér að kenna!“
Því hverjum er þetta þá að kenna? Tommy Lee?
Akkúrat. Einmitt.
Nei, það verður enginn undanskilinn. Ekki ef við viljum að barnabörnin okkar eignist ærlega feður.
Þetta var flókið svar. Þau eru fleiri.