Ljósmynd í snjáðu albúmi

I

Hvít skyrta
og brilljantín

ég þekki föður minn
þar sem hann
hallar sér fram á borð
með glundur í glasi
töffaralegur
ólofaður
og ölvaður

ég kannast við augnaráðið
minnir á mitt eigið
í þessu ástandi

aftan á myndinni
með tengiskriftinni hans

„Á Þórscafé“

II

Tveggja ára sonur minn
leikur sér með vörubíl á eldhúsgólfinu
haglél
eins og gróft salt
skoppar af glugganum

III

Þeir höfðu fundið borð
og hófust handa
eins og ungum sjómönnum
í Reykjavík
langt
langt
að heiman
var tamt

(get ég ímyndað mér)

og seinna um kvöldið
eftir snúning á dansgólfinu
með reykvískri dömu
hrópaði einn þeirra:

„hún veit ekki einu sinni hvað Scania Vabis er!“

og uppskar svo mikinn hlátur
að hann bergmálar enn

eins og þú getur
ímyndað þér
varð hann vörubílstjóri
eignaðist konu
og hún hann

og þau eiga hvort annað
enn í dag

IV

Sé þau stundum í búðinni
haldast í hendur
sem er ekki sjálfsagt
á þessum aldri
og ég hef oft hugsað
að hún hljóti að vita sínu viti
um sænska bílaframleiðslu
upp úr miðbiki síðustu aldar

 

jonknutur