Ég var svo undrandi þennan morgun
þennan silungsbleika febrúarmorgun
þegar barn bauð mér góðan dag og úr munni þess
kom hás rödd nærri fimmtugrar kennslukonu
að mig langaði næstum því
að ræða við það um
lánakjörin hjá lífeyrissjóðnum
afleiðingar kvótakerfisins fyrir byggðir landsins
yfirvofandi stríð á landamærum Rússlands og Úkraníu
stöðu blaðamennskunnar á Íslandi
og hvort sé skárra fyrir þarmaflóruna
Coke Zero eða kaldbruggað kaffi
en ekki endilega í þessari röð