Um sársauka Þorbjargar Kristrúnar Möller (eldri)

Hamingjusöm fjölskylda
er eins og vel rekið fyrirtæki
og jólakveðjan er ársrit

hún handskrifaði hvert einasta kort
vel á fjórða hundrað þegar mest lét
og sinaskeiðabólgan var
að drepa hana
er hún hrærði í sveppasósunni
síðdegis á aðfangadegi

hún hafði kryddað hana
saltað og piprað
eftir kúnstarinnar reglum
en smakkaði aldrei til
sleikti svo mörg frímerki
að allur matur
bragðaðist hvorteðer
eins og sundlaugarvatn
já og svo ekki sé minnst á kvalirnar
sem pappírsskurðirnir á tungunni
ollu henni
þeir greru ekki almennilega fyrr en
í upphafi góu

kvíðinn fyrir jólunum
gerði vart við sig
fljótlega eftir verslunarmannahelgi
skiljanlega hefði einhver sagt
og óx svo að segja stjórnlaust eftir það
í kringum fyrsta vetrardag
leysti hún út litla pakkningu af Zoloft
enda svefninn kominn í algjört rugl

þú getur rétt ímyndað þér
að hún var ein af þeim
sem fagnaði stafrænum lausnum
og í dag lætur hún Google
klippa saman nokkrar vel valdar myndir
úr ferðalögum ársins

í messunni á jóladag
verður henni stundum hugsað til
aðstæðna framlínustarfsfólks hjá Pósti og síma
hér á árum áður
og hefur þér að segja
hneigst nokkuð til vinstri í stjórnmálaskoðunum
þótt hún fari ekki hátt með það

 

jonknutur