Á ég að segja þér ráðgátu?
Sonur minn, fjögurra ára, spurði mig í gær. Endilega hreint, sagði ég. Segðu mér ráðgátu. Ég fékk tvær:
- Af hverju gat maðurinn ekki kveikt á jólaseríunni þegar hún var ekki í sambandi?
- Af hverju gat maðurinn ekki opnað ólæstar dyrnar þegar einhver stóð fyrir?
Gátur af þessu tagi, sem innihalda bæði spurningu og svar, eru mitt uppáhald. Ég er nefnilega vonlaus í gátum og sjaldnast skil ég brandara.
…
Meira af EO.
“Hvar ertu að vinna?” spurði skólabróðir hans í leikskólanum fyrir stuttu. Snúin spurning því ég veit ekki alltaf sjálfur við hvað ég vinn. Dóttir mín hefur t.d. sagt vinum sínum að ég sé trommuleikari og ég geri engar athugasemdir við það.
En það kom sumsé á mig pínu fát og á endanum sagði ég honum að ég ynni “niðrí bæ.” Drap málinu á dreif eins og sannur upplýsingafulltrúi en þetta óljósa svar hafði engin áhrif á þennan skýrleikspilt sem dró rökrétta ályktun:
“Ertu í bæjarvinnunni?”
Næst segist ég vera skrifstofukall. Það ætti að kæla málið.
…
Fann þennan texta í gamalli minnisbók. Mögulega týnd málsgrein í skáldsögu sem ég skrifa einhvern tímann.
Yfirskriftin var Annars hugar.
Síminn skelfur. Þúsund notifications. Ég heyri börnin gráta en geri ekki neitt. Er með hugann við símann. Spyr mig í huganum: Hversu miklum skaða muntu valda?
Það dropar af grýlukertinu við austurgluggann. Klára úr bollanum og hjarnið bleika er óðum að mýkjast. Eftir smástund verð ég til í allt. Kannski ég geti fengið hugmynd. Kannski ég geti fengið hugmynd og hrint henni í framkvæmd?
Elín segist vera svöng og biður mig um að skjótast í búð og kaupa vefju og sykurlaust appelsín. Helst með indverskri sósu. Ég fer í búðina og kaupi samloku með svona fínni spænskri skinku sem ég er viss um að hún fílar. Já, og sódavatn. Slóra á leiðinni til baka. Hlusta á nýtt lag með Big Thief. Veit ekki hvort mér finnst það gott og hætti að hlusta eftir fyrsta viðlag. Dríf mig heim og færi Elínu samlokuna með spænsku skinkunni. Sýnist vera pestó á henni líka.
Hún tekur við henni, horfir á mig og stynur svo eins eins og langveikt gamalmenni. Ég horfi útum austurgluggann. Fyrir framan mig víðáttan. Píkubleik víðáttan. Og enn skelfur síminn.