Í Reykjavík get ég ornað mér við skjábirtuna tímum saman óáreittur og fylgst með öðru fólki.
Enginn fylgist með mér. Og svo virðist sem enginn fylgist með neinum í þessari borg enda fara skáldin út á land til að skrifa og blaðamenn fiska fréttirnar af Twitter.
Öll að flýta sér eitthvert. Öll nema við túristarnir sem gónum í kringum okkur á Laugarveginum. Allt vekur athygli. Á meðan horfa heimamennirnir einbeittir fram fyrir sig. Á leiðinni frá A til B. Engir útúrdúrar. Ekkert rugl.
Ég er líka á leiðinni frá A en villist svo í stafrófinu. Áður en ég enda inni í plötubúð í miðbænum, sem var svosem alltaf planið, fylgja augu mín þvældum kassa utan af Dominospítsu sem hrekst undan vindi í austurátt og hugrenningartengsl við einhvern vestra eru óumflýjanleg. Gegndrepa af poppmenningu síðustu áratuga. Get ekki að þessu gert.
Ég sest inn á kaffihús og panta latte eins og vera ber. Þið vitið, when in Rome…
…
Sit og horfi útum gluggann. Þýsk hjón (gætu ekki verið neitt annað) á aldri við foreldra mína reyna að lesa á kort af miðbænum. Brátt heyrir þessi hegðun sögunni til. Verður bara til í sjónvarpsþáttum sem eiga að gerast í gamla daga. Opna dagbókina og les það sem ég skrifaði í gær. Þetta er kannski ljóð. Ég bara veit það ekki.
Að hafa ekki snert vín
og að vera hættur á að drekka
á þessu tvennu
er reginmunur
sá sem aldrei hefur drukkið áfengi
hefur orðið af þeirri reynslu
(þeirri dýrmætu reynslu!)
að missa tökin
og hefur
þar af leiðandi
frá ýmsu að segja
í svona kaffihúsaspjalli
sem gæti átt sér stað
til dæmis hér
eða í Íslandi í dag
sá sem hættir
getur sagt frá því
hvernig edrúmennskan
hafi kennt honum
að meta lífið
börnin og makann
og hundinn
og svo framvegis og framvegis
sá sem aldrei hefur drukkið
er líka með sögu í farteskinu
en hún á hins vegar
mögulega betur heima
inni í
einhvers konar „viðtalsherbergi“
…
Hún er herðabreið og hávaxin konan sem stígur inn fyrir þröskuldinn. Hún er klædd samkvæmt tískunni. Einhverri tískunni. Gæti verið frá síðasta áratug. Ég ber ekki lengur skynbragð á þessa hluti. Hún lítur út fyrir að vera á aldri við mig en hún gæti sem best verið eldri og hún gæti verið yngri. Ég er hreint ekki viss. Hún biður um aðstoð sem er nokkuð sem menn eins og ég gerum aldrei. Hún segist vera í „nostalgíukasti“ og biður um „eitthvað gamalt og gott.“
„Á vínyl þá eða…?“ spyr afgreiðslumaðurinn, mjúkmáll, en átti greinilega ekki von á þessu. Klukkan ekki orðin hádegi og það er kona í búðinni. Hann þreifar á beltissylgjunni en mig grunar að hann sé að athuga hvort hann sé með opna buxnaklauf.
„Nei, á geisladiski.“
(nú veit ég að hún er á aldri við mig)
„Ókei,“ segir hann og klórar sér í kollinum. „Hvað kallarðu gamalt og gott?“
(var einmitt að hugsa það sama)
Hún hugsar sig um og afgreiðslumaðurinn reynir að hjálpa. „Kannski eitthvað með Ellý eða…?“
„Nei…“
„Frank Sinatra eða eitthvað svoleiðis?
„Njaaa…“
„ABBA?“
„Nei,“ svarar hún ákveðið. „Hérna, ekki áttu sándtrakkið úr Dracula?“
„Já, þú meinar…“ Hann nuddar hökuna í sífellu og teygir sig í kaffibolla. Þessu átti hann ekki von á (og ég ekki heldur). Hann sýpur og spyr allt að því feimnislega:
„Þú ert þá að meina Nosferatu er það ekki?“
„Nei…ég held alveg örugglega að hún hafi heitið Dracula.“
„Með Max Schreck eða…?“
„Nei, þessi var með Keanu Reeves og einhverjum sem ég man ekki hvað heitir. Barry eða kannski Gary…“
„Jánei, þetta eigum við ekki til,“ segir hann snögglega og varpar öndinni bersýnilega léttar. Bætir við, eins og af vana: „Því miður.“