Gunnar ritstjóri sat þögull á skrifstofu sinni. Klukkan var orðinn fjögur og það var föstudagur. Undir öllum venjulegum kringumstæðum átti hann að vera farinn heim til konu sinnar sem var vön að elda uppáhaldsréttin hans á föstudögum, svikin héra með kartöflusalati og sérlega sætri kartöflumús. Gerður kona hans var að mörgu leyti hin fullkomna húsmóðir og var Gunnari alltaf til handar hvernig sem á stóð. Þegar honum hefði gengið illa að skrifa kom hún honum alltaf til hjálpar og rifjaði upp möndruna um að flestir rithöfundar skrifuðu sín bestu verk eftir fertugt og tók síðan nafna hans Gunnarsson sem dæmi. Hann hafði sjálfur notað þessa möndru í nítján ár eða allt frá því að hann ákvað að gerast rithöfundur.

Hann var einn á skrifstofunni en Erna framkvæmdastjóri hafði farið um tvöleytið af því að henni var “illt í maganum”. Erna var margt en fyrst og fremst var hún sjúklingur og hafði á þeim fimmtán árum sem þau höfðu unnið saman fengið flesta sjúkdóma sem heimilislæknirinn kunni að greina. Fyrstu árin hafði Gunnar látið þetta fara í taugarnar á sér, honum fannst þetta vera hegðun sem sæmdi ekki landsbyggðarkonu, en svo smám saman hætti hann að pæla í þessu því þetta truflaði einbeitinguna hans.

Hann stóð upp og fór fram í eldhús og lagaði rótsterkt kaffi og settist svo aftur við tölvuna sína og fór á netið. Hann kíkti inn á Rithringinn til að sjá hvort einhvern hefði kommentað á nýjustu smásöguna sína sem hét Vindurinn og var í raun nokkurs konar vinjetta, óður til lífsins úti á landi eins og reyndar flestar sögurnar hans.

Enginn hafði gert athugasemd við söguna þó hún hefði verið þar fimm vikur fyrir utan einhvern Viktor sem hrósaði honum fyrir góða stafsetningu. Það lifnaði aðeins yfir honum en þetta var sossum ekki í fyrsta skipti sem honum var hrósað fyrir góða stafsetningu. Í grunnskóla hafði hann aldrei fengið minna en níu í íslensku og fékk við útskrift í menntaskóla sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku, gott ef það var ekki orðað svo að hann væri “einstaklega næmur á hrynjanda og vald hinnar íslensku tungu” og kennarinn hans hafði sagt við hann í lokahófinu að hann væri “meiriháttar stílisti”. Viðurkenningin hékk á veggnum fyrir framan hann ásamt öðru sem honum þ´tto meira að segja enn vænna um en það var viðurkenningarskjal frá sveitarfélaginu. Hann, sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Lundans, héraðsfréttablaðs Lundavíkur, hafði í sumar, nánar tiltekið á sjómannadaginn, fengið samfélagsverðlaun frá sveitarfélaginu fyrir “jákvæðan fréttaflutning af landsbyggðinni á erfiðum tímum” eins og stóð á plöggunum.

Í ræðunni sem bæjarstjórinn hélt sagði hann um Gunnar að hvert sveitarfélag hefði þörf fyrir menn eins og hann sem bentu á hið fallega í umhverfinu þegar æsifréttablöðin fyrir sunnan veltu sér upp fólksfækkun og uppsögunum í frystihúsum. Gunnar hefði verið óþreytandi með jákvæðum og uppbyggilegum fréttaflutningi í þau fimmtán ár sem hann hefði gegnnt starfi ritstjórans. Gunnar tók auðvitað íslensk mál háalvarlega og í eina skiptið sem hann tók sér veikindafrí hjá Lundanum í eina viku var þegar hann skrifaði sögnina að tína, s.b. að tína ber, með ufsiloni þ.e. að týna. Blaðið kom út vikulega á hverjum fimmtudagsmorgni og um hádegið þegar Gunnar var að fara í mat hringdi kona úr frystihúsinu og benti honum á þetta. Gunnar mótmælti þessu vitanlega og benti konunni vinsamlegast á að hann hefði nú fengið viðurkenningu í menntaskóla fyrir íslensku þannig að hann vissi nú líklega betur um þessi mál. Konan baðst afsökunar en um leið og Gunnar hafði lagt á fletti hann upp í orðabók menningarsjóðs og sá að hún hefði haft rétt fyrir sér. Sem fyrr segir var Gunnar frá í viku en þegar hann kom aftur tókst honum að sannfæra framkvæmdastjórann um að ráða prófarkalesara, ekki einn heldur tvo.

“Ég treysti mér auðvitað fullkomlega til að gera þetta sjálfur en stundum getur stressið ruglað mann í ríminu,” sagði hann við Ernu á sínum tíma sem samþykkti allt. Og síðan hafði ekki sést ein villa í blaðinu, hvorki málfars né stafsetningar.

En víman yfir hrósinu á Rithringnum var fljót að renna af honum og hann slökkti á tölvunni. Hann setti lappir upp á borð og drakk kaffið í rólegheitunum. Hann vissi auðvitað hvað var að trufla hann. Það lá alveg ljóst fyrir.

Alveg frá því að hann frétti að Jóhann Helgason væri kominn með konu, og það meira segja af erlendu bergi brotnu, hafði skáldsagan hans smám saman að koðnað niður. Hann hafði ekki skrifað neitt í sex mánuði. Hann þoldi ekki tilhugsunina um að Jóhann, fyrirmynd aðalsöguhetjunnar, var ekki lengur sá sem hann var. Jóhann var ekki lengur Herbert, einbúi og trillukarl austur á fjörðum sem barðist við höfuðskepnurnar upp á líf og dauða á hverjum degi. Hann var eitthvað annað. Eitthvað sem Herbert átti ekki að vera. Herbert át soðningu á hverjum degi með hamsatólgi og lýsi en ekki einhverja suðurevrópska “rétti”. Þó Gunnar æti suðurevrópska rétti á hverjum fimmtudegi (Gerða hafði sérstaka dagskrá yfir máltíðir vikunnar t.d. svikin héra á föstudögum og grískt salat á fimmtudögum) þá var það allt annað. Hann mátti borða suðurevrópska rétti enda varheimsborgari þó hann hefði reyndar ekki farið til útlanda síðan hann fór í kórferðina til Skotlands fyrir þremur árum síðan. En Gunnar áleit heimsborgarann vera hugarástand sem hefði ekkert með það að gera hversu oft og lengi menn hefðu verið í útlöndum.

Og Jóhann var enginn andskotans heimsborgari þó hann héldi það sjálfur núna. Jóhann var í eðli sínu Herbert. Maður náttúrunnar. Maður sem myndi frekar borða afbeitu en ólívu. Jóhann var maður sem þrátt fyrir að róa í hvaða veðri sem er, og sýna þar með aðdáunarvert hugrekki, myndi aldrei láta sjá sig með konu. Allra síst fallegri, dökkhærðri og brúneygðri konu sem hét útlensku nafni! Jóhann var sönn austfirsk hetja og umfram allt söguhetjan Herbert í stórbrotnum epískum þríleik sem Gunnar var hálfnaður með og meira segja komin með nafn á!

Gunnar vissi vel að áhyggjur hans stöfuðu ekki einungis af því að líf Jóhanns hefði tekið nýja stefnu. Hann hafði líka áhyggjur af þeim hugmyndum sem höfðu verið að gerjast í kollinum á honum og miðuðu að því að koma Jóhanni aftur á “beinu brautina”. Í aðra röndina fannst honum viðurstyggilegt að hann, Gunnar Jónsson, væri að velta því fyrir sér að eyðileggja hjónaband manns sem vafalítið hafði látið sig dreyma um konu og fjölskyldulíf í mörg ár – eins og söguhetjan Herbert.

Hann fór í svarta frakkann sinn og yfirgaf skrifstofuna. Efinn var að gera hann að kvíðasjúklingi.

 

jonknutur