Ef væri ég söngvari

Ég er nýkominn úr göngutúr með hvolpinn. Ætlaði með hann út í „Haga“ sem mér skilst að sé heitið á svæðinu þar sem vinnubúðirnar voru reistar þegar verksmiðjan var byggð upp úr aldamótum. Ég er ekki heimamaður og kann ekki svona lókal örnefni nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég veit að fjallið í stofuglugganum heitir Hádegisfjall. Flest annað er á reiki.

Þegar ég segi Esther að ég sé að fara út með hundinn veit hún hvert ég fer. Því ég fer næstum því alltaf sama hringinn. Ég er vanafastur, bind allt sem ég get í rútínur, borða alltaf sama morgunmatinn (hafragraut með rúsínum), skrifa á sama tíma (frá sex til sjö). Ég geri þetta til að spara tíma. Ég veit hvað stendur til, þarf ekki að velta vöngum. Þetta fækkar valkostum og vinnur gegn streitu.

Ég legg bílnum nálægt Norðfjarðarvegi, í „túnfæti“ vinnubúðanna og geng úteftir veginum, sem er s.s. gamli Norðfjarðarvegurinn, þar til ég kem að öðrum vegi, sem liggur upp í fjallið, og ég reikna með að hann hafi verið lagður þegar rafmagnsmöstrin voru reist á sínum tíma. Þessir vegir, sem ég kalla „línuvegi“, finnst mér eins og liggi út um allt og ég hef ekki enn gengið þá alla til enda þótt ég hafi búið hér í að verða fimmtán ár.

Hnota er annar hundurinn í minni eigu sem fær að kynnast þessu umhverfi. Stígakerfinu í fjallinu. Ég er oftast með hana lausa því það er ágætis útsýni yfir veginn, svona oftast allavega, og sjaldan sem einhver kemur manni á óvart. Það gerist eiginlega bara þegar ég tek með mér hljóðeinangrandi heddfóna og er týndur í tónlist eða hlaðvarpsþáttum sem fjalla oft um tónlist. (Ég hlusta orðið meira á umfjöllun um tónlist en á tónlistina sjálfa. Sem er svolítið galið er það ekki?)

En mér finnst notalegt að hlusta á fólk tala. Finnst eins og ég sé ekki einn. Eins og að einhverjir málgefnir kunningjar séu með í för.

Þetta hlýtur að vera aldurinn.

Í gærmorgun var ég að hlusta á tónlist. Ég hafði fundið lagalista sem unnin var upp úr skáldsögunni The Shards eftir Bret Easton Ellis. Ég kláraði bókina í fyrrakvöld, sem var sex hundruð síður og lengsta skáldsaga sem ég hef lesið í nokkur ár. Ég er bara eins og þið: Búinn að skaða í mér heilabúið með samfélagsmiðlanotkun og á erfitt með að halda athygli ef málsgrein er lengri en hundrað orð.

Mér finnst þetta skelfileg þróun. Á mér. Á okkur öllum. Og ég held að þetta sé alvarlegt. Ég held í alvörunni að þetta sé alvarlegt. Ég held að þetta útskýri uppgang öfgaskoðana til hægri og vinstri og ég held að þetta dragi athyglina frá málum sem eru í raun og veru að ógna tilvist okkar.

Samfélagsmiðlanotkun er að drepa okkur. We are amusing ourselves to death.

Svona get ég haldið áfram að þenja mig í samtali við engan, einn með hvolpinn uppi í fjalli. Ég þarf stundum klukkustund til að ganga úr mér pirringinn út í „stöðuna“ en stundum er þetta persónulegra: Einhver sagði eitthvað við mig og í þessum dagdraumum segi ég það sem átti að segja. Les yfir honum. Læt hann heyra það.

Velti fyrir mér núna hvort þetta sjáist á mér ef einhver fylgdist með þessum göngumanni úr fjarska með kíki. Hreyfast varirnar? Hnyklar hann brýrnar? Er hann með fingurinn á lofti þegar mest liggur við?

Ég þramma svona hugsanir úr mér og svo umbreytast þær í eitthvað annað. Verða, í vissum skilningi, léttvægari. Ómeðvitaðar og stundum skrýtnar. Í þessum fasa fæðast stundum ljóð, Facebook-statusar, uppskriftir að súpum og lausnir á öðrum hversdagslegum vandamálum.

Ég var t.d. að hlusta á Vienna með Ultravox í gærmorgun, sem er fyrsta lagið á þessum lagalista úr The Shards. Bókin gerist árið 1981 og ekkert er meira „1981“ en Vienna með Ultravox. Ég hafði tekið heddfóninn af öðru eyranu svo ég gæti heyrt mig syngja með og ég var að velta fyrir mér hvort raddir okkar Midge Ure, söngvara og helsta lagahöfundar Ultravox, væru á svipuðu raddsviði þ.e. gæti ég sungið þetta lag, t.d. í karaoke á bar einhvers staðar á Spáni, með sannfærandi hætti, án þess að hljóma mjög falskt? Ég er nefnilega með mjög takmarkaða söngrödd og það truflar mig aðeins. Kann ekki alveg að útskýra það en ég skal reyna:

Ég spila í hljómsveit og stundum heyri ég hvernig hægt væri að radda með söngvaranum en ég get ekki framkvæmt það. Og það er soldið glatað! 

Og svo langaði mig að syngja fyrir Iðunni og Elías þegar þau voru lítil. Ég vildi að þau fengju „tónlistarlegt“ uppeldi og keypti bók sem hét Sönglögin okkar í bókabúð á Akureyri rétt áður en Iðunn fæddist. Ég keypti líka tvær uppeldisbækur. Handbækur fyrir verðandi foreldra. Ég ætlaði að lesa mig í gegnum uppeldið.

Aftan á þessari tilteknu bók stóð: Skemmtileg lög sem allir Íslendingar þekkja og ekki síst börnin. Bókin geymir undirspil, texta og fallegar myndskreytingar. Kynslóðirnar geta skemmt sér saman með þessari bók við að syngja lög eins og Ég er kominn heim, Ryksugulagið, Danska lagið, Sagan af Gutta og miklu fleiri. Veljið lag, ýtið á takkann, hlustið, lesið og syngið með!

Það var aldrei sungið fyrir mig sem barn og ég veit meira um breskt post-punk í kringum ’80 en ég veit um íslensk dægurlög og vísur. Sum lögin voru mér því fullkomlega framandi og ég þurfti að finna þau á Spotify, spila þau með bókina við höndina og lesa textann með. Ég þurfti að kynnast þessum menningararfi minnar eigin þjóðar og „gera þau að mínum,“ eins og dómararnir í Idol segja.

Til að gera langa sögu stutta: Þetta tímabil entist stutt. Ég söng fyrir börnin í fáein skipti og svo hætti ég því. Þetta bara virkaði ekki. Þetta var eins og að spila eitthvað lag á dansleik sem við í bandinu vorum búnir að ákveða að virkaði en virkaði svo alls ekki. Það dansaði enginn. Það fóru allir út að reykja.

Ég held að vandinn hafi verið sá að tóntegundin hentaði mér ekki. Hver veit, kannski var hún ætluð mömmum en ekki pöbbum? Ég bara veit það ekki. Krökkunum fannst allavega ekki notalegt að hlusta á mig syngja. Mér fannst það ekki heldur. Mér fannst eiginlega mjög óþægilegt að hlusta á sjálfan mig því ég réð ekki við röddina mína, hafði ekki stjórn á henni og hún brotnaði við minnstu hreyfingu laglínunnar, hvort sem hún fór upp eða niður. Ég hitti bara ekki á réttar nótur!

Þetta var samt ekki beinlínis vandræðalegt. Börnin voru bara börn og báðu mig um að hætta þessu. Ég hafði engar þannig hugmyndir um sjálfan mig að ég gæti sungið, að ég væri söngvari, svo ég hætti bara. Þetta snerist eingöngu um góðan vilja og ég móðgaðist ekki. Ég vildi bara syngja fyrir börnin; ef væri ég söngvari syngi ég ljóð // um sólina vorið og land mitt og þjóð…

En ég gat það ekki og þess vegna hætti ég. Krakkarnir vildu miklu frekar heyra mig lesa og ég held að röddin mín henti betur til upplesturs. Já, ég held, ykkur að segja, að ég sé með ógeðslega góða útvarpsrödd. Þótt ég segi sjálfur frá. Gæti örugglega gert góða hluti sem starfsmaður hjá Storytel.

Ég hef fengið sömu martröðina oftar en einu sinni: Ég stend á sviði með míkrafón í hendi og fólkið í salnum, sem ég sé ekki því ég stend í björtu og blindandi sviðsljósi, bíður eftir því að ég byrji að syngja.

Og svo byrja ég:

We all came out to Montreux
On the Lake Geneva shoreline
To make records with a mobile
We didn’t have much time
But Frank Zappa and the Mothers…o.s.frv.

Þetta er, ef þið eruð ekki búinn að átta ykkur á því, Smoke on the Water með Deep Purple. Útjaskaðasta rokklag sögunnar og einn mesti rokkbarki síðustu aldar syngur það í upprunalegri útgáfu frá árinu 1972. Hann er „hetjubarki“, svokallaður, eins og Robert Plant í Led Zeppelin. Gersamlega með ‘etta, getur sungið allt og var náttúrulega „sexy as fuck“ í gamla daga.

En eins og ég er búinn að lýsa þá get ég ekki sungið Gamla Nóa án þess að fara út af sporinu. Og á meðan ég man: Ég syng ekki bara falskt heldur man ég sjaldan söngtexta. Þannig að þessar matraðir reyna mjög á mig, ég svitna og mér líður eins og ég sé búinn að pissa á mig þegar ég vakna. Sem er auðvitað ekki góð tilfinning fyrir fullorðinn mann. Ég hef vaknað hljóðandi upp úr svona draumum og vakið Esther en man síðan ekki hvort ég er að syngja þegar ég vakna eða hvort þetta eru einhvers konar hræðsluviðbrögð. Að ég sé lagður á flótta. (Og ætli ballgestir séu þá að elta mig?)

Mig dreymir ekki oft og þá sjaldnar að ég fái martraðir. Í þau fáu skipti sem það gerist tengist það iðulega álagi. Það er mikið að gera í vinnunni, verkefnin ekki á mínu hæfileikasviði, yfirmaðurinn ósanngjarn, vinnufélagarnir gagnslausir. Það er enginn er að standa sig. Nema ég náttúrulega. Ég þarf að gera allt sjálfur.

Og þá held ég að undirmeðvitundin komi mér fyrir á sviði í félagsheimili fyrir vestan með míkrafón. Gítarleikarinn byrjar á riffinu sem við þekkjum öll, fólkið byrjar (náttúrulega) að klappa á einum og þremur og við bíðum öll eftir söngvaranum: We all came out to Montreux…

Svona nær hún mér – undirmeðvitundin – niður á jörðina, gerir mig auðmjúkan, og ég mæti bljúgur í vinnuna þann daginn. Þakklátur vinnufélögunum. Og yfirmaðurinn? Hann er sá besti sem ég hef haft nokkurn tímann.

Kannski er ég, eins og sumir trommarar, með dulda ósk um að vera frekar söngvari. Ég las þetta í viðtali við Bono í U2 einhvern tímann. Hann var að tala um trommarann, Larry Mullen Jnr. Sagði hann vera með „söngvarakomplex“. Einhver sem vildi hafa stærra hlutverk en honum var ætlað.

Kannski er ég bara eins og Larry?

Kannski er ég með dulda þrá um meira sviðsljós, meiri athygli. Ég vil meira pláss. Ég vil vera númer. Ég vil vera alfa. Ég vil greina ljóðin mín með Agli Helgasyni í Kiljunni.

(Mér finnst óþægilegt að skrifa þetta. Þetta rímar ekki við sjálfsmyndina um að ég sé hógvær og feiminn. Vel uppalinn og hlýðinn.

Ég hitna í andlitinu og finn að það rennur svitadropi niður bakið á mér. Það er harður púls við gagnaugun og mér finnst eins og ég sé að fá hjartaáfall. Ég trúi þessu ekki. Burt með þessa hugsun!

Burt!)

Á þessu augnabliki sé ég að Hnota er að róta í lúpínubeði. Ég er með Vienna á háum styrk, örugglega búinn að spila það fimm sinnum í röð og hef nokkurn veginn náð viðlaginu (að ég held). Lagið er að klárast sem það gerir með dramatískum, eiginlega hádramatískum, hætti. Alvöru Wagner-ískt crescendo eins og menn kunnu að gera í nýrómatíkinni árið 1981 þegar tónlist var ennþá dínamísk.

Svo sé ég það sem ég óttast: Hnota er með þrastarunga í kjaftinum.

Heyri mig öskra. (This means nothing to me! This means nothing to me!) Heyri mig skipa henni að sleppa honum sem hún gerir ekki. Hún er labrador, veiðihundur, og hún skilur ekki hvers vegna hún má ekki gera það sem henni var ætlað að gera. Að fanga fugla. Ég öskra aftur (This means nothing to me!) og reyni að ná unganum úr kjaftinum á henni en hún sleppir ekki. Hún skilur ekkert. Er hikandi og hissa. Veit ekki hvers vegna eigandi hennar er með þessi læti út af einhverjum smáfugli. Hörfar en loksins opnar hún kjaftinn nægilega mikið svo fuglinn dettur á jörðina, helsærður, annar fóturinn eftir í munnviki hennar. Situr þar eins og illa vafin sígaretta. 

Unginn reisir sig við, situr „á rassinum“ í mölinni, báðir vængir útbreiddir og óeðlilega beinir. Sennilega báðir brotnir. Hann teygir höfuðið í átt að himni í síðasta skipti og opnar gogginn, titrandi. Heldur honum opnum. Eins og söngvari. Eins og hann sé að syngja lokatóninn í Vienna með Ultravox. (This means nothing to me!) Þessu ótrúlega popplagi sem endar þarna uppi í fjalli á sama tíma og líf þessa þrastarunga. Um mitt sumar. Austur á Reyðarfirði.

 

jonknutur