Stritið mitt

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus athöfn.

Já, eða það sem mig langaði til að skrifa en gerði ekki:

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn.

Lokatilraun:

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn að því gefnu að það sé löglegt að kaupa hljómplötur og bækur.

Svona. Þetta er það sem ég meinti.

Sæl öll.

Ég heiti Jón Knútur og ég er plötu- og bókafíkill.

Ég vil ekki gera lítið úr fólki sem glímir við alvarlega vímuefnafíkn. Fólk sem er líkamlega háð því að fá inn í æðakerfið einhver efni svo það fúnkeri. Svo það geti tekist á við daglegt líf, mætt í vinnu, keypt í matinn, sett í vél, borgað reikninga, pantað tíma fyrir börnin hjá lækninum og/eða í klippingu og/eða pítsu. Hvað sem er. Sinnt þriðju vaktinni og/eða bara boðið kunnuglegu andliti góðan dag í búðinni.

Ég fúnkera þótt ég sleppi því að kaupa bækur og hljómplötur. Ég get alveg farið inn í plötubúð án þess að kaupa nokkuð. Það geta liðið vikur á milli þess sem ég kaupi hljómplötu. Jájá, það geta liðið vikur. 

En. Þá er ég bara þeim mun duglegri að kaupa bækur og þótt hér á Reyðarfirði, þar sem ég bý, séu hvorki plötu- né bókabúðir hefur netverslun gert þetta auðvelt. Hófleg löngun s.s. ekki sú sem lýsir sér með vægum handskjálfta eða svitadropa á nefbroddi getur endað með „frágangi pöntunar“ svo ég orði þetta kalt og hlutlaust eins og langskólagenginn sálkönnuður.

Oft gengur þetta svona fyrir sig:

Ég hlusta kannski á skemmtilegt hlaðvarp um tónlist. Segjum bara að ég sé að hlusta á viðtal við höfund bókar um tengsl rokktónlistar og stjórnmála í Englandi um miðjan tíunda áratuginn. Fáránlega áhugavert viðfangsefni hafi maður yfirleitt áhuga á stjórnmálum og tónlist. Tek upp símann, opna Amazon og finn bókina strax. Framan á henni er teiknuð, eða eins og stensluð, mynd af Tony Blair og Noel Gallagher (hann heldur á fræga Epiphone-gítarnum, þessum í fánalitunum).

Hugsanastraumnum mætti lýsa einhvern veginn svona:

Sniðugt. Kúl kóver. Ó, hún er á tilboði. Kostar ekki nema tvö þúsund og fimm hundruð krónur hingað kominn með aðflutningsgjöldum og öllu. Já, ókei og hún er tæpar sex hundruð síður. Látum okkur sjá, það eru ekki nema fjórar krónur per blaðsíða…jahá, ekki slæmt.

Ég ímynda mér sjálfan mig með bókina: Sit í þeim „gráa“ í setustofunni. Klukkan sex að morgni og enginn á fótum nema ég. Og kannski hundurinn. Allavega eru börnin sofandi. Enginn að biðja mig um neitt. Ég kveiki á kerti. Ilmkerti. Birkiilmur. Skiptir kannski ekki máli. Og ég er með tvöfaldan espresso í handgerðum bolla frá Esther & Ceramics. Ég er í Star Wars-náttbuxunum mínum og í handgerðri lopapeysu. Hún stingur ekki (merino-ull). Það er svo notalegt. Inniskórnir eru frá Oofos og að ganga á þeim er eins og að ganga berfættur á strönd við Miðjarðarhaf. Sérhannaðir á tilraunastofu, örugglega í Hollandi eða Japan eða á „svæði 51“, fyrir fólk með iljarfellsbólgu, hælspora og tábergssig. Ekkert af þessu hrjáir mig en samt nota ég svarta inniskó frá Oofos. Drep býflugur með kjarnorkusprengjum.

Ég er semsagt að máta mig við bókina.

Þetta tekur nokkrar sekúndur, ef svo lengi, og svo er ég með, sem fyrr segir, stærstu bóka- og plötubúð í heimi í vasanum.

Þetta er ekkert flókið. Það var viðtalið við höfundinn sem kveikti löngunina og restin er síðan bara eitthvað réttlætingarþvaður þar sem ég læt hlutina ganga upp þannig að niðurstaðan verði sú að ég kaupi bókina. Að kaupa þessa tilteknu bók er það eina skynsamlega í stöðunni. Svona bók verður í sjálfu sér ekki metin til fjár, sjáiði til. Hún mun gera mig gáfaðri og fylla líf mitt  gleði og innihaldi. Með henni mun ég eiga ótal „gæðastundir“ og þá tel ég ekki einu sinni með skiptin sem ég mun nýta mér efni hennar sem hráefni í stöðuuppfærslur sem ég skrifa inn í hópa á samfélagsmiðlum þar sem allir meðlimirnir eru svipaðar týpur og ég. Tómleikakenndir miðaldra karlmenn sem vantar smá viðbragð frá umhverfinu. Smá athygli. Smá ást. Hei, hvað eru nokkur læk á milli vina? Geri mig breiðan, tek mér pláss. Held einhverju fram sem gæti virkað stuðandi. Hristi upp í hlutunum. Kem af stað fárviðri. Ég er „enfant terrible“ CD-vaktarinnar á Facebook.

Þetta gerist allt mjög hratt og áður en ég veit af hef ég fengið póstinn um að pöntunin sé móttekin.

Og þá kemur samviskubitið.

Það kemur alltaf. Eins og glymur dyrabjöllunnar þegar maður er einn heima og hefur komið sér þægilega fyrir í „gráa“ með „prentsmiðjuilmandi-nýja“ bók.

Ég hef nefnilega aldrei keypt plötu eða bók án samviskubits. Mögulega er það samt partur af ánægjunni. Veit það ekki. Er ekki viss en það er ekki útilokað. Þessi tengsl vellíðunnar og sársauka eru eitthvað svo spes og dularfull. Stundum leiðir samviskubitið til þess að ég afpanta bækur eða plötur en það gerist sjaldnast. Mér finnst það eiginlega bara pathetic og ég sé fyrir mér starfsmenn Amazon hlæjandi við flæðilínuna í vöruskemmunni, að þessum gaur á Íslandi sem ræður ekki við sig. Að þessum stjórnlausa náunga sem býr örugglega enn heima hjá mömmu og pabba, á stað sem finnst ekkert endilega á landakorti.

Nei, ég tek frekar afleiðingunum. Beiti mig hörku. Mæti lúpulegur á pósthúsið og sæki helvítis pakkann. Ber mig á allan hátt eins og hamingjusamlega giftur fjölskyldumaður í smábæ (sem ég er), þar sem allir þekkja alla, að sækja kynlífsdúkku. Uppblásna – náttúrulega – og þeir hafa ekki haft fyrir því að pakka henni inn í svart plast. Geng með hana heim undir hendinni eins og ég sé á sviði í félagsheimili úti á landi að leika í lélegum þorrablótsannál. Ó, þvílík skömm!

Reyndar hafa póstboxin gert þetta aðeins skárra. Fæ sms en ekki prentaðan miða heim í póstkassa um að það bíði mín pakki frá útlöndum sem Esther réttir mér og segir sposk:

„Úúú…hvað var verið að panta? Bók handa mér?“

Enginn þekkir mig betur en Esther. Hún veit um öll mín leyndarmál og þekkir öll mín vandamál. Hún veit að ég ræð ekki við mig en vegna þess að ég sit ekki undir brúnni niðrí bæ og sprauta mig, sem getur verið pínu sexí – smá rokk og ról – er mín fíkn bara, í besta falli, „krúttleg“ og „asexual“. Hljómplötu- og bókafíkn gerir mig ekki á neinn hátt áhugaverðan eins og ég ímynda mér að morfínfíkn gæti gert. Ég meina, hvað væri William Burroughs án sprautunnar? Bara fínn rithöfundur vissulega en vitum öll að það er ekki nóg!

Þannig að þetta er fyndið og við hlæjum saman að þessu þótt hún hafi nokkrum sinnum spurt mig, þreytulega því það er enn langt til mánaðarmóta og við erum kannski eilítið blönk, hvenær nóg sé nóg.

Hvað þarf ég eiginlega margar plötur með Bob Dylan? Þarf ég að eiga allan eighties-katalógginn þegar við vitum öll að Oh Mercy er nóg? (og kannski hin vanmetna Infidels frá ’84). Eru standardaplöturnar með honum frá síðustu árum skyldueign? Er sjálfgefið að þær verði með tíð og tíma mínar uppáhalds plötur með Dylan þótt mér þyki þær svolítið undarlegar í dag? Myndi ég skrifa eins og alvöru rithöfundur læsi ég My Struggle-seríuna eftir Knausgård? (þrjú þúsund og sex hundruð blaðsíður á sirka tíu þúsund og sex hundruð krónur hingað komnar gera hverja blaðsíðu sirka þriggja krónu virði. Ekki slæmt).

En þetta er nú mergur málsins. Nóg er aldrei nóg. Þú ert aldrei búinn að kaupa síðustu hljómplötuna eða síðustu bókina. Þú ert aldrei búinn að ganga frá pöntuninni sem endar allar pantanir. Lokapöntunin er ekki til. Ekki frekar en marbendlar. Þetta þarftu að skilja ef þú vilt ná bata og jafnvel þótt þú skiljir þetta er ekki sjálfgefið að það hafi neitt að segja. The struggle is real.

Nema náttúrulega í þeim skilningi að tæknilega séð er pöntunin sem ég bið hjúkrunarfræðinginn á líknardeildinni að ganga frá fyrir mig, þegar að því kemur, hin eiginlega lokapöntun. Í vissum og vitaskuld mjög ákveðnum skilningi hlakka ég til. Því þá læt ég loksins verða að því að panta Bukowski eins og hann leggur sig. Ljóðabækurnar líka.

Hvort ég verði enn lifandi þegar pakkinn kemur austur á firði er aukaatriði. Og það þarf varla að taka fram að það er líka mergur málsins.

 

jonknutur