Á laugardegi verslunarmannahelgar keypti ég mér hljómflutningsgræjur, þær fyrstu sem ég eignast síðan ég fermdist. Fermingargræjunar voru frá Normende og entust í tvö og eftir það notaði ég ghettoblastera af ýmsum sortum, lengst af einn frá Panasonic sem ég keypti í grallaraferð til Svíþjóðar sumarið 1995. Ég hef því ekki, þrátt fyrir að eiga nokkur hundruð diska, átt alminilegar græjur og það hefur vakið furðu nokkurra vina minna. Til dæmis ætlaði tónskáldið í Köben ekki að trúa þessu og bað mig vinsamlegast um að kaupa aðeins færri diska og nota peninganna þess í stað í græjukaup.

Sem og ég gerði ekki. En ég keypti mér líka græjur: Plötuspilara og geislaspilara frá Sony, magnara frá Nad og hátalara frá Dahli. Allt megastöff og sé vel með það farið þarf ég ekki að kaupa græjur framar.

Mér fannst important að kaupa mér plötuspilara. Ólíkt mörgum jafnöldrum mínum sem byrjuðu á að kaupa sér kassettur keypti ég alltaf plötur. Fyrst í Nesbæ (fyrsta platan mín var annað hvort Come Out and Play með Twisted Sister eða Fly on the Wall með AC/DC) og síðan í Tónspil til svona 1988-89 þegar geisladiskurinn kom.

Í nokkra daga hef ég verið að hlusta á vínyl og í gærkvöldi hlustuðum við bræður á nokkrar plötur m.a. á Another Side of Bob Dylan. Gömul og góð vínylplata sem ég eignaðist úr gömlum lager (sem geymdur er í bílskúr útí bæ!) fyrir stuttu. Er ekki frá því að ég hafi séð tár á hvarmi bróður míns þegar nálin hoppaði endurtekið á rispu í lok It ain’t me babe, síðasta lags A-hliðar. It ain’t me – kligg – It ain’t me – kligg – It ain’t me -kligg – O.s.frv. Við hlustuðum á þetta í tíu mínútur og ræddum gamlar minningar tengdar vínylplötum. Og það er nóg til af þeim. Þær myndu fylla heila bók.

Vínyllinn er á margan hátt fremri geislaplötunni. Ég á ekki við sánd því sama hvað ég hef reynt undanfarna daga heyri ég engan mun. Helst þá að diskurinn sé betri ef eitthvað er. Meira um það síðar.

Það er af annarri ástæðu sem vínyllinn rúlar. Þegar maður hlustar á vínyl hlustar maður á að minnsta kosti fimm lög í röð. Þetta gerist aldrei þegar maður hlustar á geilsadisk. Ástæðan er fjarstýringin. Það er rétt að koma dásamlegt gítarsóló þegar einhver grípur fjarstýringuna og skiptir um lag. Þetta er ekki hægt með vínyl. Það verður einhver að standa upp og actually gera eitthvað! Og því nennir enginn. Fólk situr og hlustar. Kynnist plötum frá byrjun til enda. Kynnist göllum þeirra og kostum. Þær eru eins og vinir manns í smábæ. Maður getur ekki látið þá róa.

LP – platan er ákveðið listform sem varð til um miðjan sjöunda áratuginn þegar menn eins og Brian Wilson og Bítlar gáfu út plötur eins og Pet Sounds og Rubber Soul. Þetta er almenn viska í poppfræðum. Hugsunin var sú að gera tíu til tólf laga plötu sem virkaði eins og heild. Áður fyrr gáfu menn út tíu laga plötu með tveimur góðum lögum og önnur átta voru bara til uppfyllingar. Nú átti hvert einasta lag að hafa tilgang og röð laga skipti öllu máli. Þannig skipti máli hvernig síðasta lag A-hliðar átti að vera enda var það síðasta lag fyrir hlé. Á geisladiski verða gamlar vínylplötur alltaf soldið undarlegar. Tökum sem dæmi fyrstu plötuna með Led Zep. A-hlið endar á Dazed and Confused. Lagið er svo rosalegt að það verður að fá að ljúka einhverju svo áhrif þess séu hámörkuð. Þegar laginu lauk horfði maður á vini sína og sagði “Vá” og “Djísús Kræst” og svo var opnaður annar bjór plötunni snúið við.

Á geisladiski er Dazed and Conufused bara lag númer fjögur (með tilkomu geislaplötunnar nennti maður ekki lengur að leggja nöfn laga á minnið) og lag númer fimm var hippalagið Your Time is Gonna Come en með fullri virðingu fyrir laginu dregur það máttinn tilfinnanlega úr D og C nema maður geri eins og sumir og prógrammeri geilsaspilarann þannig að hann hætti eftir lag fjögur. En. Hljóðið sem kemur þegar nálin fer að endimörkum, lyftist, fer til baka og leggst á sinn stað skiptir líka máli. Partur af vínylreynslunni. Maður náði oftast nær ekki andanum fyrr en þessu var lokið. Þetta var lognið á undan storminum þ.e. væri platan góð.

Samt er ég nú barn geilsaplötunnar. Þessi vínylminning er að hluta til sönn og að hlusta til fabríkeruð því vissulega hefur maður orðið fyrir áhrifum kvikmynda eins og High Fidelity þar sem snobbað er fyrir vínylnum.

 

jonknutur