Fyrir vin minn Jack (Daniels)

Það er ekki gott að segja hvenær ég kynntist þungarokki fyrst. Ég á margar sögur af mínum fyrstu kynnum en þær breytast því oftar sem ég segi þær. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég komist að einhverri niðurstöðu og hef stundum haldið að eftir því sem ég eltist og þroskaðist að myndi ég smám saman detta niður á einhverja eina sögu sem yrði svona offisjal útgáfa af kynnum Jóns Knúts Ásmundssonar af þungarokki, sérstaklega amerísku þungarokki frá svona 1983 til 1990. En þetta hefur ekki gerst. Sagan verður bara flóknari og óskýrari eftir því sem ég eldist.

Ég ræði þessa hluti stundum við útgefanda minn og byrja þá yfirleitt einhvern veginn svona: “Ég man þetta eins og þetta hefði gerst í gær…” og svo koma ýmist sögur af opnunardegi Tónspil eða þegar ég sá Dadda vin minn fyrst eða þegar ég og Keli sátum fyrir framan útvarpið í herbergi Halldórs bróður og hlustuðum á Bárujárn í umsjón Sigurðar Sverrissonar klukkan tíu á fimmtudagskvöldum. Eða þegar ég stal fimm hundruð krónum úr veskinu hennar mömmu til að kaupa Come out and play með Twisted Sister. Allar þessar sögur eru sannar en engin þeirra hefur nein yfirráð yfir hinum. Þær eru allar jafnsannar. En án þess að þær séu sagðar mun enginn nokkurn tímann skilja hvers vegna hljómsveitin Langi Keli og Stubbarnir var stofnuð sumarið 1989. Af hverju ákváðu fjórtán ára strákar frá krummaskuði á austurströnd Íslands, synir trillukarla, að stofna glamrokkhljómsveit?

En það er ekki nóg að segja þessar sögur. Þetta eru svo margar sögur að mig verkjar í höfuðið og ég fæ niðurgang í hvert sinn sem ég hugsa um að skrifa þær niður.

Og þetta eru svo margar sögur að ég veit ekki hvar ég á að byrja.

Um daginn fór ég til Norðfjarðar. Aðallega fór ég af því að foreldrar mínir vildu hitta kærustuna mína en ég vildi líka sýna henni Norðfjörð. Því jafnvel þó ég sé fluttur frá Norðfirði og hafi ekki hugsað mér að flytja þá aftur (nema þá til að deyja) þá finnst mér alltaf jafn gaman að ganga um þorpið því ég á ekkert nema góðar minningar þaðan. Fyrir þá sem halda að þetta verði harmræn frásögn af því hvernig ég kvaldist í þorparaþorpinu og náði ekki að blómstra fyrr en ég fór til Reykjavíkur þá verð ég tilkynna nú strax í byrjun, svo þessi lesandi geti hætt að lesa, að svo er ekki. Þetta

 

jonknutur