Ég var búinn að banna mér að skrifa meira um Austurgluggann á þessa síðu af þeirri ástæðu að það verður alltaf hægt að túlka það sem biturt raus – sérstaklega ef maður ætlar að vera gagnrýninn á það sem er gerast þar. Ég stenst hins vegar ekki mátið eftir að hafa lesið nýjasta tölublað Austurgluggans. Kannski þykir mér bara meira vænt um blaðið en ég hef hingað til látið uppi og mér er ekki sama hvernig farið er með það.
En örstuttan formála fyrst. Þegar ég byrjaði á Austurglugganum vorið 2003 settum við Helgi Seljan (stjörnu)blaðamaður þá reglu að birta aldrei hráar fréttatilkynningar frá stofnunum, einstaklingum og yfirvöldum. Auðvitað var ekki meiningin að henda þeim rakleitt í ruslið en til þess að þær fengju birtingu í blaðinu þá urðu fingraför blaðamanna að sjást skýrt og greinilega. Ég á ekki við að ætlunin hafi verið að falsa þær heldur bæta einhverju við þær eða finna einhvern annan flöt á málinu en nákvæmlega þann sem höfundur fréttatilkynningarinnar vildi að kæmi fram – eða eins og við sögðum stundum: Við ætluðum alltaf að hafa hagsmuni “litla mannsins” að leiðarljósi.
Þetta er auðvitað engin ný blaðamennska. Þetta er eingöngu sú hugmyndafræði sem stýrir eða á að stýra störfum blaðamanna sem vinna á frjálsum fjölmiðlum. Blaðamaðurinn á fyrst og síðast að gæta hagsmuna lesenda sinna en ekki fyrirtækja útí bæ.
Það þarf varla að taka fram að við stóðum okkur ekki meira en svona þokkalega vel í þessu. Alltof oft tókum við fréttatilkynningar (sérstaklega ef þær eru tengdust menningu eða íþróttum) og breyttum í mesta lagi fyrirsögnum og bættum kannski við millifyrirsögnum hér og þar. En engin rýni á innihaldið fór fram. Við höfðum hreinlega ekki tíma né nennu til að velta okkur upp úr því hvort einhverjar myndlistarsýningar á Austurlandi hefðu sérstaka þýðingu fyrir menningarlíf í fjórðungnum (Ég man reyndar að einu sinni skrifaði Helgi Seljan dóm um rokkveislu Brján þar sem tekin var fyrir ensk rokkmússík. Helgi gagnrýndi þar ýmislegt m.a. að efnistökin hefðu verið svo óljós að áhorfendur gátu ekki með nokkrum hætti skilið um hvað sjóvið snerist. Brjánmenn voru ekki hrifnir af skrifum Helga en eftir því sem ég best veit hafa allir Brjánmenn viðurkennt að þessi veisla var hallærisleg og blátt áfram leiðinleg).
En þó maður segi sjálfur frá þá reyndum við alltaf að fylla útsíður og fréttasíður með einhverju gúmmulaði sem við framleiddum sjálfir. Ef við nenntum ekki að finna einhvern nýjan vinkil á fréttatilkynningu þá var hún stytt og sett í eindálk.
Einhvern tímann áður en ég hætti, sennilega bara fyrir þremur vikum eða svo, þá renndi ég yfir Austurgluggann þau tvö ár sem ég var ritstjóri og það kom mér skemmtilega á óvart hvað okkur gekk í raun vel að gera þetta því með fullri virðingu fyrir Austurlandi þá gerist ekkert ofboðslega margt fréttnæmt þarna – sem betur fer eiginlega. Ég ætla ekki að eigna sjálfum mér nema brot af þessu því í þessi tvö ár var ég með stórkostlega blaðamenn sem voru ekki síður uppfinningamenn en blaðamenn. Ég segi uppfinningamenn af því að þeim tókst nánast í hverri viku að gera skemmtilegar fréttir úr litlu sem engu. Nefni sem dæmi frétt sem Helgi skrifaði um skógræktarstjórann á Austurlandi sem var ósáttur við feita kjetið í kaupfélaginu og svo er í sérstöku uppáhaldi hjá mér frétt sem Björgvin Valur skrifaði um flótta fallega og fræga fólksins úr Fjarðabyggð. Tilefnið var flutningur forstjóra Alcoa til Egilsstaða og þá vildi Glúmur Baldvinsson upplýsingafulltrúi frekar búa í þriðja heiminum heldur en í Fjarðabyggð. Svona uppslættir hafa kannski ekkert sérstakt fréttagildi en eru óneitanlega skemmtilegar sögur að austan.
En þá að Austurglugganum í dag. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvort blaðið sé skemmtilegt eða leiðinlegt enda er það smekksatriði. Að vísu fannst mér drepfyndið að því hafi verið slegið upp á forsíðu að hafnar væru tannréttingar á Egilsstöðum. Það að þetta sé forsíðufrétt vikunnar hlýtur að þýða að undanfarna áratugi hafi Héraðsmenn þurft að nærast í gegnum plaströr vegna lélegrar tannheilsu án þess að maður vissi neitt um það. En þetta er útúrsnúningur. Ég hef meiri áhyggjur af öðrum hlutum.
Það er greinilegt að nýju ritstjórnarkrúi er ætlað að hverfa eins langt frá stefnu þeirrar ritstjórnar sem ég tilheyrði og var í forsvari fyrir því hráar fréttatilkynningar fá veglegt pláss í blaðinu og það er engu líkara en að maður sé að lesa kynningarbækling um Austurland, útgefin af Markaðsstofunni og skrifaður af starfsmönnum Athygli.
Í besta falli eru blaðamennirnir bara latir og nenna ekki að hugsa sjálfstætt en í versta falli er þetta meðvituð stefna sem á að þjóna þeim tilgangi að laða að auglýsendur til blaðsins. Það var nefnilega stundum sagt við mig að við værum að fæla í burtu auglýsendur með okkar “neikvæðu” fréttastefnu en ég man að vísu aðeins eftir einu dæmi svona í svipinn þar sem einhver neitaði að auglýsa vegna ritstjórnarstefnu blaðsins. Kannski eru fleiri dæmi en þá man ég ekki eftir þeim. Og svona áður en ég gleymi. Það var Hekla sem neitaði að auglýsa hjá okkur.
En gefum okkur að nýja stefnan sé til þess ætluð að ná í auglýsendur sem er auðvitað svo mikil og þvæla að maður trúir því varla að menn sem taka sig alvarlega skuli hugsa svona. Í fyrsta lagi mun blaðið tapa lesendum því auðvitað nennir enginn að lesa tuttugu fréttatilkynningar í hverri viku. Það getur vel verið að sumum finnist blaðið ferskt núna eftir alla neikvæðnina í mér og vinum mínum undanfarin tvö ár en ég hef enga trú á því að fólk nenni að lesa auglýsingar í formi fréttatilkynninga í hverri viku . Og minni lestur þýðir auðvitað bara eitt: Færri auglýsendur.
Í öðru lagi ber enginn virðingu fyrir svona blaði. Ég er ekki að segja að Austurglugginn hafi verið að springa úr virðulegheitum í mínum meðförum en hvað sem hver segir þá tókum við virkan þátt í umræðunni fyrir austan bæði í fréttaskrifum og pistlaskrifum. Blað sem birtir bara hráar fréttatilkynningar á enga virðingu skilið. Það er bara það sem það er: Auglýsingabæklingur.
…
Þessi skrif eru farinn að hjóma grunsamlega lík einhvers konar uppgjöri sem var alls ekki ætlunin að færa í skrif en svona gerist þegar maður er á bókasafninu og nennir ekki að læra.
En kannski er líka allt í lagi að gera upp hlutina. Maður lagði sig allan fram í tvö ár um að gera blað sem menn gátu í raun og veru sagt að væri frjálst og óháð og svo koma einhverjir snillingar eins og Siggi Aðalsteins (sem er reyndar fínasti kall þó það sé tæplega hægt að taka hann alvarlega sem blaðamann) og eyðileggja það á einum mánuði.
Menn geta sagt að það hafi verið vinstri slagsíða á blaðinu en það var eingöngu vegna þess að blaðamennirnir mínir og ég erum annað hvort eða bæði anarkistar eða sósíalistar. Gagnrýnendur okkar gleymdu því hins vegar að þeim var frjálst að skrifa í blaðið líka og mikið hefði Austurglugginn orðið skemmtilegur ef menn eins og Hrafnkell A. Jónsson hefðu nennt að skrifa í blaðið og sleppt því að fara í fýlu af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.
Ný ritstjórn ætlar ekki að láta hanka sig á þessu og það er yfirlýst stefna nýja ritstjórans að hvorki hann né blaðamenn skrifi pistla í blaðið. Svona ætlar hann að tryggja sjálfstæði Austurgluggans sem er náttúrulega rugl. Blaðamenn komast einfaldlega ekki hjá því enda þurfa þeir að velja sér efni til að skrifa um í hverri viku. valið sjálft er gildishlaðið því ákveði ný ristjórn að fjalla um eitt efni en ekki um annað er þegar búið að mynda sér skoðun. En kannski ætlar nýi ristjórinn að koma sér undan þessu vandamáli með því að birta hráar fréttatilkynningar. Þá þarf hann ekki einu sinni að ritstýra blaðinu. Því verður bara stýrt af einhverju liði útí bæ.