Veiðisaga

i

Eftir bankahrunið ´08
keypti ég haglabyssu
ekki til að skjóta bankamenn
og þaðan af síður
sjálfan mig

ég ætlaði að gerast
veiðimaður
eins og forfeður mínir
og héðan í frá yrðu
teknir upp nýir siðir
í nýrri
og sjálfbærri veröld
án
peningamarkaðssjóða

ii

Ég var léleg gæsaskytta
og í þau fáu skipti
sem ég hæfði
skaut ég
af þessum greyjum
væng
annan fótinn
eða framan af goggi
og þurfti að elta þær uppi
limlestar
og snúa úr hálslið
með berum
blóðugum
höndum

og það brást ekki
að í hvert skipti
horfðumst við í augu
fórnarlambið og ég
og mér leið eins og
morðingja
en ekki veiðimanni

á þessu er munur
skilurðu það?

Gísli Marteinn

iii

Svo ég hætti þessu

bersýnilega
of mjúk
týpa

en hafði
gaman af gæsaflautunni
enda allur í mússíkinni
og þegar ég gekk
meðfram ánni
inn við Grænafell
spilaði ég hvern
flautukonsertinn
á fætur öðrum
og smám saman
tók ég eftir
að „tónlistin“ mín
hafði áhrif
og það er
skal ég segja þér
óuppfylltur draumur hjá
langflestum tónlistarmönnum

og einn daginn tókst mér
svo vel upp
að ég ruglaði flugtaktinn hjá
einni
svo hún
flaug beint á rafmagnsvír
og féll
vinaleg til augnanna
en þung eins og blý
steindauð

til jarðar

 

Heimsendi nálgast: 14 ráð

– Drekktu stundum staðið og vont kaffi í vinnunni þótt þér standi til boða það allra besta frá Nespresso. Lúxus gerir þig linan.

– Láttu það eiga sig að fara til augn- og/eða eyrnalækna. Smámunasemi borgar sig ekki. 

– Reyndu að ná persónulegu sambandi við laghentan sveitunga. Þeir munu pluma sig fínt á óbyggilegri jörðu.

– Hugsaðu stundum um verklegar framkvæmdir. Þær geta verið sniðugar er það ekki?

– Afþakkaðu nýja dúnsæng og notaðu þessa gömlu úr gerviefninu, þú veist, þessari sem lyktar annarlega og minnir eiginkonuna á lík.

– Slökktu á Rás 1 á þriðjudögum og fimmtudögum og stilltu á Útvarp Sögu. Heimur án siðmenningar er það sem koma skal. Get used to it. 

– Ekki þrífa bílinn þinn. Það þrífur enginn bílinn sinn eftir heimsenda. 

– Ekki losa þig við haglabyssuna sem þú keyptir eftir bankahrunið vegna þess að þú ætlaðir að stunda sjálfsþurftarbúskap í þessum nýja og bjarta peningamarkaðssjóðalausa heimi.

– Bækur fremur en sjónvarp.

– Hlustaðu á nýja plötu með Bubba til enda. 

– Gakktu á fjallstind í Kínaskóm.

– Hreyfðu þig! Þú gætir þurft að grafa þína eigin gröf.

– Ekki fleiri en þrjú blöð af salernispappír. Fimm í neyð.

– Haltu barnaafmæli.

 

Hugsað um og í Svíþjóð

IKEA
ABBA
Europe
ljóshært
hlutlaust
kjötbollur
fæðingarorlof
kæst Eystrasaltssíld
Stokkhólmsheilkenni
fyrirmyndarvelferðarríki
skemmtilegri en Norðmenn
og/eða Danir (á pari við Finna)
sænski kokkurinn (samt amerískur)
þægilegir og vandaðir bílar (Volvo)
vörubílar æsku minnar (Scania)
áreiðanlegar herþotur (SAAB)
Bróðir minn Ljónshjarta
„Jag ringer på fredag“
herðabreiðar konur
hávaxnir karlmenn
Pelle sigurvegari
Olof Palme
varsågod!
Stenmark
Astrid L.
Ingrid
tack

Bíð spenntur eftir því að komast á kaffihús með nýju óútfylltu vasabókina mína. Nú verður skrifað! Panta kaffi, finn mér borð, eftirvæntingin fjarar út í lok þriðju línu. Þvílík leiðindi og kaffið er volgt. Mér dettur ekkert í hug. Tek ekki eftir neinu áhugaverðu. Sennilega er ég þurrausinn. Hef ekkert meira að segja. 

Tack för mig. 

Í mig vantar dómhörkuna. Er í hlutlausu skapi í Svíþjóð og hugsanirnar elta lundina.

Hvernig væri nú að slaka bara aðeins á, ha? Kíkja í bók? Spjalla við konuna sína? Lifa og njóta? Hvur veit, kannski dettur þér eitthvað snjallræði í hug?   

Ég heimsæki kennslustofu og hitti sænskunemendur. Vinka þeim eins og bjáni og leik hressa Íslendinginn af talsverðri kunnáttusemi þótt ég segi sjálfur frá. 

Einn nemendanna er frá Kabúl. Hefur verið í landinu í átta mánuði með fjölskyldunni sinni og á í erfiðleikum með sænskuna. En hitt sé aftur verra, segir hann, að hann hafi gleymt þeirri litlu ensku sem hann kunni áður en hann kom. Það eru ýkjur og við spjöllum saman í tíu mínútur, eins og við séum á hraðstefnumóti. Hann var blaðamaður og kominn yfir alsæluna sem fylgdi því að sleppa lifandi frá heimalandinu. Í dag er hann atvinnulaus flóttamaður á sænskunámskeiði fyrir útlendinga. 

Ég veit ekki hvað ég á að segja. Langar hálft í hvoru til að knúsa hann en það væri óviðeigandi. Hvet hann til að skrifa dagbók, blogga, búa til hlaðvarp, bara eitthvað! Jafnóðum finnst mér ég hljóma svo sjálfumglaður og sé eftir því að hafa sagt nokkuð. Hefði átt að þegja og hlusta. Kannski spyrja hann út í börnin hans, svona eins og fullorðið fólk gerir. Og það er einmitt það sem ég geri og viti menn! Yfir hann færist bros því börnin eru glöð í Svíþjóð.      

Skrifa í vasabókina mína á leiðinni heim á hótel að líklega gleymi ég ekki þessu spjalli. Þessar tíu mínútur reyndust ansi drjúgar. 

Hvernig myndi ég pluma mig í Stokkhólmi?

Hvernig myndi ég pluma mig í Kabúl?

Heilræði fyrir nærri fimmtugan mann í japanskri tískuskyrtu

Borðir þú mikið af þurrkuðum ávöxtum er óumflýjanlegt að leysa talsvert af vindi. Sértu í neyð stattu þá nálægt börnum eða gamalmennum og láttu vaða. Sökum aldurs, kyns og klæðaburðar er ólíklegt að þú liggir undir grun.

 

Úr tímavélinni

Ég veit það
ástin mín

að tíminn hefur liðið
í fullum bleium
svefnlausum nóttum
og sjónvarpsseríum
á Netflix
sem við munum aldrei
geta rifjað upp
hvernig enduðu

hann hefur liðið
í biluðum kaffivélum
úrsérgengnum
jólaseríum
og í labbitúrum
um ófrágengna vegi
sem enda
eins og upp úr þurru
og minna okkur á
hugsanir
sem drekkt er
í fæðingu
þegar ungviðið hrópar

BÚÚÚÚIIIINNNNNNN…

skýrleiksaugnablikin
eru bæði fá og stutt
og við þurfum að
fanga þau
með blekpennum
og símamyndavélum

því þrátt fyrir allt
er hún svo alltumlykjandi
þessi tilfinning
um að dag einn
munum við líta til baka
og sjá
svo ekki verður um villst
að þetta var

gullöldin

 

Samviskubit

Þegar ég kem mér undan því
að skutla drukknum manni
á milli fjarða
um óttubil
er ég smeykur um
að næst muni ég frétta af honum
í hádegisfréttum RÚV

 

160822

Kvíðinn minn ii

Þegar frændi minn
sem hefur sjaldan samband
hringir í mig
seint á sunnudagskvöldi
verður mér hugsað til
svörtu jakkafatanna
inni í fataherbergi

ætli þau passi enn?

 

Morgunsár

Vakna við geltið frá hundi nágrannans
augun þurr
hlýt að hafa sofið með þau opin
legg hönd yfir andlitið

þetta er ég
það leynir sér ekki
ég hef ekki breyst í fisk
á meðan ég svaf

örlar á létti
eða ég held
að þetta sé léttir

þreifa á nefinu
og finn til
hlýtur að vera
inngróið nefhár
eða stíflaður fitukirtill

ég held
ég hljóti
að vera vaknaður

heyri geltið aftur
og núna hefur það færst nær

dreg frá svefnherbergisglugganum
en sé engan hund
bara nágrannann að reykja
í dyraskýlinu
finn ilminn af sígarettunni hans

en þegar ég heyri geltið
í þriðja sinn
kemur það innan úr svefnherberginu
og ég fer að velta fyrir mér
hvort nágranninn
eigi ekki örugglega hund

 

03082022

Sumarfríið
var sem myndskreytt
af Halldóri Péturssyni

þú veist
áhyggjufrítt
heilnæmt
og ilmaði af steiktum
hamborgurum

en svo bilaði þvottavélin

 

 

Andvaka

Steinhaldiði kjafti
sagði ég
í huganum
við þrastaparið
um klukkan hálf fjögur
í nótt

óafvitandi 
var það
að minna mig
ónytjunginn
á allt
það sem
ég ætlaði
að gera
í sumar

 

Á hinsta degi

Kjarnorkuvetur
hefur brostið á
og þrjátíu og fimm ára gömul
unglingamartröð
er orðin jafn raunveruleg
og frunsa
á óheppilegum stað

að morgni
okkar hinsta dags
austur á heimsenda
vaknaði ég
úfinn
staulaðist fram úr
svefndrukkinn
og passaði
að vekja ekki konuna mína
sem sefur lengur en ég
sökum aldursmunar

létti á mér
og strauk af mér
uppþornaðan sleftaum
við hægra munnvikið

var þvagið grunsamlegt á litinn?
var þetta nýr verkur
aftan við vinstra herðablaðið?

hellti upp á kaffi
og stakk upp í mig
döðlu
rétti úr mér
voðalega brakaði einkennilega
í hryggsúlunni
ætti ég kannski að fara til hnykkjara?

aldrei grunaði mig

á hinsta degi
með ískyggilega
ofbirtuna í augunum
yrðu áhyggjur mínar
svona ómerkilegar
lítilfjörlegar
en umfram allt

hversdagslegar