♠
IKEA
ABBA
Europe
ljóshært
hlutlaust
kjötbollur
fæðingarorlof
kæst Eystrasaltssíld
Stokkhólmsheilkenni
fyrirmyndarvelferðarríki
skemmtilegri en Norðmenn
og/eða Danir (á pari við Finna)
sænski kokkurinn (samt amerískur)
þægilegir og vandaðir bílar (Volvo)
vörubílar æsku minnar (Scania)
áreiðanlegar herþotur (SAAB)
Bróðir minn Ljónshjarta
„Jag ringer på fredag“
herðabreiðar konur
hávaxnir karlmenn
Pelle sigurvegari
Olof Palme
varsågod!
Stenmark
Astrid L.
Ingrid
tack
♣
Bíð spenntur eftir því að komast á kaffihús með nýju óútfylltu vasabókina mína. Nú verður skrifað! Panta kaffi, finn mér borð, eftirvæntingin fjarar út í lok þriðju línu. Þvílík leiðindi og kaffið er volgt. Mér dettur ekkert í hug. Tek ekki eftir neinu áhugaverðu. Sennilega er ég þurrausinn. Hef ekkert meira að segja.
Tack för mig.
Í mig vantar dómhörkuna. Er í hlutlausu skapi í Svíþjóð og hugsanirnar elta lundina.
Hvernig væri nú að slaka bara aðeins á, ha? Kíkja í bók? Spjalla við konuna sína? Lifa og njóta? Hvur veit, kannski dettur þér eitthvað snjallræði í hug?
♥
Ég heimsæki kennslustofu og hitti sænskunemendur. Vinka þeim eins og bjáni og leik hressa Íslendinginn af talsverðri kunnáttusemi þótt ég segi sjálfur frá.
Einn nemendanna er frá Kabúl. Hefur verið í landinu í átta mánuði með fjölskyldunni sinni og á í erfiðleikum með sænskuna. En hitt sé aftur verra, segir hann, að hann hafi gleymt þeirri litlu ensku sem hann kunni áður en hann kom. Það eru ýkjur og við spjöllum saman í tíu mínútur, eins og við séum á hraðstefnumóti. Hann var blaðamaður og kominn yfir alsæluna sem fylgdi því að sleppa lifandi frá heimalandinu. Í dag er hann atvinnulaus flóttamaður á sænskunámskeiði fyrir útlendinga.
Ég veit ekki hvað ég á að segja. Langar hálft í hvoru til að knúsa hann en það væri óviðeigandi. Hvet hann til að skrifa dagbók, blogga, búa til hlaðvarp, bara eitthvað! Jafnóðum finnst mér ég hljóma svo sjálfumglaður og sé eftir því að hafa sagt nokkuð. Hefði átt að þegja og hlusta. Kannski spyrja hann út í börnin hans, svona eins og fullorðið fólk gerir. Og það er einmitt það sem ég geri og viti menn! Yfir hann færist bros því börnin eru glöð í Svíþjóð.
Skrifa í vasabókina mína á leiðinni heim á hótel að líklega gleymi ég ekki þessu spjalli. Þessar tíu mínútur reyndust ansi drjúgar.
Hvernig myndi ég pluma mig í Stokkhólmi?
Hvernig myndi ég pluma mig í Kabúl?
♦
Heilræði fyrir nærri fimmtugan mann í japanskri tískuskyrtu
Borðir þú mikið af þurrkuðum ávöxtum er óumflýjanlegt að leysa talsvert af vindi. Sértu í neyð stattu þá nálægt börnum eða gamalmennum og láttu vaða. Sökum aldurs, kyns og klæðaburðar er ólíklegt að þú liggir undir grun.