…
Hlusta á nýju plötuna með U2. Það er orðin lenska hjá þeim sem skrifa um tónlist að tala illa um nýjustu U2 plötuna. Þetta byrjaði einhvern tímann uppúr 2000 og svekkelsið virðist bara færast í aukana. Þeir fara bara óstjórnlega í taugarnar á ðe hipsteratí og þetta er löngu hætt að snúast um tónlist. Þetta snýst um sólgleraugun hans Bónó.
Enívei. Mér er sússum slétt sama. Ég hef verið aðdáandi í tuttugu og fimm ár og fylgist alltaf með þeim. Hér eru mín tvö sent um þessa plötu:
Hún er talsvert skárri en síðasta plata en það þurfti reyndar ekki mikið til. Hún er sennilega andlega skyldust All That You Can’t Leave Behind frá 2000. Svona “back to basics” nema hvað skilningur U2 á þessu concepti er margfalt dýrari og raffíneraðri en skilningur t.a.m. AC/DC. “Back to basics” hjá U2 þýðir að þeir ráða alla trendí pródúsera bransans og gera hi-fi plötu dauðans sem líkist October og/eða War akkúrat ekki neitt.
Ég er orðinn soldið mikið leiður á öllu þessu “nanana” og “jejeje” og “hóhó” sem einkenna
…
Ég tók meðvitaða ákvörðun síðasta vetur að verða mér úti um veiðikort og skotvopnaleyfi. Ég hef aldrei haft neina byssudellu ef frá er talin leikfangabyssudella þegar ég var tíu ára en ólíkt mörgum sveitungum og jafnöldrum var þetta ekki eitthvað sem ég sóttist í. Ég fór í mússíkina og einhverra hluta vegna var lítil skörun á milli þeirra vinahópa sem grúbbuðu sig saman á hljómsveitaræfingum í Tónabæ og Steininum og þeirra sem fóru til fjalla og heiða á haustin á gæsaveiði eða hreindýraveiði nú eða rjúpnaveiði.
Í hljómsveitarliðinu voru soddan pasifistar að bara hugmyndin um að skjóta úr byssu var hreint og beint fjarstæðukennd. Til hvers að skjóta gæs þegar maður getur keypt aligæs í kaupfélaginu? Fyrir utan þorsk, ýsu og einstaka svartfugl var aldrei borðuð villibráð heima hjá mér. Mér hefur verið sagt að pabbi hafi nokkrum sinnum farið á gæs en hætt því eftir nokkur skipti. Honum fannst hún svo falleg til augnanna og gat ekki drepið hana. Mamma hafði þetta einhvern tímann eftir honum og ég hef enga trú á öðru en að þetta sé satt.
Pabbi, eins og mörg önnur börn sjávarþorpanna, gat drepið fisk án teljandi áhrifa á hjartsláttinn en að drepa skepnur sem draga andann ofansjávar reyndist honum miklu erfiðara.
Og auðvitað sjá allir að þetta er hræsni. Auðvitað er hræsni að finnast það hallærislegt þegar menn stilla sér upp við hliðina á skotnum tarfi eða fyrir aftan hrúgu af dauðum fugli en finnast það svo aftur á móti fullkomlega eðlilegt að láta taka mynd af sér með spriklandi þorsk á færinu.
Nú er er örugglega rétti tíminn til að flippa út og hjóla í sjómanninn pabba og ásak
Stritið mitt
Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus athöfn.
Já, eða það sem mig langaði til að skrifa en gerði ekki:
Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn.
Lokatilraun:
Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn að því gefnu að það sé löglegt að kaupa hljómplötur og bækur.
Svona. Þetta er það sem ég meinti.
Sæl öll.
Ég heiti Jón Knútur og ég er plötu- og bókafíkill.
…
Ég vil ekki gera lítið úr fólki sem glímir við alvarlega vímuefnafíkn. Fólk sem er líkamlega háð því að fá inn í æðakerfið einhver efni svo það fúnkeri. Svo það geti tekist á við daglegt líf, mætt í vinnu, keypt í matinn, sett í vél, borgað reikninga, pantað tíma fyrir börnin hjá lækninum og/eða í klippingu og/eða pítsu. Hvað sem er. Sinnt þriðju vaktinni og/eða bara boðið kunnuglegu andliti góðan dag í búðinni.
Ég fúnkera þótt ég sleppi því að kaupa bækur og hljómplötur. Ég get alveg farið inn í plötubúð án þess að kaupa nokkuð. Það geta liðið vikur á milli þess sem ég kaupi hljómplötu. Jájá, það geta liðið vikur.
En. Þá er ég bara þeim mun duglegri að kaupa bækur og þótt hér á Reyðarfirði, þar sem ég bý, séu hvorki plötu- né bókabúðir hefur netverslun gert þetta auðvelt. Hófleg löngun s.s. ekki sú sem lýsir sér með vægum handskjálfta eða svitadropa á nefbroddi getur endað með „frágangi pöntunar“ svo ég orði þetta kalt og hlutlaust eins og langskólagenginn sálkönnuður.
Oft gengur þetta svona fyrir sig:
Ég hlusta kannski á skemmtilegt hlaðvarp um tónlist. Segjum bara að ég sé að hlusta á viðtal við höfund bókar um tengsl rokktónlistar og stjórnmála í Englandi um miðjan tíunda áratuginn. Fáránlega áhugavert viðfangsefni hafi maður yfirleitt áhuga á stjórnmálum og tónlist. Tek upp símann, opna Amazon og finn bókina strax. Framan á henni er teiknuð, eða eins og stensluð, mynd af Tony Blair og Noel Gallagher (hann heldur á fræga Epiphone-gítarnum, þessum í fánalitunum).
Hugsanastraumnum mætti lýsa einhvern veginn svona:
Sniðugt. Kúl kóver. Ó, hún er á tilboði. Kostar ekki nema tvö þúsund og fimm hundruð krónur hingað kominn með aðflutningsgjöldum og öllu. Já, ókei og hún er tæpar sex hundruð síður. Látum okkur sjá, það eru ekki nema fjórar krónur per blaðsíða…jahá, ekki slæmt.
Ég ímynda mér sjálfan mig með bókina: Sit í þeim „gráa“ í setustofunni. Klukkan sex að morgni og enginn á fótum nema ég. Og kannski hundurinn. Allavega eru börnin sofandi. Enginn að biðja mig um neitt. Ég kveiki á kerti. Ilmkerti. Birkiilmur. Skiptir kannski ekki máli. Og ég er með tvöfaldan espresso í handgerðum bolla frá Esther & Ceramics. Ég er í Star Wars-náttbuxunum mínum og í handgerðri lopapeysu. Hún stingur ekki (merino-ull). Það er svo notalegt. Inniskórnir eru frá Oofos og að ganga á þeim er eins og að ganga berfættur á strönd við Miðjarðarhaf. Sérhannaðir á tilraunastofu, örugglega í Hollandi eða Japan eða á „svæði 51“, fyrir fólk með iljarfellsbólgu, hælspora og tábergssig. Ekkert af þessu hrjáir mig en samt nota ég svarta inniskó frá Oofos. Drep býflugur með kjarnorkusprengjum.
Ég er semsagt að máta mig við bókina.
Þetta tekur nokkrar sekúndur, ef svo lengi, og svo er ég með, sem fyrr segir, stærstu bóka- og plötubúð í heimi í vasanum.
Þetta er ekkert flókið. Það var viðtalið við höfundinn sem kveikti löngunina og restin er síðan bara eitthvað réttlætingarþvaður þar sem ég læt hlutina ganga upp þannig að niðurstaðan verði sú að ég kaupi bókina. Að kaupa þessa tilteknu bók er það eina skynsamlega í stöðunni. Svona bók verður í sjálfu sér ekki metin til fjár, sjáiði til. Hún mun gera mig gáfaðri og fylla líf mitt gleði og innihaldi. Með henni mun ég eiga ótal „gæðastundir“ og þá tel ég ekki einu sinni með skiptin sem ég mun nýta mér efni hennar sem hráefni í stöðuuppfærslur sem ég skrifa inn í hópa á samfélagsmiðlum þar sem allir meðlimirnir eru svipaðar týpur og ég. Tómleikakenndir miðaldra karlmenn sem vantar smá viðbragð frá umhverfinu. Smá athygli. Smá ást. Hei, hvað eru nokkur læk á milli vina? Geri mig breiðan, tek mér pláss. Held einhverju fram sem gæti virkað stuðandi. Hristi upp í hlutunum. Kem af stað fárviðri. Ég er „enfant terrible“ CD-vaktarinnar á Facebook.
Þetta gerist allt mjög hratt og áður en ég veit af hef ég fengið póstinn um að pöntunin sé móttekin.
Og þá kemur samviskubitið.
Það kemur alltaf. Eins og glymur dyrabjöllunnar þegar maður er einn heima og hefur komið sér þægilega fyrir í „gráa“ með „prentsmiðjuilmandi-nýja“ bók.
Ég hef nefnilega aldrei keypt plötu eða bók án samviskubits. Mögulega er það samt partur af ánægjunni. Veit það ekki. Er ekki viss en það er ekki útilokað. Þessi tengsl vellíðunnar og sársauka eru eitthvað svo spes og dularfull. Stundum leiðir samviskubitið til þess að ég afpanta bækur eða plötur en það gerist sjaldnast. Mér finnst það eiginlega bara pathetic og ég sé fyrir mér starfsmenn Amazon hlæjandi við flæðilínuna í vöruskemmunni, að þessum gaur á Íslandi sem ræður ekki við sig. Að þessum stjórnlausa náunga sem býr örugglega enn heima hjá mömmu og pabba, á stað sem finnst ekkert endilega á landakorti.
Nei, ég tek frekar afleiðingunum. Beiti mig hörku. Mæti lúpulegur á pósthúsið og sæki helvítis pakkann. Ber mig á allan hátt eins og hamingjusamlega giftur fjölskyldumaður í smábæ (sem ég er), þar sem allir þekkja alla, að sækja kynlífsdúkku. Uppblásna – náttúrulega – og þeir hafa ekki haft fyrir því að pakka henni inn í svart plast. Geng með hana heim undir hendinni eins og ég sé á sviði í félagsheimili úti á landi að leika í lélegum þorrablótsannál. Ó, þvílík skömm!
Reyndar hafa póstboxin gert þetta aðeins skárra. Fæ sms en ekki prentaðan miða heim í póstkassa um að það bíði mín pakki frá útlöndum sem Esther réttir mér og segir sposk:
„Úúú…hvað var verið að panta? Bók handa mér?“
Enginn þekkir mig betur en Esther. Hún veit um öll mín leyndarmál og þekkir öll mín vandamál. Hún veit að ég ræð ekki við mig en vegna þess að ég sit ekki undir brúnni niðrí bæ og sprauta mig, sem getur verið pínu sexí – smá rokk og ról – er mín fíkn bara, í besta falli, „krúttleg“ og „asexual“. Hljómplötu- og bókafíkn gerir mig ekki á neinn hátt áhugaverðan eins og ég ímynda mér að morfínfíkn gæti gert. Ég meina, hvað væri William Burroughs án sprautunnar? Bara fínn rithöfundur vissulega en vitum öll að það er ekki nóg!
Þannig að þetta er fyndið og við hlæjum saman að þessu þótt hún hafi nokkrum sinnum spurt mig, þreytulega því það er enn langt til mánaðarmóta og við erum kannski eilítið blönk, hvenær nóg sé nóg.
Hvað þarf ég eiginlega margar plötur með Bob Dylan? Þarf ég að eiga allan eighties-katalógginn þegar við vitum öll að Oh Mercy er nóg? (og kannski hin vanmetna Infidels frá ’84). Eru standardaplöturnar með honum frá síðustu árum skyldueign? Er sjálfgefið að þær verði með tíð og tíma mínar uppáhalds plötur með Dylan þótt mér þyki þær svolítið undarlegar í dag? Myndi ég skrifa eins og alvöru rithöfundur læsi ég My Struggle-seríuna eftir Knausgård? (þrjú þúsund og sex hundruð blaðsíður á sirka tíu þúsund og sex hundruð krónur hingað komnar gera hverja blaðsíðu sirka þriggja krónu virði. Ekki slæmt).
En þetta er nú mergur málsins. Nóg er aldrei nóg. Þú ert aldrei búinn að kaupa síðustu hljómplötuna eða síðustu bókina. Þú ert aldrei búinn að ganga frá pöntuninni sem endar allar pantanir. Lokapöntunin er ekki til. Ekki frekar en marbendlar. Þetta þarftu að skilja ef þú vilt ná bata og jafnvel þótt þú skiljir þetta er ekki sjálfgefið að það hafi neitt að segja. The struggle is real.
Nema náttúrulega í þeim skilningi að tæknilega séð er pöntunin sem ég bið hjúkrunarfræðinginn á líknardeildinni að ganga frá fyrir mig, þegar að því kemur, hin eiginlega lokapöntun. Í vissum og vitaskuld mjög ákveðnum skilningi hlakka ég til. Því þá læt ég loksins verða að því að panta Bukowski eins og hann leggur sig. Ljóðabækurnar líka.
Hvort ég verði enn lifandi þegar pakkinn kemur austur á firði er aukaatriði. Og það þarf varla að taka fram að það er líka mergur málsins.
Ef væri ég söngvari
Ég er nýkominn úr göngutúr með hvolpinn. Ætlaði með hann út í „Haga“ sem mér skilst að sé heitið á svæðinu þar sem vinnubúðirnar voru reistar þegar verksmiðjan var byggð upp úr aldamótum. Ég er ekki heimamaður og kann ekki svona lókal örnefni nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég veit að fjallið í stofuglugganum heitir Hádegisfjall. Flest annað er á reiki.
Þegar ég segi Esther að ég sé að fara út með hundinn veit hún hvert ég fer. Því ég fer næstum því alltaf sama hringinn. Ég er vanafastur, bind allt sem ég get í rútínur, borða alltaf sama morgunmatinn (hafragraut með rúsínum), skrifa á sama tíma (frá sex til sjö). Ég geri þetta til að spara tíma. Ég veit hvað stendur til, þarf ekki að velta vöngum. Þetta fækkar valkostum og vinnur gegn streitu.
Ég legg bílnum nálægt Norðfjarðarvegi, í „túnfæti“ vinnubúðanna og geng úteftir veginum, sem er s.s. gamli Norðfjarðarvegurinn, þar til ég kem að öðrum vegi, sem liggur upp í fjallið, og ég reikna með að hann hafi verið lagður þegar rafmagnsmöstrin voru reist á sínum tíma. Þessir vegir, sem ég kalla „línuvegi“, finnst mér eins og liggi út um allt og ég hef ekki enn gengið þá alla til enda þótt ég hafi búið hér í að verða fimmtán ár.
Hnota er annar hundurinn í minni eigu sem fær að kynnast þessu umhverfi. Stígakerfinu í fjallinu. Ég er oftast með hana lausa því það er ágætis útsýni yfir veginn, svona oftast allavega, og sjaldan sem einhver kemur manni á óvart. Það gerist eiginlega bara þegar ég tek með mér hljóðeinangrandi heddfóna og er týndur í tónlist eða hlaðvarpsþáttum sem fjalla oft um tónlist. (Ég hlusta orðið meira á umfjöllun um tónlist en á tónlistina sjálfa. Sem er svolítið galið er það ekki?)
En mér finnst notalegt að hlusta á fólk tala. Finnst eins og ég sé ekki einn. Eins og að einhverjir málgefnir kunningjar séu með í för.
Þetta hlýtur að vera aldurinn.
…
Í gærmorgun var ég að hlusta á tónlist. Ég hafði fundið lagalista sem unnin var upp úr skáldsögunni The Shards eftir Bret Easton Ellis. Ég kláraði bókina í fyrrakvöld, sem var sex hundruð síður og lengsta skáldsaga sem ég hef lesið í nokkur ár. Ég er bara eins og þið: Búinn að skaða í mér heilabúið með samfélagsmiðlanotkun og á erfitt með að halda athygli ef málsgrein er lengri en hundrað orð.
Mér finnst þetta skelfileg þróun. Á mér. Á okkur öllum. Og ég held að þetta sé alvarlegt. Ég held í alvörunni að þetta sé alvarlegt. Ég held að þetta útskýri uppgang öfgaskoðana til hægri og vinstri og ég held að þetta dragi athyglina frá málum sem eru í raun og veru að ógna tilvist okkar.
Samfélagsmiðlanotkun er að drepa okkur. We are amusing ourselves to death.
Svona get ég haldið áfram að þenja mig í samtali við engan, einn með hvolpinn uppi í fjalli. Ég þarf stundum klukkustund til að ganga úr mér pirringinn út í „stöðuna“ en stundum er þetta persónulegra: Einhver sagði eitthvað við mig og í þessum dagdraumum segi ég það sem átti að segja. Les yfir honum. Læt hann heyra það.
Velti fyrir mér núna hvort þetta sjáist á mér ef einhver fylgdist með þessum göngumanni úr fjarska með kíki. Hreyfast varirnar? Hnyklar hann brýrnar? Er hann með fingurinn á lofti þegar mest liggur við?
…
Ég þramma svona hugsanir úr mér og svo umbreytast þær í eitthvað annað. Verða, í vissum skilningi, léttvægari. Ómeðvitaðar og stundum skrýtnar. Í þessum fasa fæðast stundum ljóð, Facebook-statusar, uppskriftir að súpum og lausnir á öðrum hversdagslegum vandamálum.
Ég var t.d. að hlusta á Vienna með Ultravox í gærmorgun, sem er fyrsta lagið á þessum lagalista úr The Shards. Bókin gerist árið 1981 og ekkert er meira „1981“ en Vienna með Ultravox. Ég hafði tekið heddfóninn af öðru eyranu svo ég gæti heyrt mig syngja með og ég var að velta fyrir mér hvort raddir okkar Midge Ure, söngvara og helsta lagahöfundar Ultravox, væru á svipuðu raddsviði þ.e. gæti ég sungið þetta lag, t.d. í karaoke á bar einhvers staðar á Spáni, með sannfærandi hætti, án þess að hljóma mjög falskt? Ég er nefnilega með mjög takmarkaða söngrödd og það truflar mig aðeins. Kann ekki alveg að útskýra það en ég skal reyna:
Ég spila í hljómsveit og stundum heyri ég hvernig hægt væri að radda með söngvaranum en ég get ekki framkvæmt það. Og það er soldið glatað!
Og svo langaði mig að syngja fyrir Iðunni og Elías þegar þau voru lítil. Ég vildi að þau fengju „tónlistarlegt“ uppeldi og keypti bók sem hét Sönglögin okkar í bókabúð á Akureyri rétt áður en Iðunn fæddist. Ég keypti líka tvær uppeldisbækur. Handbækur fyrir verðandi foreldra. Ég ætlaði að lesa mig í gegnum uppeldið.
Aftan á þessari tilteknu bók stóð: Skemmtileg lög sem allir Íslendingar þekkja og ekki síst börnin. Bókin geymir undirspil, texta og fallegar myndskreytingar. Kynslóðirnar geta skemmt sér saman með þessari bók við að syngja lög eins og Ég er kominn heim, Ryksugulagið, Danska lagið, Sagan af Gutta og miklu fleiri. Veljið lag, ýtið á takkann, hlustið, lesið og syngið með!
Það var aldrei sungið fyrir mig sem barn og ég veit meira um breskt post-punk í kringum ’80 en ég veit um íslensk dægurlög og vísur. Sum lögin voru mér því fullkomlega framandi og ég þurfti að finna þau á Spotify, spila þau með bókina við höndina og lesa textann með. Ég þurfti að kynnast þessum menningararfi minnar eigin þjóðar og „gera þau að mínum,“ eins og dómararnir í Idol segja.
Til að gera langa sögu stutta: Þetta tímabil entist stutt. Ég söng fyrir börnin í fáein skipti og svo hætti ég því. Þetta bara virkaði ekki. Þetta var eins og að spila eitthvað lag á dansleik sem við í bandinu vorum búnir að ákveða að virkaði en virkaði svo alls ekki. Það dansaði enginn. Það fóru allir út að reykja.
Ég held að vandinn hafi verið sá að tóntegundin hentaði mér ekki. Hver veit, kannski var hún ætluð mömmum en ekki pöbbum? Ég bara veit það ekki. Krökkunum fannst allavega ekki notalegt að hlusta á mig syngja. Mér fannst það ekki heldur. Mér fannst eiginlega mjög óþægilegt að hlusta á sjálfan mig því ég réð ekki við röddina mína, hafði ekki stjórn á henni og hún brotnaði við minnstu hreyfingu laglínunnar, hvort sem hún fór upp eða niður. Ég hitti bara ekki á réttar nótur!
Þetta var samt ekki beinlínis vandræðalegt. Börnin voru bara börn og báðu mig um að hætta þessu. Ég hafði engar þannig hugmyndir um sjálfan mig að ég gæti sungið, að ég væri söngvari, svo ég hætti bara. Þetta snerist eingöngu um góðan vilja og ég móðgaðist ekki. Ég vildi bara syngja fyrir börnin; ef væri ég söngvari syngi ég ljóð // um sólina vorið og land mitt og þjóð…
En ég gat það ekki og þess vegna hætti ég. Krakkarnir vildu miklu frekar heyra mig lesa og ég held að röddin mín henti betur til upplesturs. Já, ég held, ykkur að segja, að ég sé með ógeðslega góða útvarpsrödd. Þótt ég segi sjálfur frá. Gæti örugglega gert góða hluti sem starfsmaður hjá Storytel.
…
Ég hef fengið sömu martröðina oftar en einu sinni: Ég stend á sviði með míkrafón í hendi og fólkið í salnum, sem ég sé ekki því ég stend í björtu og blindandi sviðsljósi, bíður eftir því að ég byrji að syngja.
Og svo byrja ég:
We all came out to Montreux
On the Lake Geneva shoreline
To make records with a mobile
We didn’t have much time
But Frank Zappa and the Mothers…o.s.frv.
Þetta er, ef þið eruð ekki búinn að átta ykkur á því, Smoke on the Water með Deep Purple. Útjaskaðasta rokklag sögunnar og einn mesti rokkbarki síðustu aldar syngur það í upprunalegri útgáfu frá árinu 1972. Hann er „hetjubarki“, svokallaður, eins og Robert Plant í Led Zeppelin. Gersamlega með ‘etta, getur sungið allt og var náttúrulega „sexy as fuck“ í gamla daga.
En eins og ég er búinn að lýsa þá get ég ekki sungið Gamla Nóa án þess að fara út af sporinu. Og á meðan ég man: Ég syng ekki bara falskt heldur man ég sjaldan söngtexta. Þannig að þessar matraðir reyna mjög á mig, ég svitna og mér líður eins og ég sé búinn að pissa á mig þegar ég vakna. Sem er auðvitað ekki góð tilfinning fyrir fullorðinn mann. Ég hef vaknað hljóðandi upp úr svona draumum og vakið Esther en man síðan ekki hvort ég er að syngja þegar ég vakna eða hvort þetta eru einhvers konar hræðsluviðbrögð. Að ég sé lagður á flótta. (Og ætli ballgestir séu þá að elta mig?)
Mig dreymir ekki oft og þá sjaldnar að ég fái martraðir. Í þau fáu skipti sem það gerist tengist það iðulega álagi. Það er mikið að gera í vinnunni, verkefnin ekki á mínu hæfileikasviði, yfirmaðurinn ósanngjarn, vinnufélagarnir gagnslausir. Það er enginn er að standa sig. Nema ég náttúrulega. Ég þarf að gera allt sjálfur.
Og þá held ég að undirmeðvitundin komi mér fyrir á sviði í félagsheimili fyrir vestan með míkrafón. Gítarleikarinn byrjar á riffinu sem við þekkjum öll, fólkið byrjar (náttúrulega) að klappa á einum og þremur og við bíðum öll eftir söngvaranum: We all came out to Montreux…
Svona nær hún mér – undirmeðvitundin – niður á jörðina, gerir mig auðmjúkan, og ég mæti bljúgur í vinnuna þann daginn. Þakklátur vinnufélögunum. Og yfirmaðurinn? Hann er sá besti sem ég hef haft nokkurn tímann.
…
Kannski er ég, eins og sumir trommarar, með dulda ósk um að vera frekar söngvari. Ég las þetta í viðtali við Bono í U2 einhvern tímann. Hann var að tala um trommarann, Larry Mullen Jnr. Sagði hann vera með „söngvarakomplex“. Einhver sem vildi hafa stærra hlutverk en honum var ætlað.
Kannski er ég bara eins og Larry?
Kannski er ég með dulda þrá um meira sviðsljós, meiri athygli. Ég vil meira pláss. Ég vil vera númer. Ég vil vera alfa. Ég vil greina ljóðin mín með Agli Helgasyni í Kiljunni.
(Mér finnst óþægilegt að skrifa þetta. Þetta rímar ekki við sjálfsmyndina um að ég sé hógvær og feiminn. Vel uppalinn og hlýðinn.
Ég hitna í andlitinu og finn að það rennur svitadropi niður bakið á mér. Það er harður púls við gagnaugun og mér finnst eins og ég sé að fá hjartaáfall. Ég trúi þessu ekki. Burt með þessa hugsun!
Burt!)
…
Á þessu augnabliki sé ég að Hnota er að róta í lúpínubeði. Ég er með Vienna á háum styrk, örugglega búinn að spila það fimm sinnum í röð og hef nokkurn veginn náð viðlaginu (að ég held). Lagið er að klárast sem það gerir með dramatískum, eiginlega hádramatískum, hætti. Alvöru Wagner-ískt crescendo eins og menn kunnu að gera í nýrómatíkinni árið 1981 þegar tónlist var ennþá dínamísk.
Svo sé ég það sem ég óttast: Hnota er með þrastarunga í kjaftinum.
Heyri mig öskra. (This means nothing to me! This means nothing to me!) Heyri mig skipa henni að sleppa honum sem hún gerir ekki. Hún er labrador, veiðihundur, og hún skilur ekki hvers vegna hún má ekki gera það sem henni var ætlað að gera. Að fanga fugla. Ég öskra aftur (This means nothing to me!) og reyni að ná unganum úr kjaftinum á henni en hún sleppir ekki. Hún skilur ekkert. Er hikandi og hissa. Veit ekki hvers vegna eigandi hennar er með þessi læti út af einhverjum smáfugli. Hörfar en loksins opnar hún kjaftinn nægilega mikið svo fuglinn dettur á jörðina, helsærður, annar fóturinn eftir í munnviki hennar. Situr þar eins og illa vafin sígaretta.
Unginn reisir sig við, situr „á rassinum“ í mölinni, báðir vængir útbreiddir og óeðlilega beinir. Sennilega báðir brotnir. Hann teygir höfuðið í átt að himni í síðasta skipti og opnar gogginn, titrandi. Heldur honum opnum. Eins og söngvari. Eins og hann sé að syngja lokatóninn í Vienna með Ultravox. (This means nothing to me!) Þessu ótrúlega popplagi sem endar þarna uppi í fjalli á sama tíma og líf þessa þrastarunga. Um mitt sumar. Austur á Reyðarfirði.
Kominn í leitirnar
Ég er andlaus. Fæ ekki hugmyndir, að minnsta kosti ekki góðar, og þegar mér finnst ég vera fá flugu í höfuðið fyllist ég eftirvæntingu sem fjarar út á sama augnabliki og ég opna tölvuna. Ég loka henni aftur og opna Facebook og skrolla þar til ég hef náð tilætluðu sjálfshatri. Þá legg ég símann frá mér og stelst í nammiskápinn.
En hugmyndin sem ég hafði fengið var hvorteðer of afhjúpandi. Nothing to write home about. Sem hluti af fjölskyldu, sem hluti af smábæjarsamfélagi, getur verið snúið að átta sig hversu langt maður getur gengið. Jafnvel gagnvart sjálfum sér. Því gangi maður of nærri sjálfum sér er hætt við að maður særi börnin. Ef ekki núna þá í framtíðinni þegar ég verð dauður og börnin hafa komist að því að faðir þeirra bloggaði langt fram á fullorðinsár og lét allt flakka.
…
Ég læt þetta blogg að mestu í friði en ég gríp stundum í það þegar ég er eitthvað „lost“. Það er dagbókarára bloggsíðunnar sem skýrir þetta. Þú segir henni sannleikann. Innan skynsemismarka því þessum „sannleika“ er deilt með öðrum.
Ég hef oftast ekki tíma til að skrifa langa texta. Eða ég tel mér trú um það. Sannleikurinn sennilega sá að ég nenni því ekki. Við erum í sumarfríi og lífið snýst um börnin. Og hvolpinn sem er stjórnlaust grey og engu tauti við hann komið en náttúrulega svo mikið krútt að maður fyrirgefur honum allt.
Í fyrradag gengum við t.d. í Stapavík og Hnota, viðþolslaus af hungri, slapp frá okkur (hún var laus) á leiðinni til baka og stal samloku af göngufólki sem var að nesta sig í einni víkinni í fullkomnu austfirsku logni.
Fólkið tók þessu vel. Eða eins vel og hægt er að taka því þegar stjórnlaus hundur hoppar á mann og rænir bæði sálarfriði og samlokum. Okkur var sagt að „þjálfa hundinn betur“ og við reyndum ekki að afsaka hann. Sögðumst ætla að passa þetta næst. Prísuðum okkur sæl að hafa bara fengið smotterís umvandanir en ekki hótanir um kæru eða eitthvað álíka sem hefði verið svo dæmigert á þessum tímum dómhörku og opinberrar smánunar.
Við virðumst nefnilega öll vera að breytast í Ameríkana. Öll með lögfræðing á okkar snærum. Öll með þerapista. Verði manni á má alltaf reikna með kæru. Að minnsta kosti smánun á Facebook. Algert lágmark.
Eftir á að hyggja er ég viss um að það hafði úrslitaáhrif að við þekktum fólkið lítillega. Rétt tæplega málkunnug. Næ augnkontakti við manninn þegar ég hitti hann í Bónus og við kinkum báðir kolli. Og það breytir öllu.
Það er, minn kæri lesandi, lykillinn að heimsfriðnum.
…
En það má alltaf læra eitthvað af svona uppákomum. Ég náði samlokunni af Hnotu, hálfétinni, og hún var með pestóskinku og sætu sinnepi. Kombó sem virkar vel en ég man aldrei eftir því að nota þessi álegg þótt oftast séu þau til í ísskápnum okkar. Sjálfur hefði ég mögulega bætt við hráum lauk og kannski súrum gúrkum. Já, og notað heimabakað súrdeigsbrauð en ekki samlokubrauð úr búðinni.
Og svo náttúrulega að hafa hundinn í bandi. Það mætti læra það líka.
…
Þegar ég er „lost“ eins og ég er þessar vikurnar á ég ekki við að ég sé þunglyndur. Mér líður vel. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur á ævinni og ég hef verið síðustu árin. Ég er ástfanginn af konunni minni og börnunum. Og ég er að verða fimmtugur. Pínu útjaskaður. Og það hefur sína kosti.
Þegar ég segist vera „lost“ er ég eingöngu að hugsa um þessa „skapandi hlið“ á sjálfum mér sem ég reyni að viðhalda þrátt fyrir áreiti og tímaleysi.
Áreitið kemur úr öllum áttum en það er alveg með ólíkindum hvað maður getur orðið stressaður í jafn litlum bæ og Reyðarfirði „þar sem ekkert gerist mörg þúsund sinnum á dag.“ Ég er á miðjum aldri (rúmlega), í vinnu og með fjölskyldu. Fólk treystir á mig og ég þarf að vera til staðar. Ég skipti máli. Í augnablikinu allavega. Ég hef talið mér trú um þetta. Og þetta getur verið „þjakandi“ og stundum dagdreymi ég um að börnin séu flutt að heiman og hundurinn orðinn að ösku. Að ég hafi allan tímann í heiminum til að lesa, skrifa og pæla. Ferðast með Esther og koma henni til að hlæja.
Ég er full meðvitaður um það að telja sig hafa „skapandi hlið“ er þerapíu- og sjálfshjálparbókarhjal, soldið mikið „Sirrý“ eða „Halla Tóm“ eða „Bono“, og að krefjast þess að fá næði og frið til að uppfylla þessar „þarfir“ er bæði frekt og sjálfmiðað. Það vill bara svo til að þetta eru lýsingarorð sem bæði eiga ágætlega við um mig.
Því ég get ekki afneitað þessu eðli mínu. Ég þarf að búa eitthvað til. Eitthvað sem kemur frá hjartanu. Eitthvað heiðarlegt. Eitthvað sem enginn borgar mér fyrir að gera. Stundum eitthvað svona, hvað sem má kalla þetta.
Blogg?
Autofiction?
(Rólegur kúreki, þú ert enginn Knausgård)
Ég hef samt val. Skulum hafa það alveg á hreinu. Ég þarf ekkert að sitja hér og skrifa.
Ég get líka alveg gengið niðrí fjöru.
Og svo áfram.
Í sjóinn.
Skipt um peru
Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið á leið minni í vinnuna get ég séð að það er lágskýjað og fjörðurinn blýgrár. Norðaustan, hugsa ég, án þess að vita það. Ég hef ekki hlustað á veðurfréttir og ætla ekki að hlusta á þær en þetta er allt saman mjög svo kunnuglegt. Elritréð í garðinum mínum veit þetta líka og felldi lauf í nótt. Böns af þeim.
Það er að koma haust.
Klukkan er tíu mínútur í sjö að morgni og fólk er farið að tínast í vinnu. Stundum týnist það líka í vinnu.
Umferðarniður á Reyðarfirði: Væri ég blindur gæti ég samt dregið þá ályktun að það hafi rignt í nótt. Veghljóðin eru þannig. Ekki að ég þurfi að beita neinni ályktunarhæfni. Ég sé ágætlega og sé það til dæmis á hnakknum á hjóli dóttur minnar að það hefur rignt í nótt.
Þá þarf ég ekki að vökva. Þá þarf ég ekki að þrífa bílinn.
Ég geng áleiðis niður bæ með tölvutöskuna á bakinu og mér datt í hug að skrifa eitthvað í vasabókina mína en innblásturinn er skammvinnur og hugsanir um eitthvað sem gerast þarf í vinnunni, eins og skot, kæfa þessa tilraun í fæðingu. Innblásturinn rann sitt skeið á sirkabát sjö sekúndum.
Ég heyri fólk tala saman þegar ég geng fram hjá húsi sem liggur við aðalgötuna. Mér heyrist þetta vera pólska og ég velti fyrir mér í andartak, áður en næsta skynjun og næsta hugsun tekur við, um hvað þau séu að tala. Mér dettur ekkert sniðugt í hug. Þau eru eflaust bara að tala um þetta venjulega, að það þurfi að fara í búð, “ekki gleyma hleðslutækinu eins og þú gerðir í gær”, hver ætlar að skutla í afmælið. Já, og hver kláraði eiginlega AB-mjólkina? Og var búið að losa stífluna inni í þvottahúsi eins og búið er að marglofa?
Við brúnna slær bakaríslykt fyrir vitinn. Fyrir utan ilminn af kaffinu og sýrlensku handsápunni sem ég notaði í morgun er þetta fyrsti ilmur dagsins og sá besti til þessa.
Allt í einu langar mig að byrja reykja pípu aftur.
Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið sé ég ljósaperu blikka inni í vöruskemmu handan við bakaríið og hugsa með sjálfum mér hvort hún hafi verið biluð lengi, hvort ég hafi hreinlega ekki tekið eftir henni og hvort menn ætli í alvörunni ekki að fara skipta um peru.
Í Mjóafirði
Inni í Sólbrekku les ég um forfeður mína í gamalli bók. Þau bjuggu á Krossi um tíma, hér hinum megin í firðinum, bæ sem fyrir löngu er farinn í eyði og einungis tóftirnar eftir. Skilst mér. Þangað hef ég aldrei komið þótt það hafi lengi verið á langtímaplaninu.
Þetta var fátækt fólk með öllu sem því tilheyrir á gamla Íslandi og það sem ég les er frásögn af ekta íslenskum barningi.
Kuldi og hungur. Og svo framvegis.
Nútímamenn segja að geðheilsan sé manns einkamál, þú þurfir bara að temja þér jákvætt hugarfar, stunda innhverfa íhugun, jóga, borða kolvetnasnautt fæði og gera tilraunir með ayahuasca.
Segðu þetta við fátækt fólk. Segðu þetta við fólk sem lætur börnin frá sér.
…
Langalangafi minn, Jónas Þorsteinsson, endaði á Norðfirði og bjó þar í húsi sem kallaðist hinu kaldranalega nafni “Harðangur”. Þar stundaði hann grasalækningar meðfram sjómennsku og öðrum tilfallandi verkastörfum í landi. Og hann orti líka og fékk viðurnefnið Skáldi.
Það kemur fram í bókinni sem Villi á Brekku skrifar um Mjófirðinga að langalangafi minn hafi sjaldnast gefið sér tíma til að yrkja. Þið vitið: vinnan og baslið, svo maður gleymi ekki þunglyndinu sem hrjáði hann og ég, verandi yfirmáta sjálfhverfur, hugsa um mína eigin stöðu á meðan ég sötra kaffi inni í Sólbrekku.
Af svona fólki ertu kominn. Fátækt fólk sem þraukaði.
Mundu þetta.
Mundu þetta þegar þegar þér finnst þú vera ættsmár og einn.