Ég náði mér í spil úr ritstíflustokknum. Er fólk gott, spurði hann.
Erfið spurning. Erfitt að trúa því að svo sé.
En ég kýs að trúa því og það er, held ég, lífsviðhorf fremur en nokkuð annað. Lífið er ögn einfaldara ef maður trúir á hið góða í fólki þótt raunveruleikinn sé sennilega sá að til eru siðspilltir og eigingjarnir drullusokkar sem er sama um allt og alla.
En er mögulegt að þeir hafi ekki verið knúsaðir nóg í æsku?
*
Fyrir nokkrum árum stóðum við Esther úti á götu í Dehli, Indlandi, og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Leigubílstjórinn gafst upp á að finna hótelið okkar og bað okkur um að yfirgefa bílinn. Sem og við gerðum. Ekki veit ég almennilega hvers vegna samt. Hann var bara eitthvað svo hvass við okkur, bara út með ykkur! Virtist meina þetta innilega, vildi fyrir alla muni losna við okkur. Hann henti í okkur töskunum þar sem við stóðum sem lömuð á gangstétt í fjörutíu stiga hita. Hvarf síðan inn í bílahaf miðborgarinnar og til hans hefur ekki spurst síðan.
Við gengum í smá spöl og fundum eitthvað sem leit út eins og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn (eftir á að hyggja var það sennilega engin tilviljun að hann lét okkur út þarna). Þar inni voru á að giska tíu karlmenn (en engir ferðamenn) sem buðu fram þjónustu. Við völdum einn úr hópnum en hann fann engar upplýsingar um hótelið og enginn hinna kannaðist við það heldur og enginn þeirra virtist líta á það sem hlutverk sitt að finna út úr málunum.
Ég fann fyrir þessum ótta sem maður fann stundum í gamla daga þegar maður átti ekki snjallsíma. Ég kannaðist við þessa tilfinningu því ég hafði einu sinni áður villst í stórborg. Í París ´88, þrettán ára, auralaus og allslaus. Ætlaði að fara betla peninga til að hringja heim í bræður mína á Íslandi þegar ég rakst loksins á foreldra mína sem voru algerlega miður sín eins gefur að skilja.
En hvern andskotann áttum við að gera? Strandaglópar í risavaxinni stórborg, nýlent, rækilega menningarsjokkeruð. Var þetta hótel yfir höfuð til?
Ég var um það bil að örvænta þegar riddarinn á hvíta hestinum mætti á svæðið. Þessi hvíti riddari var klæddur ljósgrænum hermannafötum með axlaskúf, heiðursmerkjum og öllu tilheyrandi. Við fyrstu sýn hefði hann átt að virka traustvekjandi en hann hélt á bjórflösku og var bersýnilega langdrukkinn. Okkur leist sem sagt ekkert á hann en við höfðum engu að tapa (nema lífinu). Hann spurði okkur nokkurra spurninga og fór síðan í símann og bara reddaði málunum á núll einni eins og…tja…eins og herforingi er það ekki?
Innan skamms kom bíll sem fór með okkur rakleitt á hótelið. Málinu lokið og við sváfum eins og englar um nóttina á þvölu laki í undarlega ljósbláu hótelherbergi.
*
Það er óþarfi að lesa of mikið í þetta. Ég veit ekki hvort fólk sé alltaf gott en mér varð samt hugsað til grænklædda liðsforingjans, sem var fullur á virkum degi þarna í Nýju Dehli um árið. Hann hefði svo sannarlega geta yppt vel skreyttum öxlum og bara að snúið sér að næsta bjór.
En hann ákvað að grípa í taumana. Blessaður kallinn.
Skál fyrir honum.