What lessons did you learn this past year – how have you grown and improved?
Sko…
Það er ekki mitt að segja, kæri stokkur. Ekki þegar öllu er á botninn hvolft. Því skynjun manns á eigin gjörðum og hugsunum er brengluð. Mér finnst ég vera hvers manns hugljúfi alveg þangað til eiginkonan spyr mig:
Hvers vegna ertu þá svona æstur?
Nú og þá spyr ég á móti:
Hví gaslýsir þú mig, kona?
o.s.frv.
…
Ég gaf út ljóðabók í vor. Ég ætlaði ekki að gefa hana út. Ætlaði að prenta hana í nokkrum eintökum og gefa vinum og ættingjum. Egill Arnaldur, vinur minn og gúrú, las hana yfir og sagði mér að láta prenta hundrað eintök. Hann orðaði það sem svo að það væri eitthvað svo kynferðislega bælt við skúffuskáldskaparlistina. Ertu eitthvað bældur, Jón minn? Svarið var já. Ég er yngsti sonurinn í geðveikri fjölskyldu og ég er alltaf með grín og glens á vörunum. Halda fólki góðu. PR er mitt fag!
Að fara deila einhverjum sorgarvaðli með fólki sem ég þekki ekki…það þurfti að sannfæra mig um að það væri góð hugmynd.
Þessi bók varð til á löngum tíma. Það söfnuðust saman textar á tæpum tíu árum og einhvern laugardagsmorguninn í heimsfaraldrinum sá ég að þarna var mögulega komið efni í bók. Ég hafði í nokkur ár sest niður í þeim tilgangi að skrifa bók en jafnan gefist upp eftir svona þrjá mánuði, já eða þrjá daga. Þrjár mínútur?
Þessi var öðruvísi. Hún skrifaði sig eiginlega sjálf því ég leiddi aldrei hugann að bók. Það var ekkert markmið með þessum skrifum annað en að skrifa. Hrækja þessu úr mér og sjá svo bara til. Þetta var eins og lag sem varð til upp úr löngu djammi.
…
Markmiðið er að skrifa. Helst daglega sé hægt að koma því fyrir. Tilgangurinn er að gleyma sér, týna sér, nálgast sig og kannski finna eitthvað nothæft þegar best lætur.
Ég hef sjaldan verið jafn iðinn við skrifin. Megnið ratar í skúffuna en hver veit.
Þetta lærði ég á árinu. Já, og ég lærði að baka franska súkkulaðiköku.
That’s it.