Yfir moldinni

Þetta er löngu liðin tíð
en öll leikkerfin
sem þú samdir
með vísifingri í mölina
á hrufluðum hnjám
umkringdur vinum og yngri frændum
enduðu með marki
sem þú skoraðir

og þetta er minningin mín
um þig

gamall vinur þinn
sagði frænku sem sagði gömlum frænda
sem sagði svo mér
eitt og annað
um skilnað
og önnur vandamál fullorðinna
sem enda sjaldnast með marki

en það breytir engu

þetta er minningin mín
um þig

 

Ljósmynd í snjáðu albúmi

I

Hvít skyrta
og brilljantín

ég þekki föður minn
þar sem hann
hallar sér fram á borð
með glundur í glasi
töffaralegur
ólofaður
og ölvaður

ég kannast við augnaráðið
minnir á mitt eigið
í þessu ástandi

aftan á myndinni
með tengiskriftinni hans

„Á Þórscafé“

II

Tveggja ára sonur minn
leikur sér með vörubíl á eldhúsgólfinu
haglél
eins og gróft salt
skoppar af glugganum

III

Þeir höfðu fundið borð
og hófust handa
eins og ungum sjómönnum
í Reykjavík
langt
langt
að heiman
var tamt

(get ég ímyndað mér)

og seinna um kvöldið
eftir snúning á dansgólfinu
með reykvískri dömu
hrópaði einn þeirra:

„hún veit ekki einu sinni hvað Scania Vabis er!“

og uppskar svo mikinn hlátur
að hann bergmálar enn

eins og þú getur
ímyndað þér
varð hann vörubílstjóri
eignaðist konu
og hún hann

og þau eiga hvort annað
enn í dag

IV

Sé þau stundum í búðinni
haldast í hendur
sem er ekki sjálfsagt
á þessum aldri
og ég hef oft hugsað
að hún hljóti að vita sínu viti
um sænska bílaframleiðslu
upp úr miðbiki síðustu aldar

 

Tíminn

Þú hlærð ekki lengur
þegar ég brýt saman
súrmjólkurfernuna
og læt hana reka við
á þann hátt
sem pabbi þinn einn kann
en svo hrynja himnar
þegar bekkjarbróðir þinn
kremur býflugu!

þannig er nú það

tíminn
segja þeir
er ólseigur
og líður áfram
eins og stórfljót

ég veit það ekki
varla

ég held nefnilega
svona okkar á milli
að þannig tali bara menn
sem hafa of lítið fyrir stafni

því tíminn
segi ég
er heimsþekkt dansspor
sem geysist áfram
aftur á bak

 

Sektarkennd

Hvað fyllir þig sektarkennd?

Spyr hann mig, stokkurinn. 

Ætli hann sé að vonast eftir heiðarlegu svari? Veit hann ekki að þá þarf ég tólf metra, jafnvel þótt ég noti einfalt línubil og níu punkta letur?

*

Þegar ég borða átján konfektmola en ekki bara einn í fjölskylduboði á Fáskrúðsfirði, þegar ég fýlustjórna börnunum mínum til þess eins að þau klæði sig í vettlinga en það eina sem þau þurftu var knús og þá hefði málið leyst sig sjálft, húfa, vettlingar, trefill og allt; þegar egóið lætur á sér kræla og ég hringsnýst um sjálfan mig í þeirri vissu að allir séu að bíða eftir mínum næsta leik eða já, bara, þegar ég er með hausinn upp í rassgatinu á sjálfum mér, gónandi á mig í speglinum á morgnana, hugsandi: úúú, helvíti líturðu vel út! Þú veist, miðað við aldur!

Þetta er dæmi um einfalt svar við spurningunni.

 *

Við lifum á tímum siðaskipta, eins og mæt kona benti á um daginn, og enginn er undanskilinn. Ekki einu sinni Daði og Gagnamagnið, uppáhalds hljómsveit barnanna minna, og ekkert skrýtið að konur velti því fyrir sér hvort allir karlmenn séu annað hvort pervertar eða ofbeldismenn. 

Stundum er mitt sjálfvirka viðbragð að hlaupa í vörn fyrir kynbræður mína en svo hugsa ég málið. Velti því fyrir mér í svona þrjár til fimm sekúndur og auðvitað veit ég að þarna talar sektarkenndin því ég get ekki einu sinni undanskilið sjálfan mig. Ég get ekki bara sagt:

„Þetta er ekki mér að kenna!“

Því hverjum er þetta þá að kenna? Tommy Lee?

Akkúrat. Einmitt. 

Nei, það verður enginn undanskilinn. Ekki ef við viljum að barnabörnin okkar eignist ærlega feður. 

Þetta var flókið svar. Þau eru fleiri.

 

Á þriðjudegi kl. 14:36

Á stofuborðinu gerviblóm
í vatni
við hlið þess
ljósmynd af bæjarfjallinu
í gylltum ramma
baðað tunglsljósi
og filterum
sem barnabarnið kenndi honum að nota

Alfreð Henry
fyrrum aflaskipstjóri
og formaður golfklúbbsins
reynir að festa hugann
við handboltaleikinn
án árangurs

því að sko

hann er enginn útlendingahatari
bara hreint ekki
pólska stelpan sem þrífur sameignina
sem heitir annað hvort Olivia eða Zofia
er t.d. frábær
og Tito
þessi sem keyrir bílinn
er ekkert nema kurteisin

en hvers vegna
í almáttugs bænum!
þurfa gínurnar
í fatadeild kaupfélagsins
að vera svartar?

 

Blár mánudagur

Á þessum viðkvæma aldri
þar sem öll heilsufarsleg frávik
eru undanfarar
erfiðra
langtíma
veikinda

hversdagslegur hausverkur?
sennilega drög að heilablóðfalli

var þessi fæðingarblettur þarna í gær?
húðkrabbi í fæðingu
no doubt

andstuttur á hlaupabrettinu?
ég held barasta
að ég hljóti að vera fá hjartaáfall!

og saklaus kláði í endaþarmi
hlýtur að vera
gyllinæð morgundagsins

ég er 46 ára og mér er sagt
að svona hugsanir
séu eðlilegar fyrir mann
eins og mig
maður sem er
í lýðfræðilegu tilliti
hvorki né
hvernig sem á það er litið

ég held því
að mér sé ekki stætt á öðru
en að koma mér þægilega fyrir á biðstofunni
(en ekki of þægilega)
og hinkra eftir niðurstöðunni

 

Er fólk gott?

Ég náði mér í spil úr ritstíflustokknum. Er fólk gott, spurði hann.

Erfið spurning. Erfitt að trúa því að svo sé.

En ég kýs að trúa því og það er, held ég, lífsviðhorf fremur en nokkuð annað. Lífið er ögn einfaldara ef maður trúir á hið góða í fólki þótt raunveruleikinn sé sennilega sá að til eru siðspilltir og eigingjarnir drullusokkar sem er sama um allt og alla.  

En er mögulegt að þeir hafi ekki verið knúsaðir nóg í æsku? 

Fyrir nokkrum árum stóðum við Esther úti á götu í Dehli, Indlandi, og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Leigubílstjórinn gafst upp á að finna hótelið okkar og bað okkur um að yfirgefa bílinn. Sem og við gerðum. Ekki veit ég almennilega hvers vegna samt. Hann var bara eitthvað svo hvass við okkur, bara út með ykkur! Virtist meina þetta innilega, vildi fyrir alla muni losna við okkur. Hann henti í okkur töskunum þar sem við stóðum sem lömuð á gangstétt í fjörutíu stiga hita. Hvarf síðan inn í bílahaf miðborgarinnar og til hans hefur ekki spurst síðan.    

Við gengum í smá spöl og fundum eitthvað sem leit út eins og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn (eftir á að hyggja var það sennilega engin tilviljun að hann lét okkur út þarna). Þar inni voru á að giska tíu karlmenn (en engir ferðamenn) sem buðu fram þjónustu. Við völdum einn úr hópnum en hann fann engar upplýsingar um hótelið og enginn hinna kannaðist við það heldur og enginn þeirra virtist líta á það sem hlutverk sitt að finna út úr málunum.

Ég fann fyrir þessum ótta sem maður fann stundum í gamla daga þegar maður átti ekki snjallsíma. Ég kannaðist við þessa tilfinningu því ég hafði einu sinni áður villst í stórborg. Í París ´88, þrettán ára, auralaus og allslaus. Ætlaði að fara betla peninga til að hringja heim í bræður mína á Íslandi þegar ég rakst loksins á foreldra mína sem voru algerlega miður sín eins gefur að skilja.  

En hvern andskotann áttum við að gera? Strandaglópar í risavaxinni stórborg, nýlent, rækilega menningarsjokkeruð. Var þetta hótel yfir höfuð til? 

Ég var um það bil að örvænta þegar riddarinn á hvíta hestinum mætti á svæðið. Þessi hvíti riddari var klæddur ljósgrænum hermannafötum með axlaskúf, heiðursmerkjum og öllu tilheyrandi. Við fyrstu sýn hefði hann átt að virka traustvekjandi en hann hélt á bjórflösku og var bersýnilega langdrukkinn. Okkur leist sem sagt ekkert á hann en við höfðum engu að tapa (nema lífinu). Hann spurði okkur nokkurra spurninga og fór síðan í símann og bara reddaði málunum á núll einni eins og…tja…eins og herforingi er það ekki?

Innan skamms kom bíll sem fór með okkur rakleitt á hótelið. Málinu lokið og við sváfum eins og englar um nóttina á þvölu laki í undarlega ljósbláu hótelherbergi. 

Það er óþarfi að lesa of mikið í þetta. Ég veit ekki hvort fólk sé alltaf gott en mér varð samt hugsað til grænklædda liðsforingjans, sem var fullur á virkum degi þarna í Nýju Dehli um árið. Hann hefði svo sannarlega geta yppt vel skreyttum öxlum og bara að snúið sér að næsta bjór. 

En hann ákvað að grípa í taumana. Blessaður kallinn. 

Skál fyrir honum.  

 

Mér er spurn

London

París

Reyðarfjörður

Róm

skiptir máli hvar maður horfir á Netflix?

 

Ég las ljóð

Jólabókin mín í ár var eftir ljóðskáldið Eydísi Blöndal sem ber heitir Ég brotna 100% niður. Búinn að lesa hana einu sinni og á eftir að lesa hana nokkrum sinnum. Þannig finnst mér best að lesa ljóð. Svona eins og að skrifa texta. Hann þarf að endurskrifa og ljóð þarf að endurlesa. Þannig síga þau hljóðlega til botns. Eða allt að því. Sumt les maður aftur og aftur og skilur ekki baun og stundum er það bara alltílæ. Stundum er bara gaman að lesa góðan stíl.  

En þetta eru ekki þannig ljóð. Þau eru falleg, einföld, einlæg og á nokkrum stöðum mjög áhrifarík. 

Og um hvað fjalla þau?

Það sem er augljósast, það sem blasir við manni eftir fyrsta lestur eru pælingar um sjálfið á tímum samfélagsmiðla. Hvernig við högum okkur á eins og leikarar á sviði, sækjum viðurkenninguna í lækin og kommentin. Lífið er sviðslist. Við erum sífellt að bregast við og það er lítið mál að týna sjálfum sér ef við pössum okkur ekki.   

Þetta kallast á við félagsfræðina sem mér fannst áhugaverðust hér í denn. Goffman og þetta lið sem ég hreifst af þegar Marx, Weber, og Durkheim sleppti. Þetta eru hollar pælingar og Goffman hafði tölvuvert mikil áhrif á mig á sínum tíma. Sennilega varanlegri áhrif en margt annað sem ég las í Bókhlöðunni um árið. 

Er tilvera einhvern tímann ekki performans? segir í bókinni hennar Eydísar og Goffman spurði að þessu líka en vegna þess að hann var fræðimaður en ekki skáld þá svaraði hann spurningunni líka: 

Við erum leikarar á sviði, sinnum allskyns hlutverkum, erum allt í senn: foreldrar, skrifstofufólk, makar, og svo framvegis.  En svo er til eitthvað sem kallast baksvið og þar slökum við loksins á. Erum við sjálf.  

En það er þetta með sjálfið. Það minnir á flughála brekku og maður rennur á rassgatið um leið og maður reynir að grípa það og skilja.

Aðstæðubundnara fyrirbæri vandfundið. 

*

Við forðumst tómið eins og heitan eldinn. Held að þetta sé haft eftir Marlon Brando og ég held líka að þetta sé bara laukrétt hjá manninum. Hvenær er biðin eftir einhverju svo löng að þú freistist ekki í símann? Opnir ekki bók? Setjir ekki plötu á fóninn? Troðir ekki upp í þig konfektmola? Kveikir ekki á sjónvarpinu? Sýpur ekki Pepsi-Maxið? 

Hvenær er innri friðurinn svo mikill að þú farir í fullri sátt við guð og menn upp í sófa, með heilanum þínum gráa, og hugsir ekki neitt?

Svo að segja aldrei. 

Akkúrat!

Góð ljóðabók. Eins hressandi og double espressó.

 

Kinnhesturinn

Ég hef aldrei lent í slagsmálum. Verið hótað eins og gengur og gerist af fullu fólki fyrir utan skemmtistaði en aldrei lamið neinn eða verið laminn af neinu viti. Ég er ekki bara heppinn því ég hef vísvitandi forðast slagsmál. Mér er illa við þau og í raun bara dauðhræddur.  

*

Ég heyrði sögur af pabba og bróður hans í áflogum upp í Atlavík og hér og þar og alls staðar. Sagan af því þegar föður mínum var hent í grjótið eftir stimpingar á bar í Grimsby var t.d. stundum rifjuð upp í beituskúrnum, einkum af Dóra frænda mínum, en sögurnar heyrði ég miklu frekar frá fólki út í bæ. Í hugum sumra var þeirra greinilega minnst sem slagsmálahunda og það var ekki bara talað um þá af lotningu heldur var eins og þeir væru dánir.

En ég var alger eftirbátur þeirra og ég skammaðist mín fyrir það. Ungur karl í sjávarplássi á ekki að vera hræddur við að gefa á kjaftinn. Eða fá á kjaftinn ef því er að skipta. Að lenda í ryskingum eða slagsmálum var vígsluathöfn, ekki ósvipað því að missa sveindóminn eða drekka sig fullan í fyrsta skipti. Með því að lemja eða verða laminn yrði maður loksins karl í krapinu. Og þá kannski kæmist maður loksins í sleik.  

 *

Ég gat ekki hafið mig upp yfir þennan kúltúr, vantaði enn nokkur ár af þroska, og einhvern tímann á stéttinni fyrir neðan Egilsbúð, eftir dansleik með Geirmundi eða einhverjum, sá ég mér leik á borði. Það opnaðist glufa fyrir þátttöku í, að því er virtist, fremur öruggum bardaga. Hið verðandi fórnarlamb, danskur maður sem stóð út á miðri götu og reifst við einhverja heimamenn, virtist auðveld bráð.

Þetta var hægðarleikur. Sigurinn vís.   

Ég gekk því að hópnum, fullur sjálfstrausts, og hófst handa við að gera mig digran en var varla búinn að opna munninn þegar Daninn sneri sér að mér og í stað þess að gefa mér á kjaftinn, sem ég var ómeðvitað að vona, þá löðrungaði hann mig. Svona eins og hann tímdi ekki almennilega að gefa mér á hann.

Ég var að sjálfsögðu ekki meiddur en mig sveið undan þessu.

Einkum á sálinni.